Mótmæli í Ramallah

Þegar ég kom til Ramallah eftir nokkurra mánaða fjarveru varð ég á ný agndofa yfir hversu miklar byggingarframkvæmdir voru þar í gangi. Alls staðar rísa ný háhýsi og mörg þeirra eru falleg. (Arabar virðast hafa meðfædda gáfu í byggingalist, eins og sjá má af hvaða safnriti um byggingalist sem er). Uppgangurinn í byggingaframkvæmdum virðist vera góðs viti og staðfesta fullyrðingar Ísraela um að efnahagurinn á Vesturbakkanum blómstri. En þegar ég gætti nánar að dofnaði ákafi minn. Það fé sem varið er í byggingu íbúðarhúsa fer ekki í að byggja upp verksmiðjur eða aðrar stofnanir sem skapa störf eða leiða til raunverulegs hagvaxtar. Þetta sýnir einungis að sumt fólk efnast jafnvel undir hernámi.

Ég var á leið í móttöku stjórnmála­ erindreka. Ýmsir háttsettir aðilar í heima­stjórn Palestínu og aðrir Palestínumenn af hærri stigum sóttu hana.

Ég heilsaði forsetisráðherra Palestínumanna, Salam Fayyad, með virktum og nokkrum hinna prúðbúnu gesta og gæddi mér á krásunum sem í boði voru. Mér fannst engin spenna liggja í loftinu.

Engan hefði grunað að á þessari sömu stundu færu fram kröftug mótmæli í miðborginni. Þetta var byrjunin á miklu andófi sem enn sér ekki fyrir endann á.

Mótmælendurnir í Ramallah og öðrum bæjum og þorpum á Vesturbakkanum eru að mótmæla hversu dýrt er lifa og efnahagsörðugleikunum almennt.

Palestínskir fréttamenn sögðu mér að bensíverð á Vesturbakkanum væri næstum það sama og í Ísrael: Um það bil átta sjekelar á lítrann. Það samsvarar um átta dollurum á gallon í Bandaríkj­ unum eða 1,7 evrum á lítrann í Evrópu. Þar sem lágmarkslaun á Vesturbakk­anum, um það bil 250 dollarar á mánuði, eru einungis fjórðungur af lágmarkslaunum í Ísrael er þetta svívirðilegt. (Í þess­ ari viku lækkaði heimastjórn Palestínumanna verðið í flýti).

Nýlega, á hátíðisdegi múslima, Eid al-Fitr, sem markar lok föstumánaðarins Ramadan, komu hernámsyfirvöld á óvart og hleyptu um 150 þúsund Palestínumönnum inn í Ísrael. Sumir héldu beint að ströndinni, sem margir þeirra höfðu aldrei séð áður, þó að þeir búi í innan við klukkutíma aksturs fjarlægð þaðan. Sumir heimsóttu heimkynni forfeðra sinna. En margir aðrir fylltust kaupæði. Svo virðist sem að margar vörur séu í raun ódýrari í Ísrael en á hin­ um fátæku hernumdu svæðum!

(Þess má annars geta að ekki var tilkynnt um neitt alvarlegt atvik þann dag.)

Mótmælin beindust gegn heimastjórn Palestínumanna. Það er ekki ósvipað hundi sem bítur í spýtu en ekki manninn sem heldur á henni.

Heimastjórnin getur í raun ekkert gert. Hún er bundin af Parísarbókuninni, efnahagslegum viðauka Oslóarsamkomulagsins. Samkvæmt þessari bókun heyra hernumdu svæðin undir tollayfirráð Ísraels og Palestínumenn fá ekki að ráða neinu um sín eigin tollamál.

Amira Hass hjá Haaretz vísar í eftirfarandi aðstæður: Íbúar Gazastrandarinnar fá ekki að flytja út landbúnaðarvörur sínar, Ísrael nýtir sér vatn, málma og aðrar auðlindir á Vesturbakkanum; Palestínskir þorpbúar greiða mun hærra verð fyrir vatn en ísraelskir landtökumenn, fiskimenn á Gaza mega ekki veiða fisk utan við þrjár mílur frá ströndinni; Palestínumenn mega ekki ferðast um á aðalþjóðvegunum, svo þeir neyðast til að fara dýrar og tímafrekar krókaleiðir.

En það er hernámið sjálft, fremur en nokkur höft, sem gerir allar raunverulegar umbætur ómögulegar. Hvaða erlendi fjárfestir myndi í nokkurri alvöru fara á svæði þar sem allt er háð duttlungum herstjórnar sem hefur allan hag að því að undiroka íbúana? Svæði þar sem sér­ hver andspyrna getur kallað á hrottalegar hefndaraðgerðir, eins og þegar skrifstofur Palestínumanna voru lagðar í rúst í „Aðgerð Varnarskildi“ árið 2002? Þar sem útflutningsvörur geta rotnað mánuðum saman ef ísraelskur keppinautur mútar embættismanni?

Hinar ýmsu þjóðir geta stutt heimastjórn Palestínumanna fjárhagslega til að halda henni gangandi, en þær geta ekki breytt ástandinu. Því síður gæti það breytt miklu ef Parísarreglugerðin yrði afnumin, eins og margir mótmælendanna krefjast. Svo lengi sem hernámið er við lýði eru allar framfarir – ef einhverjar eru – skilyrðum háðar og tímabundnar.

Eftir sem áður er ástandið á Vesturbakkanum mun betra en ástandið á Gaza­ ströndinni.

Vissulega var að nokkru leiti létt á herkvínni í kjölfar árásarinnar á „Tyrkneska skipaflotann“. Nú er hægt að flytja flest allar vörur inn á ströndina frá Ísrael, þó það sé næstum ekki hægt að flytja neitt út. Hafnarbannið er líka í fullu gildi.

Nýverið hefur ástandið hins vegar far­ið hraðbatnandi. Hundruð neðanjarðarganga sem liggja undir landamærum Egyptalands og Gaza veita í raun öllu inn, allt frá bílum til bensíns og bygg­ingarefnis. Og nú, þegar Bræðralag múslima hefur tekið við völdum í Egyptalandi, má vera að þessi landamæri verið opnuð að fullu, en slíkt skref myndi breyta efna­ hagsástandinu á Gazaströndinni til muna.

Nabeel Shaath, fremsti palestínski erindrekinn sagði mér í móttökunni að þetta gæti í raun staðið mjög í vegi fyrir sáttum milli PLO og Hamas. Hamas gæti viljað bíða þar til efnahagsástandið á Gaza­ ströndinni er orðið betra en á Vesturbakkanum, svo Hamas ætti betri möguleika á sigri í palestínskum kosningum á landsvísu. Fyrir sitt leiti vonar Mahmoud Abbas að hinn nýi forseti Egyptalands muni sannfæra Bandaríkjamenn um að styðja Vesturbakkann og styrkja heimastjórnina í sessi.

(Þegar ég rifjaði upp fyrir Shaath þeg­ar ég var við brúðkaupið hans í Austurlandahúsinu í Jerúsalem, en það stendur núna autt, hrópaði hann „Við héldum að friðurinn væri rétt handan við hornið. Síðan þá hefur hann fjarlægst okkur æ meir!“.)

Þrátt fyrir efnahagserfiðleikana er mynd­ in af Palestínumönnum sem varnar­ lausum og aumkunarverðum fórnarlömbum fjarri sannleikanum. Ísraelar vilj­a kannski ímynda sér annað, rétt eins og stuðningsfólk Palestínumanna víða um heim. En Palestínumenn hafa ekki misst kjarkinn. Samfélag Palestínumanna er líf­legt og sjálfbært. Flestir Palestínumenn eru staðráðnir í að eignast eigið ríki.

Abbas kann að biðja Alsherjarþing Sameinuðu þjóðana um að viðurkenna Palestínu sem meðlim án þjóðríkis. Hann kann að gera það eftir kosningarnar í Bandaríkjunum. Ég velti því upphátt fyrir mér hvort þetta myndi í raun breyta stöðunni eitthvað. „Það myndi það svo sannarlega“ fullvissaði palestínskur framámaður mig um í móttökunni. „Það myndi sýna það glöggt að tveggja ríkja lausnin lifir og binda endi á þessa vitleysu um tveggja þjóða ríki“.

Á leiðinni í móttökuna sá ég ekki eina einustu konu á götum úti án blæju. Alls staðar báru þær hijab. Ég nefndi þetta við palestínskan vin minn, sem sjálfur er trúlaus. „Fylgið eykst við íslam“ sagði hann. „En það kann að vera góðs viti, því þetta er hófsamari útgáfa af íslam sem gæti bælt róttækari öflum frá. Sömu sögu er að segja um mörg önnur arabalönd“.

Ég skynjaði enga samúð með Ajatollunum í Íran. En enginn óskaði þess að Ísrael gerði árás. „Ef Íran svarar með því að varpa sprengjum á Ísrael“ sagði Nabeel Shaaath, „þá munu þær ekki gera greinarmun á Gyðingum og Aröbum. Við búum í það mikilli nálægð hverjir við aðra að Palestínumenn munu verða fyrir þeim, rétt eins og Ísraelar“.

Frá því að ég heimsótti Ramallah hafa mótmælin aukist. Svo virðist sem Fayyad þjóni sem eins konar eldingavari fyrir Abbas.

Mér sýnist það ekki réttlátt. Fayya­d virðist heiðarlegur maður. Hann er mennt­ aður hagfræðingur og fyrrum embættismaður hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Hann er ekki stjórnmálamaður og ekki einu sinni meðlimur í Fatah. Efnahagsstefna hans kann að vera íhaldssöm en ég held ekki að það breyti miklu hvað varðar ástandið í Palestínu.

Fyrr eða síðar, og eflaust fyrr en síðar, mun reiði fátækra Palestínumanna beinast annað. Í stað þess að áfellast heima­ stjórn Palestínumanna munu þeir snúa sér að raunverulega kúgaranum; hernáminu.

Ríkisstjórn Ísraels áttar sig á þessum möguleika og flýtti sér því að borga heimastjórninni hluta af því skattfé sem Ísrael skuldar henni. Annars gæti heimastjórnin – stærsti vinnuveitandinn á Vesturbakkanum – ekki borgað starfsmönnum laun við mánaðarlok. En þetta er skammgóður vermir.

Binyamin Netanyahu heldur sig kannski við þá tálsýn að allt sé hljótt á palestínsku vígstöðvunum, svo hann geti einbeitt sér að því að fá Romney kosinn og hræða Íran. Séu Palestínumenn að mótmæla Palestínumönnum sé það allt í lagi. Staðan í átökum Ísraela og Palestínumanna sé óbreytt. Ekkert mál.

En þessi tálsýn er, ja, tálsýn. Ekkert helst óbreytt í átökunum okkar.

Það er ekki aðeins að landtöku­framkvæmdir haldi áfram á fullu skriði – þó hljótt fari – heldur eru hjólin líka að snúast Palestínumegin. Spennan eykst og einhvern daginn mun sjóða upp úr.

Þegar Arabíska vorið kemur loks til Palestínu verða helstu skotspónar þess ekki Abbas og Fayyad. Abbas er enginn Mubarak. Fayyad er algjör andstæða við Gaddafi. Það mun beinast að hernáminu.

Sumir Palestínumenn láta sig dreyma um nýja Intifödu, með friðsöm­um fjöldagöngum gegn táknmyndum hernámssins. Þetta kann að vera of mikil bjart­sýni – Martin Luther King var ekki Arabi. En kröfugöngurnar í Ramallah og Hebron gætu verið vísir að því sem koma skal.

Það er enn sannleik að finna í gamla máltækinu um að átökin hér séu á milli ómótstæðilegs afls og óbifanlegs hlutar.

Uri Avnery er ísraelskur friðaraktívisti, fyrrum hermaður, blaðamaður og stjórnmálamaður. Hann fer fyrir friðarsamtökunum Gush Shalom. Grein þessi birtist á vef samtakanna 15. september 2012.

Einar Steinn Valgarðsson þýddi.

Höfundur

  • Uri Avnery

    Höfundur er ísraelskur rithöfundur, fyrrum hermaður, stjórnmálamaður ,blaðamaður og aktívisti sem hefur helgað langt líf sitt friðarbaráttunni og er meðal stofnenda friðarsamtakanna Gush Shalom.

    Skoða allar greinar

Þjóð gegn þjóðarmorði - Reykjavík - Austurvöllur.
Fjöldafundur laugardaginn 6. september 2025 á Austurvelli, nánar.

Scroll to Top