Naji al Ali : ævi og verk teiknarans og baráttumannsins

BA ritgerð Elsu Dórótheu Daníelsdóttur í grafískri hönnun við Hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands.


Inngangur

Í þessari ritgerð verður fjallað um ævi og verk teiknarans Naji al Ali. Fyrst verður fjallað um ævi þessa stórbrotna baráttumanns en hann er og verður ávallt mikils metinn af Palestínumönnum fyrir hreinskilni, heiðarleika og baráttu gegn óréttlæti, óheiðarleika og hernámi Ísraela í Palestínu. Teikningar hans eru Palestínumönnum innblástur og er hann talinn einn af mikilsverðum hetjum og píslarvottum Palestínu. Því næst verður fjallað um teikningar hans og þær táknmyndir sem hann notaði til að koma skoðunum sínum á framfæri. Þær fjórar táknmyndir sem koma ítrekað fram í teikningum hans verða skoðaðar ítarlega ásamt hlutverki þeirra í teikningunum. Þá verða tekin fram nokkur mynddæmi og þau greind í samræmi við hlutverk hverjar táknmyndar fyrir sig. Að lokum verður þetta allt tekið saman og rætt um niðurstöður.

Ég kynntist verkum Naji al Ali fyrst í gegnum manninn minn sem er Palestínumaður, fæddur og uppalinn í Jerúsalem. Frá upphafi talaði hann mikið um eina af aðalpersónunum sem Naji skapaði og er enn í dag eitt helsta baráttutákn frelsis fyrir Palestínumenn. Persónuna kallaði Naji Handala. Í fyrstu áttaði ég mig ekki á hversu mikið táknrænt gildi þessi persóna bar. Fyrir mér var þetta einföld teikning af litlum manni með of stórt höfuð og hár sem stóð í allar áttir. Það var ekki fyrr en við fluttumst til Palestínu árið 2008 með dætur okkar sem ég fór að sjá styrkleikann í Handala. Hann var allstaðar í kringum okkur, meðal annars í formi veggjakrots, hálsmena og lyklakippa. Hvort sem hann var úr gulli, silfri eða krotaður á veggi fór hann að vaxa í huga mér sem stórbrotin persóna og mikilsvert tákn sem hefur haft mikil áhrif á hugsunarhátt minn gagnvart baráttuanda Palestínumanna.

Birtist á Skemmunni.

Scroll to Top