Opið bréf til stjórnar RÚV frá Sillu Knudsen.
Samkvæmt skilgreiningu rasisma er það kynþátta bundið ofbeldi á grundvelli ‘kynþáttar’, hörundslitar, tungumáls, þjóðernis eða svæðisbundins uppruna.
6.maí , 2022 skipaði stjórn EBU að Rússlandi yrði meinuð þátttaka og þar með allri þátttöku í Eurovision sökum þess að þau væru árásagjarnt land sem átti þátt í ólöglegu stríði við Úkraínu.
- Í tvö ár hefur Ísrael staðið fyrir gereyðingu í Palestínu með ólöglegum landtökum og sprengjuárásum og morðum á almennum borgurum í Gaza sem leitt hefur 75.000 manns til dauða, 70% þeirra konur og börn, að frátöldum þeim sem enn eru týnd og grafin undir rústum er rauntalan u.þ.b 300.000 manns drepin.
- Allur innviður á Gaza hefur verið lagður í rúst, allur atvinnuvegur að engu orðinn, öll sjúkrahús gerð að skotmörkum og menntastofnanir sprengdar í loft upp.
- Fjölmiðlum hefur verið haldið frá og þeir sem innanlands eru gerðir að skotmörkum sem leitt hefur til þess að 300 fjölmiðlamenn hafa verið myrtir.
- 10.000 palestínubúar, þar af 350 börn, sitja í fangelsum Ísraels án dóms né laga. Mörg hver til margra ára undir ómanneskjulegum aðstæðum og pyntingum sem margir hverjir lifa ekki af.
- Öll landamæri að Gaza eru lokuð af Ísrael sem sveltir þjóðina með skipulögðum hætti sem leitt hefur til hungursneyðar. 500 manns hafa dáið hungurdauða, þar af 150 börn.
- Alþjóðadómstóllinn í Haag hefur sent út tvær handtökuskipanir vegna þessa alls. Eina á forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu og hina á fyrrum varnarmálaráðherra Yoav Gallant vegna glæpa gegn mannkyni.
- Ísrael hefur verið ásakað af flest öllum mannréttindasamtökum í heiminum um skipulagða stríðsglæpi og einstaklega mikla grimmd gagnvart almennum borgurum. Langflestir sérfræðingar um málefnið tala um þjóðar- og vistmorð í öllum þeim skilningi sem orðin þýða.
En, þrátt fyrir þessar upptalningar hefur stjórn EBU ákveðið að vísa Ísrael ekki úr keppni Eurovision þrátt fyrir yfirgnæfandi álit almennings um að slíkt sé hið eina rétta í stöðunni. 80% aðspurðra telja Ísrael ekki eiga erindi í keppninni vegna stríðsglæpa sinna. Mótmæli hafa verið áberandi um alla Evrópu og hér á landi.
Þegar málið er tekið saman skín tvískinnungurinn og hræsnin í gegn hjá stjórnendum EBU sem misst hafa sjónar á grunngildum keppninnar og ósk aðdáenda hennar. Keppnin sem hefur verið gleðisprengja sem fagnar fjölbreytileika mannlífs með ást og hamingju að vopni er orðið tól til þess öfuga. Ást og hamingja fyrir suma, en ekki alla. Mannréttindi fyrir suma en ekki alla. Eina niðurstaðan sem fæst er sú að þarna er um skýra mismunun að ræða og eru fá svör við þessari mismunun önnur en sú að þetta er hrein og klár kynþáttamismunun sem stýrist af nýlenduhyggju og peningagræðgi. Allt bendir til þess að þeim þykir fólk með hvíta hörund skipta mun meira máli en fólk með brúna hörund.
Kæra stjórn. Það er ekki okkar skoðun. Nú hafið þið tækifæri til að gefa skýr skilaboð út í heim um að okkur þykir vænt um allt fólk, sama hvernig það er á litinn eða hvar það býr. Brot á réttindum nokkurra er brot á okkur öllum. Og við eigum svo sannarlega að sýna stjórn EBU að okkur er ekki sama og að við tökum ekki þátt í þessum sýndarleiki. Það er fylgst með okkur út í heim og það sem við gerum, það sem þið gerið á morgun, skiptir máli. Við getum öll skapað betri heim og haldið gleðihátíð sem skilur ekki eftir óbragð í munni og merjar niður sálina. Takið ákvörðun með mennskunni og segið nei við þátttöku Íslands í Eurovision á meðan Ísrael er leyfð þátttaka. Verum betri og gerum okkar eigin keppni með friði, ást og umhyggju fyrir öllum þeim sem í þessum heimi búa þangað til að EBU hefur séð af sér og leiðrétt sína svörtu samvisku.
Birtist á Facebook síðu höfundar.
