Önnur Intifada óhjákvœmileg ef svona heldur áfram

Jerúsalem er án vafa einn umdeildasti staður jarðarinnar. Tvær þjóðir gera tilkall til þess að hún verði höfuðborg ríkis síns og í trúarbrögðum gyðinga, múslima og kristinna manna er borgin heilög. Það er ef til vill vegna þessa sem Sameinuðu þjóðirnar gerðu borgina og nágrenni hennar að hlutlausu svæði, þegar stofnunin skipti Palestínu milli Palestínumanna og gyðinga 1948. Hlutleysi átti þó alls ekki eftir að verða hlutskipti borgarinnar.

Í stríðinu sem fylgdi skiptingu Palestínu náðu herir gyðinga vesturhluta Jerúsalem, sem þeir innlimuðu í síonistaríki sitt Ísrael, en Jórdanir náðu austurhlutanum, og innlimuðu hann árið 1950. Með innrás í nágrannaríki sín, árið 1967, hertóku Ísraelar svo alla borgina. Þrettán árum síðar var Austur-Jerúsalem formlega innlimuð í ísrael og því lýst yfir að öll borgin væri höfuðborg landsins. Þjóðir heims hafa hvorki viðurkennt innlimunina né að hún sé höfuðborg Ísraels, og hafa því sendiráð sín í Tel-Aviv.

Hvað sem almenningsálitinu í heiminum líður hafa ísraelar unnið að því að gera Jerúsalem að sinni eilífu höfuðborg. Árið 1988 gerðu Frelsissamtök Palestínu (PLO) svo Jerúsalem að höfuðborg Palestínu í táknrænni sjálfstæðisyfirlýsingu. Eins og nýjustu fréttir varðandi landnemabyggðir Ísraelsmanna í borginni sýna mun deilan um borgina halda áfram.

Salman Tamimi er einn nokkurra Palestínumanna sem búsettir eru á Íslandi. Hann er fæddur í Jerúsalem og alinn þar upp og því eðlilegt að fyrsta spurning forvitins sé:

Hvenær og af hverju fluttirðu frá Jerúsalem?

„Árið 1971 vegna hernámsins. Ég var búinn með menntaskólann og langaði að mennta mig meir, en þar sem menntakerfið okkar hrundi í kjölfar hernámsins ætlaði ég til Bandaríkjanna að læra. Ísland átti í fyrstu aðeins að vera viðkomustaður á leið til Bandaríkjanna, en það endaði á annan veg.“

Nú eru Ísraelar fjölmennari en Palestínumenn í Jerúsalem, hver er ástæða þess?

„Ástæðan er náttúrulega hernámið. Palestínumenn hafa ekkert fengið að byggja í borginni frá hernáminu 1967, nema á einu svæði fyrir 300 manns. Það er húsnæðisleysi meðal þeirra og því flytja fjölskyldur þeirra úr borginni. Ísraelar reyna að halda Palestínumönnum í minnihluta. Palestínumenn eru þó enn fjölmennari í austurhlutanum, um 130-140.000 á móti um 120.000 Ísraelum. Með áframhaldandi landnemabyggðum verða Ísraelarnir brátt orðnir fleiri.“

Hvað eru Ísraelar að reyna að gera með þeim aðgerðum sínum að leyfa landnemabyggðir á hæð hjá Austur-Jerúsalem, og hvað munu þessar aðgerðir hafa í för með sér?

„Þeir eru að reyna að einangra borgina frá Vesturbakkanum. Þessar nýju byggðir eiga vera suður af Jerúsalem og með því ætla Ísraelar sér að einangra alla borgina, en þeir eru þegar búnir að byggja annarsstaðar í kringum borgina. Þessar aðgerðir munu kosta fórnir því Palestínumenn munu mótmæla og hernámsliðið þarf örugglega að skjóta í kringum hundrað manns. Friður Ísraela við Egypta, Jórdana og önnur arabaríki getur hæglega farið út um þúfur vegna þessara aðgerða.“

Svipmynd frá Intifada uppreisninni. Palestínskur drengur mundar slöngvivaðinn, en þetta vopn Davíðs gegn Golíat var mikið notað í baráttunni gegn ísraelskum hermönnum. Þeir beittu skotvopnum sínum á móti.
Nú hafa byggingaframkvæmdirnar verið fordæmdar á alþjóða vettfangi. Það virðist ekki hafa nein áhrif á Ísraelsmenn?

„Ísraelsmenn hafa alla tíð komist upp með hvað sem er, þeir gera bara það sem þeim finnst. Aðgerðir þeirra í Jerúsalem er ekkert einsdæmi, nokkur hunduð þúsund ísraelskir landnemar eru á Vesturbakkanum og í Gaza og vera þeirra þar leggur ekki grundvöll að varanlegum friði. Þessi tilvonandi byggð í Jerúsalem verður ólögleg eins og allar aðrar byggðir ísraelskra landnema.“

Telurðu skiptingu borgarinnar milli Palestínumanna og Ísraelsmanna vænlega lausn í deilunni?

„Borgin er á hlutlausu svæði samkvæmt skiftingu S.Þ. 1947, sem tilvera Ísraels byggist á. Með því að virða ekki þessa skiftingu missir ríki þeirra tilverurétt. Þetta er ekki spurning um að hafa borgina skipta eða ekki skipta, þetta er hernumið land. Það á að vera hlutlaust en svo má ræða það hvort rétt sé að hún væri undir sameiginlegri stjórn eða skipt milli Palestínumanna og Ísraela. Fólkið á að fá að ráða því sjálft. Meðan Ísraelar halda áfram núverandi stefnu, mun borgin alltaf vera skipt því skiptingin er þegar fyrir hendi. Engin Ísraeli vogar sér að fara inn í palestínsk hverfi. Skiptingin hverfur ekki nema friður komist á.“

í lokakafla friðarsamnings PLO og Ísrael er gert ráð fyrir að samið verði um stöðu borgarinnar. Hvað heldurðu að komi út úr þeim viðræðum?

„Ég held að friður í borginni muni ekki nást í þessum viðræðum, á meðan stefna Ísraela er eins og hún er í dag. Þetta er ekki friður jafningja því Ísraelar líta á firðarsamkomulagið aðeins út frá eigin hagsmunum og taka ekki tillit til óska Palestínumanna eða annara íslamskra ríkja. Þeir flytja inn fólk á svæði Palestínumanna á meðan þeir tala um frið og þetta stangast á hvort við annað.

Með þessu hátterni Ísraela mun aldrei verða friður á svæðinu. Þetta friðarsamkomulag virðist ganga út á að skila stórum borgum og bæjum til Palestínumanna, en engu öðru. Palestínumenn munu þá vera lokaðir inn í sínum borgum og ekki geta haft eðlileg samskipti sín á milli. Stór vandamál, eins og að yfir helmingur palestínsku þjóðarinnar lifir í flóttamannabúðum, á svo eftir að semja um.“

Þú býst kannski við annarri Intifada?

„Hvorki Palestínumenn né aðrir arabar munu sætta sig við svona meðhöndlun, að fá ekki að koma til þriðju helgustu borgar múslima. Önnur Intifada mun koma fyrr eða seinna ef þetta heldur svona áfram. Ályktanir Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 242 og 338 segja að Ísraelar eigi að hverfa aftur að landamærunum frá 1967, og skila þar með austurhluta Jerúsalem, öllum Vesturbakkanum, Gazasvæðinu ásamt Gólanhæðum. Aðeins 3% hernumdu svæðanna er nú undir beinni stjórn PLO en 97% enn undir hernámi Ísraela.

Palestínumenn gáfu Ísraelum tækifæri til að gera eitthvað í tengslum við friðarsamkomulagið, en ástandið batnar ekkert.“

Birtist í Frjáls Palestína.

Scroll to Top