Oft erfitt að vera hlutlaus í hjálparstarfi

Kaflar úr erindi Sigrúnar Árnadóttur framkvæmdastjóra Rauða kross Íslands á aðalfundi FÍP 2001.


Eins og þið líklega vitið er Rauða kross hreyfingin ópólitísk í hefðbundnum skilningi þess orðs. Óhlutdrægni og hlutleysi eru meðal grundvallarmarkmiða hreyfingarinnar og með óhlutdrægni er átt við að Rauði krossinn veitir fólki aðstoð án þess að gera greinarmun á fólki eftir þjóðerni þess, kynþætti, trúarbrögðum, stétt eða stjórnmálaskoðunum. Hlutleysi vísar til þess að Rauði krossinn tekur ekki afstöðu í deilum eða ófriði, hvort sem er vegna stjórnmála, kynþátta, trúarbragða eða annarar hugmyndafræði. Hins vegar leitast við að gæta hagsmuna fórnarlamba átaka.

Ykkur sem starfið í pólitískum samtökum og eruð ófeimin við að taka afstöðu í pólitískum deilumálum, finnst þetta e.t.v. vera einkennileg afstaða. En Rauða kross hreyfingin hefur náð útbreiðslu um allan heim einmitt vegna þessara hugsjóna og sérstöðu – nú eru Rauða kross eða Rauða hálfmána félög í 176 löndum. Grundvallarmarkmiðin um óhlutdrægni og hlutleysi eru þannig hornsteinarnir í starfsemi hreyfingarinnar – þau eru lykillinn að því að Rauði krossinn geti starfað á átakasvæðum og komið því fólki til hjálpar sem er fórnarlömb stríðsátaka. Merki hreyfingarinnar, rauður kross eða rauður hálfmáni á hvítum grunni, er tákn um að hjálparsveitir hreyfingarinnar aðstoða fólk án tillits til skoðana þess eða uppruna og án tillits til þess hvorum megin víglínunnar það stendur í stríðsátökum.

Hlutleysið er vissulega hornsteinn í starfinu en sá hornsteinn getur líka verið íþyngjandi eða fjötur um fót, ef svo mætti segja. Sendifulltrúar Rauða krossins, sem starfa á átakasvæðum, horfa stundum upp á þannig aðstæður að þeim finnst vart annað vera hægt en að varpa hlutleysinu fyrir róða og vekja athygli alþjóðasamfélagsins á slíkum óhæfuverkum. En það er þeim ekki heimilt – sendifulltrúar eða aðrir þeir sem starfa innan hreyfingarinnar mega ekki taka opinbera afstöðu í pólitískum málum – og það gerir hreyfingin heldur ekki sem heild. Stjórnvöld eða aðrir hópar eru þannig sjaldnast gagnrýndir opinberlega af Rauða krossinum, en það er þó ekki alveg einhlýtt að þessari stefnu sé fylgt. Ef mál eru metin þannig að það þjóni betur hagsmunum fórnarlamba og því starfi sem verið er að vinna er farin sú leið beina sjónum umheimsins að því sem er aðfinnsluvert. Nýlegt dæmi um þetta er að í síðustu viku var haldinn fréttamannafundur í Ísrael þar sem Rauði krossinn gagnrýndi Ísraelsmenn fyrir brot á Genfarsamningunum, m.a. með því að hamla ferðafrelsi fólks í fjölda þorpa í Palestínu og trufla hjálparstarf með ýmsum hindrunum.

Að mínu áliti er þörf fyrir samtök sem taka eindregna pólitíska afstöðu, eins og t.d. ykkar félag, og það er líka þörf fyrir hlutlaus samtök eins og Rauða krossinn. Hvor um sig gegna mismunandi hlutverki og þau þurfa ekki á neinn hátt að vera andstæður heldur frekar mismunandi greinar á sama meiði. /…/

Alþjóðaráð Rauða krossins hefur margítrekað snúið sér til ísraelskra yfirvalda til að knýja á um að þau virði Genfarsamningana á hernumdu svæðunum, en Ísrael fullgilti samningana árið 1951, reyndar með fyrirvara um einstök ákvæði þeirra og án þess að aðlaga landslög að þeim. PLO sendi svissnesku stjórninni tilkynningu þess efnis árið 1989 að samtökin virtu Genfarsamningana og viðbótarbókanirnar tvær, en svissnesk yfirvöld sáu sér ekki fært að viðurkenna þessa tilkynningu formlega vegna óvissu um stöðu Palestínu sem sjálfstæðs ríkis.

En hvað er það sem Rauðakross hreyfingin er að gera á þessu svæði?

Á svæðinu starfar Palestínski Rauði hálfmáninn, Alþjóðasamband landsfélags Rauða krossins og Rauða hálfmánans og Alþjóðaráð Rauða krossins en það sérhæfir sig í að starfa á stríðsátakasvæðum. Ráðið er í raun sjálfstæð og óháð hjálparstofnun, sem stjórnað er af einstaklingum sem allir eru svissneskir borgarar. Á hinn bóginn er Alþjóðasambandið eins og orðið gefur til kynna samband allra landsfélaga og sérhæfir sig í stuðningi við landsfélög, þróunar og uppbyggingarstarf vegna hamfara eða annarrar neyðar utan stríðsátakasvæða.

Alþjóðaráðið hefur starfað á hernumdu svæðunum frá upphafi átaka þar. Ráðið starfar í náinni samvinnu við Palenstínska Rauða hálfmánann og ísraelska landsfélagið, sem kennt er við Davíðsstjörnuna.

Á síðasta ári störfuðu 25 sendifulltrúar og 73 innfæddir aðstoðarmenn þeirra á á hernumdu svæðunum á vegum Alþjóðaráðsins. Meginhlutverk þeirra var að sinna palenstínskum föngum í ísraelskum fangelsum – en einnig í fangelsum á vegum öryggissveita Palestínumanna – og að breiða út þekkingu á Genfarsamningunum, bæði meðal PLO-manna og Ísraelsmanna. Sendifulltrúarnir heimsóttu yfir 2 þúsund fanga á síðasta ári, og sáu um og skipulögðu yfir 60 þúsund heimsóknir ættingja þeirra frá Vesturbakkanum, Gaza og Gólan-hæðunum (þ.e. Sýrlandsmegin). Alþjóðaráðið sá einnig um að koma meira en 8 þúsund Rauða kross skilaboðum áleiðis frá fólki á hernumdu svæðunum til ættingja þeirra sem búa í þeim löndum sem ekki hafa stjórnmálasamband við Ísrael.

Í febrúar [2000] hóf Alþjóðaráðið matvæladreifingu til fólks sem er innilokað á hernumdu svæðunum. Fólkið kemst hvorki til vinnu né á markað. Gert er ráð fyrir að aðstoða um 35 þúsund manns sem búa í 60 bæjum á Vesturbakkanum. Það hamlar hjálparstarfinu að flutningamenn þurfa að taka matvæli og önnur hjálpargögn þrisvar sinnum út úr bílunum og hlaða þá aftur til þess að koma þeim til hinna lokuðu þorpa. Þetta gerist við eftirlitsstöðvar Ísraelsmanna.

Jafnframt hefur Alþjóðaráðið unnið að því að styðja og styrkja starfsemi Palestínska Rauða hálfmánans. Rauða hálfmánafélagið heldur uppi neyðarþjónustu fyrir þá sem særast í átökum, sér um sjúkraflutninga og rekur skyndihjálparstöðvar, og félagið rekur einnig fjölda heilsugæslustöðva.

Því miður er það svo að merki Rauða krossins og Rauða hálfmánans eru ekki virt af aðilum átakanna, hvorki af Ísraelsmönnum né Palestínumönnum þó að yfirvöld beggja hafi lýst yfir vilja sínum um að fara að samningunum. Þannig hefur fjöldi sjúkrabifreiða á vegum Palestínska Rauða hálfmánans orðið fyrir skotárásum og þeir eyðilagðir og sjúkrabílar á vegum ísraelska landsfélagsins hafa verið brenndir, orðið fyrir grjótkasti eða eyðilagðir með öðrum hætti.

Ég ætla nú að víkja stuttlega að því hvernig Rauði kross Íslands hefur stutt starf hreyfingarinnar á þessu svæði.

Fyrst er þess að geta að Rauði kross Íslands hefur mótað sér ákveðna stefnu í alþjóðastarfi þar sem skilgreind eru þau verkefni og landsvæði sem félagið leggur höfuðáherslu á. Þörfin fyrir aðstoð er óþrjótandi – eins og við vitum – og ætti að vera nóg að minna á að talið er að 1,3 milljarður manna í heiminum búi við sárustu örbirgð og um þessar mundir eru háð vopnuð átök á meira en 30 stöðum í heiminum.

Í stefnu félagsins segir að félagið leggi höfuðáherslu á heilbrigðismál og uppbyggingu landsfélaga Rauða krossins þegar veitt er aðstoð erlendis. Brýnt er að byggja upp landsfélög Rauða krossins í fátækum löndum svo að þau geti staðið á eigin fótum og unnið að því að bæta hag þeirra sem verst standa. Öflugt landsfélag er forsenda öflugrar starfsemi, m.a. á sviði heilbrigðismála sem eru hitt áhersluverkefn félagsins.

Önnur ástæða þess að félagið hefur ákveðið að beita sér í uppbyggingu landsfélaga og í heilbrigðismálum er að starfsfólk á aðalskrifstofunni hefur aflað sér töluverðrar reynslu og sérþekkingar á þessum tveimur málaflokkum.

Loks má nefna að takmarkaður mannafli hefur þýtt að félagið hefur varast að dreifa kröftum sínum of víða. Þess vegna hefur verið lögð áhersla á að takmarka fjölda þeirra landa, sem unnið er í. Lögð hefur verið áhersla á að starfa aðallega í tveimur heimsálfum, þ.e. Afríku og Evrópu.

Miðausturlönd eru þess vegna ekki meðal þeirra svæða sem lögð er áhersla á, a.m.k. ekki með tvíhliða samstarfi. Undantekningin frá þessu er að árið 1993 veitti ríkisstjórnin 8 milljóna króna framlagi til Rauða krossins sem verja skyldi til uppbyggingarstarfs á sjálfsstjórnarsvæðunum. Í framhaldi af því starfaði íslenskur hjúkrunarfræðingur við að byggja upp heilbrigðisþjónustu á sjálfsstjórnarsvæðunum, aðallega við að endurskipuleggja og samhæfa rekstur heilsugæslustöðva Palestínska Rauða hálfmánans. Einnig var stutt við uppbyggingu og rekstur heilsugæslustöðvar í Biddu, sem er bæjarfélag skammt frá Jerúsalem.

Birtist fyrst í Frjáls Palestína.

Höfundur

Stöðvið helför Ísraels á Gaza - Mótmæli.
Mótmæli við ríkistjórnarfund Hverfisgötu 4, föstudaginn 22. ágúst klukkan 8:45, nánar.

Scroll to Top