Óbærilegur veruleiki

Góðan dag kæru femínistar,

Í dag, þegar við komum saman í tilefni alþjóðlegs baráttudags kvenna, liggur okkur þungt á hjarta þungi grimmdarverka þjóðarmorðsins sem systur okkar hafa mátt þola á Gaza og í Palestínu. Þjáningarnar sem þær hafa mátt þola, sársaukinn sem þær hafa borið, er ekki bara tölfræði – þetta er óbærilegur veruleiki sem krefst athygli okkar og aðgerða.

Sjáið fyrir ykkur andlit þessara kvenna, tárin sem hafa blettað kinnar þeirra þegar þær hafa grafið börnin sín, drauma þeirra, von þeirra um betri framtíð. Ímyndið ykkur eymd móður sem neyðist til að færa nýtt líf inn í heim sem er gjörsneyddur samkennd og góðvild, líkami hennar vígvöllur, þolmörk anda hennar reynd til hins ítrasta.

En hryllingurinn endar ekki þar. Nei, hryllingurinn dýpkar aðeins þegar við horfumst í augu við veruleika daglegrar tilveru þeirra. Í heimi þar sem aðgangur að hreinlæti er í huga flestra sjálfsagður hlutur, er um 700 þúsund konum og stúlkum á barnaeignaraldri á Gaza og Palestínu neitað um jafnvel tíðavörur sem nauðsynlegar eru heilbrigði þeirra. Ímyndið ykkur eitt augnablik þá óvirðingu að hafa ekki aðgang að dömubindum eða hreinu vatni á salernum.

Sjálfur kjarni reisnarinnar sviptur burt, sem skilur þær eftir með lítið til að sinna daglegu lífi sínu annað en þrautseigju og von. Þegar við tölum um þjáningar þeirra skulum við ekki gleyma því að þær eiga sér stað í víðara samhengi. Í Súdan, í Kongó, í ótal öðrum heimshornum, standa konur frammi fyrir svipuðum hryllingi, líkamar þeirra ekki annað en peð í tafli um völd og stjórn.

FP Enas Dijani Kvennadagur
Enas Dajani er frá Palestínu og
búsett á Íslandi. Hún er nýútskrifuð úr
kynja- og jafnréttisfræði við Háskóla
Íslands

Meðganga, tími sem ætti að einkennast af umhyggju og stuðningi, hefur orðið að lífshættulegu ferli fyrir þessar konur. Þeim hefur verið meinaður aðgangur að fullnægjandi næringu og læknishjálp og standa frammi fyrir vofu vannæringar og sjúkdóma. Á mikilvægustu augnablikum fæðingarinnar hafa þær neyðst til að þola ólýsanlegan sársauka án viðeigandi umönnunar eða deyfingar, oft á yfirfullum sjúkrahúsum þar sem legurými er orðið munaður.

Og eins og þjáning þeirra hafi ekki verið næg, þá hefur eyðileggingin, sem utanaðkomandi öfl hafa valdið heimilum þeirra og samfélögum, hrakið þær á flótta, allslausar. Skólar og háskólar, sem áður voru tákn vonar og tækifæra, eru nú orðnir að rústum, sem neitar stúlkum og konum um rétt þeirra til menntunar og betri framtíðar. Heimili þeirra, vinnustaðir, sjálf öryggistilfinningin – allt hrifið á brott á örskotsstundu.

Gleymum því ekki að konur verða verr úti á krepputímum. Ekki aðeins erum við oft aðalskotmörk ofbeldis og kúgunar, heldur öxlum við líka þá gríðarlegu ábyrgð að halda fjölskyldum okkar og samfélögum saman í ólýsanlegu mótlæti. Þvingaðar til að þola hinn ólýsanlega sársauka sem fylgir missi og landflótta, höfum við séð konur á Gaza ganga til verka á hverjum degi til að sjá um ástvini sína, til að fæða börn sín þegar matur er af skornum skammti og til að veita öðrum huggun þegar vonin virðist vera úti.

Ennfremur verðum við að horfast í augu við þann harða raunveruleika að líkamar kvenna hafa ávallt verið notaðir sem vígvellir í átökum sem feðraveldið og græðgi kynda undir. Á Gaza hafa konur ekki aðeins staðið frammi fyrir ólýsanlegu ofbeldi hernaðar, heldur einnig plágu kynferðisbrota og nauðgana af hendi ísraelskra hermanna.

Þessi voðaverk, staðfest af Sameinuðu þjóðunum, eru áleitin áminning um dýpt mannlegrar siðspillingar. Og samt sem áður, þrátt fyrir yfirgnæfandi sönnunargögn um ofbeldið, hefur þessi hryllingur verið að mestu hunsaður af fjölmiðlum, á meðan þjáningar ákveðinna kynþátta og stétta kvenna eru settar í sviðsljósið.

Þetta valkvæða sviðsljós er ekki bara móðgun við fórnarlömbin – það er svik við sjálfar meginreglur réttlætis og jafnréttis sem okkur er annt um. Sem femínistar, sem talsmenn réttinda allra kvenna, getum við ekki leyft slíku óréttlæti að viðgangast. Við verðum að tjá okkur, við verðum að krefjast ábyrgðar og við verðum að sýn samstöðu með systrum okkar sem hefur verið þaggað niður í og þær jaðarsettar allt of lengi.

Við systur mínar á Íslandi, við femín­istafélaga mína, segi ég þetta: Ef við ætlum að beita okkur fyrir samtvinnun femínisma, ef við ætlum að sýna samstöðu, þá verðum við að standa sterkar við hlið kvenna í Palestínu, Súdan, Kongó og víðar.

Við getum ekki lokað augunum fyrir þjáningum þeirra, við getum ekki þvegið hendur okkar af blóði þeirra og samt kallað okkur femínista. Þú getur ekki kallað sjálfa þig frjálsa á meðan aðrar konur eru ekki frjálsar!

Samstaða okkar verður að vera meira en bara í orði – hún verður að vera ákall til aðgerða, ákall um réttlæti og jafnrétti fyrir allar konur, alls staðar.

Við skulum standa saman, hlið við hlið, hönd í hönd, og berjast fyrir heimi þar sem hver kona og kvár eru metin að verðleikum, valdefld og frjáls til að lifa lífi sínu með reisn og virðingu.

Því þar til sá dagur kemur er feminískri baráttu okkar langt frá því að vera lokið.

Frjáls Palestína!

Birtist í Frjáls Palestína.

  • Höfundur er nýútskrifuð úr kynja- og jafnréttisfræði við Háskóla Íslands.

Félagið Ísland-Palestína boðar til samstöðufundar "Hvílum Júróvisjón" n.k. miðvikudag 10. desember 2025, kl. 14:30 hjá RÚV í Efstaleiti 1, sjá nánar.

Scroll to Top