Neyðarsöfnun Félagsins Ísland-Palestína (FÍP) hófst fljótlega eftir að síðari uppreisn Palestínumanna gegn hernáminu hófst haustið 2000. Frá upphafi hafa safnast 5 milljónir króna. Fyrstu 9 mánuði ársins 2004 hafa komið inn 650.000 kr.
Margt smátt gerir eitt stórt
Aðallega er um að ræða frjáls framlög einstaklinga inn á bankareikning eða í merkt söfnunarílát. Mikið hefur safnast á fjöldafundum og á tveimur listahátíðum sem Félagið Ísland-Palestína gekkst fyrir í samvinnu við listamenn og félagasamtök og einnig drjúgt á mörgum styrktartónleikum sem popptónlistarfólk hefur haldið. Fólk hefur gefið minningargjafir og afmælisgjafir og einstaklingar hafa gefið allt upp í 100.000 kr. Flest framlögin eru þó lág, en margt smátt gerir eitt stórt.

Meirihluta söfnunarfjárins hefur verið varið til að styrkja Læknishjálparnefndirnar (UPMRC) sem eru palestínsk grasrótarhreyfing undir forystu læknisins Mustafa Barghouti, sem er Íslendingum að góðu kunnur. Á þessu ári höfum við lagt 5000 Bandríkjadali (375.000 ísl.kr.) inn á reikning þeirra. Á síðasta ári fengu Læknishjálparnefndirnar hálfa milljón króna frá heilbrigðisráðherra til að koma upp færanlegri heilsugæslustöð. Einnig hafa tvö sjúkrahús, geðhjálparverkefni fyrir börn og blindrabókasafn verið styrkt.
Síðast en ekki síst hafa 24 sjálfboðaliðar fengið ferðastyrk til að dvelja og veita hjálp á átakasvæðum í 2–10 vikur hver. Sjálfboðaliðar hafa með nærveru sinni freistað þess að bjarga mannslífum og hindra limlestingar og að hús saklausra borgara væru jöfnuð við jörðu. Einnig kynnast þeir ástandinu í Palestínu og miðla þekkingu á málinu.
Neyðarsöfnunin er alfarið rekin í sjálfboðavinnu. Kostnaður við hana er nánast enginn og hver króna kemst í réttar hendur. Við aðstoðum gjarna félagasamtök, fyrirtæki og stjórnvöld við að koma stuðningsfé til áreiðanlegra aðila. Við auglýsum hér með eftir fyrirtækjum eða félögum sem vill leggja þessu hjálparstarfi lið. Stjórnvöld mættu einnig sýna lit.
Neyðarsöfnunin til Palestínu heldur áfram. Neyð Palestínumanna er mikil. Þeir búa við stöðuga ógn og eyðileggingu og eiga erfitt með að stunda búskap, atvinnu, viðskipti og sækja skóla. Mannréttindi þeirra eru fótum troðin. Við hvetjum fólk til að taka þátt og leggja peninga eftir efnum og ástæðum inn á reikning Félagsins Ísland-Palestína.
Reikningur: 0542-26-6990,
Kt. 520188-1349
Skýring greiðslu: Neyðarsöfnun
Þorvaldur Örn Árnason,
gjaldkeri FÍP
Birtist í Frjáls Palestína.
