Eftir margendurteknar kosningar er komin ný ríkisstjórn í Ísrael undir forystu Naftali Bennett. Boða stjórnaskiptin einhverja breytingu í stefnu og starfsháttum – hefur fall Netanyahu breytingar í för með sér fyrir Palestínumenn?
Þeir sem hafa fylgst með stjórnmálum í Ísrael vita að nýja „miðjuhægri“ stjórnin breytir engu til hins betra. Síonisminn hefur ekkert annað að bjóða – ekkert nema áframhaldandi mannréttindabrot, landrán og morð. Landtökuliðið á Vesturbakkanum stelur æ stærra svæði af Palestínumönnum með fullum stuðningi ríkisstjórnarinnar og hersins.
Ráðherrar í nýju ríkisstjórninni eru tuttugu og átta frá níu stjórnmálaflokkum. Hér er yfirlit yfir þá helstu og þeirra afstöðu til Palestínumanna.

Mynd frá Wikimedia Commons CC 3.0
Forsætisráðherrann, Naftali Bennett, er hægri öfgamaður sem hefur lýst því yfir að á hans vakt verði ekkert samið við Palestínumenn, þeir geti gleymt draumum um eigið ríki, Eftirfarandi yfirlýsingar hans segja allt um þá stjórn sem hann stýrir. „Það er ekkert hernám, við eigum landið, það þarf ekki að ræða þetta frekar. Ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að hindra að ríki Palestínumanna rísi nokkurn tímann“„engar samningaviðræður“ „þeir geta étið crème brûlée.“
Hugmyndir Bennetts um framtíð Palestínumanna eru einfaldar; Vesturbakkinn verður innlimaður í Ísrael, Palestínumenn skulu búa á afmörkuðum svæðum undir eftirliti Ísraelshers – milljónir manna án réttinda og möguleika til þess að hafa áhrif á stöðu sína. Bennett hélt nýlega ræðu á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna án þess að minnast einu orði á tilvist Palestínumanna. Hann vonar að heimurinn muni gleyma baráttu þeirra fyrir frelsi og mannréttindum.
Í stjórn Bennetts situr utanríkisráðherrann Yair Lapid, formaður Yesh Atid-flokksins sem er sagður vera miðjuflokkur og sækir fylgi sitt til miðstéttarfólks sem aðhyllist veraldlegar (secular) hugmyndir og telja m.a. að strangtrúargyðingar eigi ekki að vera undanskildir herþjónustu. Flokkurinn vill ekki afnema ólöglegu landtökubyggðirnar á Vesturbakkanum en segist þó styðja frið og s.k. tveggja ríkja lausn – sem auðvitað gengur ekki upp.

Varnamálaráðherra er Benny Gantz, maðurinn sem sagði að það ætti að sprengja Gaza „aftur til steinaldar“. Hans nýjasta afrek er að lýsa fjölda mannúðarsamtaka Palestínumanna sem hryðjuverkasamtök. Meðal samtaka sem Gantz ræðst gegn eru samtökin DCIP sem verja börn gegn ofbeldi Ísraelhers og Samband palestínskra kvennanefnda UPWC sem var stofnuð 1980 með það markmið að valdefla konur í Palestínu.
Ayelet Shaked er innanríkisráðherra í ríkisstjórn Bennetts. Hún hefur sér til frægðar unnið að lýsa því yfir að það beri að drepa palestínskar mæður því þær ali af sér hryðjuverkamenn og einnig skuli jafna hús þeirra við jörðu. Um árásirnar á innilokaða Gazabúa segir Shaked: „Þau eru öll óvinir okkar og hendur okkar eiga að vera ataðar blóði þeirra“.
Fjármálaráðherrann heitir Avigdor Lieberman. Hann telur að það beri að lífláta arabíska þingmenn á Knessetinu, þingi Ísraels, ef þeir hafa vogað sér að eiga samskipti við Hamas.
Þessi upptalning sýnir okkur hvers er að vænta af nýrri stjórn – stjórn sem starfar á grundvelli síonismans líkt og fyrri stjórnir Ísraelsríkis.
Birtist fyrst í Frjáls Palestína.