„Sérhver ný kynslóð Araba hatar Ísrael meira en kynslóðin á undan.“ Þetta sagði núverandi forseti Sýrlands, Bashar al-Assad, í ræðu sinni nú á dögunum, eftir innrás Ísraelshers í Suður-Líbanon. Nútíma fjölmiðlun leikur ofbeldismenn ábyrgs ríkisvalds – Ísrael – jafn grátt og fréttaflutningur bandarískra sjónvarpsfréttamanna bandarísk stjórnvöld í Víetnamstríðinu á 7. áratugnum. Uri Avnery, fyrrum þingmaður á ísraelska þinginu, segir meginafrakstur nýlokinnar styrjaldar vera hatur. Myndir af dauða og eyðileggingu náðu inn á hvert arabískt heimili, sérhvert heimili múslíma, frá Indónesíu til Marokkó, frá Jemen til múslímsku gettóanna í Lundúnum og Berlín. Ekki bara í eina klukkustund eða heilan dag, heldur í 33 daga samfellt – dag eftir dag – klukkutímum saman. Menn horfðu upp á limlesta barnslíkama og hágrátandi, örvilnaðar mæður á rústum híbýla sinna, ísraelsk ungmenni að skrifa kveðjur utan á flugskeyti mínútum áður en þeim var skotið á þorp í Líbanon.
Ég get ekki komist hjá því að minnast orða Olofs Palme 1982, þegar Ísraelsmenn gerðu innrás í Líbanon og hernámu suðurhluta landsins þar, hernám sem varði þar til fyrir sex árum:
„Mín kynslóð, sem í æsku horfði á myndir af gyðingabörnum í útrýmingarbúðum og gettóum, við skynjuðum þau skelfilegu afbrot sem framin höfðu verið á þeim og sem áttu eftir að valda þeim sársauka sem hefur fylgt okkur alla ævi – við finnum að sjálfsögðu til örvæntingarfulls sársauka þegar við sjáum myndirnar af palestínsku börnunum, sem nú eru ofsótt á nákvæmlega sama hátt. En í þetta sinn er það Ísrael sem stendur á bak við gjörðina.“
Í dag er hægt að horfa á sjónvarpsefni víða að. Horisont er heimildamyndaþáttur í danska sjónvarpinu. Þar var nýlega viðtal við Hisbullah-liða, barnakennara í líbönsku þorpi. Hann sýndi viðmælandanum víðfeðmt landsvæði þaðan sem Ísraelar höfðu flutt mikið magn af gróðurmold yfir til Norður-Ísrael. Ástandið er svipað um allan Vesturbakkann. Ísraelar taka byggingarefni, vatnsuppsprettur og land að eigin geðþótta. Án þess að greiða fyrir. Palestínumenn mega ekki gera dýpri brunna en 150 metra. Þrjú leyfi fyrir slíka brunnagerð hafa verið veitt á Vesturbakkanum frá 1967. Listinn yrði langur ef allt ætti að telja upp. Frá 1967 hafa Palestínumenn búið við hernám, ekki bara svonefndir Palestínu-Arabar (strangt til tekið líta Palestínumenn ekki á sig sem araba) heldur einnig kristnir menn, sem eru ýmist af grískum, armenskum eða arabískum uppruna, en hafa búið um aldir í landinu. Ísraelsk stjórnvöld beita alls konar aðferðum við að vinna gegn starfsemi kirkjunnar í landinu. Ein aðferð er að hækka jafnt og þétt skatta og gjöld á sjúkrahússtofnunum hennar. Vesturevrópskar kirkjur stunda víðtækt mannúðarstarf á Vesturbakkanum, bæði á vegum rómversk-kaþólsku kirkjunnar, ensku biskupakirkjunnar og þeirrar lútersku. Meðal annarra eru það prestar á eftirlaunum frá Svíþjóð, Danmörku og Noregi sem fylgja palestínskum börnum til og frá skólum til að vernda þau fyrir grjótkasti ísraelskra hermanna. Nokkuð sem maður trúir ekki fyrr en maður upplifir það. Þörf fyrir öflugri stuðning norrænu kirknanna er hins vegar mikill.
Þegar 20 ár voru liðin frá Sex daga stríðinu árið 1987 hélt sænski utanríkisráðherrann Sten Andersson ræðu og sagði m.a.:
„Allan þennan tíma hefur Ísrael hersetið víðáttumikið arabískt landsvæði þar sem mikill fjöldi fólks býr. Þetta er fremur sorglegt afmæli. Sorglegt vegna þess að Palestínumenn búa við hernám eins og annars flokks íbúar á sínu eigin landi. Sorglegt vegna þess að ísraelski hernámsaðilinn hefur tekið að sér það hlutverk að verða kúgari annarrar þjóðar og þar með skapað aðstæður sem með tíð og tíma geta ógnað tilveru Ísraela sjálfra. Sorglegt fyrir samfélag þjóðanna, sem með vaxandi ugg er vitni að því hvernig brot gegn þjóðarétti viðgengst áratug eftir áratug án þess að náist nokkur árangur til að skapa frið. Tvennskonar þjóðaréttur má aldrei verða staðreynd – einn fyrir Ísrael og annar fyrir umheiminn að öðru leyti.“

Í dag fer sorglega lítið fyrir stjórnmálamönnum sem standa upp og mótmæla kynþáttaaðskilnaðarstefnu og þjóðernisfasisma zíonismans. Fjöldi ísraelskra menntamanna og friðarsinna saknar þeirra. Ísraelsk stjórnvöld hafa komist upp með að stimpla alla gagnrýni á framferði þeirra sem anti-semítisma eða gyðingahatur. Arabar eru líka semítar og því jaðrar ofstæki gegn múslímum líka við anti-semítisma. Ég lít ekki á mig sem einhvern gyðingahatara þegar ég gagnrýni ofbeldi Ísraelshers. Menn eru hættir að líta á fordæmingu helfararinnar sem einhver sérstök hnjóðsyrði í garð Þjóðverja almennt.
Ég hef séð myndir af líkum eftir sprengikúlur Ísraelshers, horft yfir haugana af brotnum tölvum í palestínskum skólum að lokinni heimsókn ísraelskra hermanna. Hernám kallar á andspyrnu. Andspyrna felst meðal annars í beitingu vopna gegn hernámsveldinu. Þetta er viðurkenndur alþjóðaréttur. Andspyrnuhreyfing Norðmanna og Dana sem beitti meðal annars hryðjuverkum urðu frelsishetjur landa sinna að stríðinu loknu. Út um alla Jerúsalemborg má finna minnismerki yfir hryðjuverkamenn gyðinga sem voru í samtökum eins og Stern, Irgun og Haganah. Menn eins og Menahem Begin og Izhak Rabin voru í slíkum samtökum, samtök sem þessi myrtu árið 1949 Folke Bernadotte friðarsendiboða SÞ.
Nú er mikið talað um rétt Ísraels til að verja sig. Sá réttur gildir einungis um varnarstríð innan eigin landamæra. Hernámsandstaða er líka alþjóðlegur réttur og skráður á spjöld SÞ. Þessi réttur útleggst svo á íslensku:
„Engan hluta lands vors má af hendi láta án viðspyrnu. Nú tekst fjandmönnum vorum samt sem áður að leggja undir sig hluta af landi voru og setja þar á fót eigin stjórn, og er þá landið samt sem áður íslenskt… Andstöðunni verður þá haldið áfram á hernumdu landi. Innrásaraðili skal aldrei upplifa öryggi. Baráttunni skal fram haldið þar til allt landið er laust úr ánauð.“ (segir í reglum S.Þ. um þjóðaréttinn)
Boðskapurinn er: Haldið áfram að berjast á móti. Þetta gildir fyrir Ísland og íslensku þjóðina og það sama á einnig við um palestínsku þjóðina. Ísraelsmenn halda því gjarnan fram að Palestínumenn stundi hryðjuverk – ekki andspyrnu. Í sögulegu samhengi og borið saman við starfsemi Stern gegn Bretum er munurinn óverulegur. Hins vegar hefur því sem næst annar hver palestínskur karlmaður setið í fangabúðum Ísraelshers að meðaltali í 2 ½ ár, og nú sitja nærri 10.000 manns í fangabúðum Ísraelsmanna, meira að segja konur og börn. Ísraelsk ungmenni sem neita að gegna herþjónustu á hernumdu svæðunum eiga yfir höfði sér 6 til 8 mánaða fangelsi fyrir slíka óhlýðni.
Dæmin um hve ástandið er slæmt og hversu vonlaus framtíð palestínskra og ísraelskra ungmenna er í dag á meðan Ísraelar eru ófærir um að fara að samþykkt Öryggisráðs SÞ nr. 242 og hverfa á brott með herlið sitt af palestínsku landi eru óteljandi. Friðarferli Oslóarsamkomulagsins lauk að sjálfsögðu með kosningasigri Ariels Sharon, en hann gekk til kosninga undir kjörorðinu „Peace agreement to pieces“ (rífum friðarsamkomulagið í tætlur) og nýtt samkomulag hefur ekki verið gert. Umheimurinn verður að grípa í taumana ef ekki á að fara enn verr.
Höfundur hefur dvalið tæpt hálft ár á Vesturbakkanum og í Ísrael á árunum 2003 til 2006.
Birtist í Frjáls Palestína.