Viðtal við Amal Tamimi

Amal Tamimi tekur hlýlega á móti mér þar sem ég kem að taka viðtal við hana á heimili hennar snemma á laugardagsmorgni 25. nóvember. Amal Tamimi fluttist til Íslands 1995, þá 35 ára gömul. Hún starfar sem framkvæmdastýra Jafnréttishúss í Hafnarfirði og tók nýlega sæti sem varaþingmaður fyrir Samfylkinguna. Hún varð þar með fyrsti erlendi þingmaðurinn á Alþingi og sat á þingi í mánuð. Viðtalið er tekið þremur dögum áður en Alþingi viðurkenndi sjálfstæði og fullveldi Palestínu. Kjarnyrt og einlæg ræða Amal á þinginu snart djúpt þá sem á hlýddu, þar á meðal þann sem þetta ritar. Hana má finna á vef Alþingis: http://www.althingi.is/altext/raeda/140/rad20111128T212807.html
Það er er stutt í húmorinn hjá Amal og hún hefur þægilega nærveru. Hún hellir okkur upp á vænsta kaffi og við hefjum spjallið.
Áhrif hernámsins
Amal fékk snemma áhuga á pólitík og kynntist hernámi af eigin raun. Þrettán ára gömul var hún handtekin fyrir að mótmæla hernáminu með grjótkasti nálægt Hvelfingu klettsins í Jerúsalem og sat í fangelsi í tvær vikur. Hún varð vitni af því hvernig fólk var handtekið af handahófi af lögreglunni eða hermönnum, sífellt var spurt um skilríki og voðinn vís ef þau voru ekki fyrir hendi. Systir Amal var handtekin þegar Amal var níu ára. Faðir þeirra var veikur og gat þess vegna ekki heimsótt dóttur sína í fangelsið. Hann dó á meðan á fangavist hennar stóð. Allt þetta segir Amal tengt hernáminu.
Til Íslands
Eftir erfitt hjónaband kom Amal til Íslands með börnin sín árið 1995. Bróðir hennar, Salmann Tamimi, bjó hér fyrir og hjálpaði henni með dvalarleyfi og þess háttar. Hún lýsir erfiðum aðstæðum í fyrstu, ekki hafi verið margir útlendingar hér en enskukunnátta hennar hafi hjálpað og hún gat gert sig skiljanlega. Börnin fóru í skóla og hún komst fljótt inn í kerfið. Núna séu aðstæður erfiðari, innflytjendur þurfi t.d. til að mynda að bíða sex mánuði eftir að fá heimilislækni.
Stjórnmál og réttindabarátta
Amal var þegar orðin virk í pólitík í Palestínu og bar það veganesti með sér til Íslands. Hún gat ekki nýtt sér menntun sína í viðskiptafræði hér, þar vó tungumálið þyngst og vann hún þá t.a.m. í fiski, ræstingum og bakaríi, en var skráð öryrki árið 2000. Þá skráði hún sig í háskóla, fremur en að „hanga heima og missa heilann“, eins og hún orðar það. Hún úrskrifaðist með BA-gráðu í félagsfræði.
Eftir 5 ár á Íslandi fór hún að vinna við málefni innflytjenda með konum sem voru komnar til landsins erlendis frá. Amal þekkir af eigin raun mikilvægi þess að nægar upplýsingar séu fyrir hendi um réttindi og skyldur innflytjenda. Árið 2003 var Amal ein þeirra sem stofnaði Samtök kvenna af erlendum uppruna. Samtökin leggja áherslu á sýnileika og að vinna gegn því viðhorfi að innflytjendur séu afætur á samfélaginu, heldur að litið sé á það sem virka þátttakendur og sem manneskjur.
Árið 2006 varð Amal formaður lýðræðis og jafnréttisnefndar í Hafnarfirði og varabjæarfulltrúi eftir að hafa boðið sig fram í sveitarstjórnarkosningum. Hún var einnig kjörin varaþingmaður Samfylkingarinnar árið 2009.
Á Alþingi hefur Amal lagt áherslu á innflytjendamál, einkum hvað varðar íslenskukennslu og túlkaþjónustu. Það vildi síðan svo skemmtilega til að Amal kom inn á þing þegar rætt var um viðurkenningu á sjálfstæði og fullveldi Palestínu og sat í utanríkismálanefnd þegar hún var samþykkt. Breitt bros færist yfir andlit hennar þegar hún nefnir það.
Amal segir stefnu Íslands í málefnum innflytjenda og flóttafólks skárri en þegar hún kom. Hins vegar þurfi að setja þau málefni í sér flokk, nú séu þau dreifð milli ráðuneyta. Eins skorti oft upplýsingar sem geta snert daglegt líf fólks. Til dæmis viti margir útlendingar ekki af því að allir eigi rétt á húsaleigubótum, né að bæturnar eigi ekki að hafa nein áhrif á ríkisborgararétt. Ríkisborgarar sem kunn i ekki næga íslensku geti ekki tekið þátt í samfélagsumræðum, t.d. um ESB eða Icesave. Upplýsingar um þetta séu ekki þýddar og ekki fundir með túlkaþjónustu um þetta, svo að fólk geti fundið að það sé hluti af samfélaginu.
Meiri fordómar eftir hrun
Amal segir að í kjölfar hruns og umræðu um peningamál skynji hún meiri fordóma í garð útlendinga. Fólk telji þá vera að stela störfunum þeirra, en ekki að vinna eigin vinnu. Á erfiðum tímum skapist meiri reiði og hún leiði til fordóma. Í kosningum hafi lengi vel fæstir flokkar talað um málefni innflytjenda. Enginn hafi sagt „Við ætlum að gera svona og svona fyrir útlendinga“, kannski óttist fólk að tapa við það atkvæðum eða að þessi mál séu ekki álitin mikilvæg.
Eitt samfélag fyrir alla
Frjálslyndi flokkurinn rifjast upp í þessu samhengi. Amal segir flokkinn hafa alið á hræðslu og fordómum í garð útlendinga í atkvæðisskyni. Það hafi jafnframt gefið fleira fólki tækifæri til að tala á svipuðum nótum. Hins vegar sé líka vandamál ef útlendingar blandast ekki samfélaginu. Þegar fólk kynnist sé líklegra að fordómar minnki. Hætta sé á að það skapist einangraðir hópar innan samfélagsins eins og víða gerist í Evrópu og það gangi ekki á Íslandi. Við séum lítil þjóð og það þurfi að vera eitt samfélag fyrir alla.
Ríkisfang
Amal segist hafa skynjað breytt viðhorf á Akranesi í kjölfar útgáfu bókarinnar Ríkisfang: Ekkert eftir Sigríði Víðis Jónsdóttur. Fólk sem hafði ekki samband við flóttakonurnar áður en bókin kom út sýnir nú miklu meiri skilning.
Fólk geti ekki ímyndað sér hvað það felur í sér að vera flóttamaður eða vera í lífshættu, fara frá einu landi til annars og leita að friði. Hún minnist þess þegar hún fékk ríkisborgararétt árið 2002 og var með tárin í augunum. Íslensk vinkona hennar hafi ekki skilið hvers vegna þetta hafði svona mikil áhrif á hana, þegar maður fæðist með ríkisborgararétt lítur maður á hann sem sjálfsagðan hlut. En fyrir Amal, sem þá var 42 ára, var þetta í fyrsta skipti sem hún var með ríkisborgararétt. Það sé allt annað þegar maður finnur að það er land sem styður mann og maður getur haldið á vegabréfi og sagt ‚Ég er frá Íslandi.‘ Það fylli mann stolti.
Flóttamenn og innflytjendur
Amal segir skýran mun á því að vera innflytjandi og flóttamaður, þó það vilji gleymast í daglegri umræðu. Eftir hrun hafa til dæmis margir leitað eftir vinnu út fyrir landsteina og aðrir komið hingað í sama skyni; að leita að betra lífi. Flóttafólk flýi hins vegar átök og líf þess sé í hættu. Það hafi hírst jafnvel árum saman í flóttamannabúðum og eigi ekki möguleika á að snúa til baka.
Sameinuðu þjóðirnar ákvarða að hvert land eigi að taka við ákveðnu hlutfalli flóttamanna og þannig komi flóttafólk t.d. til Íslands. Miðað sé við 10% af fólksfjölda landsins sem tekur við flóttafólkinu. Konurnar á Akranesi komu til landsins árið 2008 ásamt börnum sínum árið 2008, alls 28 manns, en tekið var við færri en venja er í kjölfar hruns. Ekki var unnt samkvæmt stöðlum að taka á móti öllum úr búðunum en Ísland leggur sérstaka áherslu á konur í hættu. Sjálf vann Amal með flóttakonunum, og bauð upp á túlka- og samfélagsþjónustu og bjó á Akranesi í tíu mánuði fyrsta árið þeirra á landinu. Hún er í sambandi við þær og lítur í heimsókn af og til.
Amal telur mikilvægt að hægt sé að leggja sönnur á sögu hælisleitenda, að þeir séu þeir sem þeir segjast vera og hafi upplifað það sem þeir halda fram. Sé hægt að sanna það eigi þeir betri möguleika. Þetta sé engu að síður erfitt mál. Flóttamenn eigi alltaf rétt á lögfræðingi í viðtölum og og starfsfólk Rauða krossins sé líka haft með. Biðtíma eftir atvinnu og dvalarleyfi telur Amal of langan, en hún og samstarfsfólk hennar vinna að því að fá úr því bætt. Sex mánaða bið í óvissu um að dvalar og atvinnuleyfi verði endurnýjað og hvort maður fái að vera á landinu eða verði vísað burt á morgun eða næsta ári geri fólki erfitt fyrir að stofna fjölskyldu eða finna yfirleitt fyrir þeim friði og því öryggi að maður fái að vera hér áfram. Eftir 5 ár telur hún að ætti að gefa fólki ótímabundið dvalar – og atvinnuleyfi, en með því skilyrði að ríkisfang fáist ekki fyrr en einstaklingurinn geti sannað hver hann er, liggi það á annað borð ekki fyrir.

Ástandið í arabalöndunum
Amal segir tvískinnung hjá Vesturlöndum og arabaríkjum gagnvart ástandinu. Arababandalagið beiti Sýrland efnahagsþvingunum, en er ástandið verra þar en í Jórdaníu eða Sádi-Arabíu? Ekkert sé gert við því. Bush og félagar hafi sagst ætla að frelsa konur með innrásinni í Afghanistan en konur í Sádi-Arabíu megi ekki keyra bíl. Þetta sé gjörsamlega fáránlegt. Á lýðræði að fara eftir vilja Vesturveldanna? Það sé annað fyrir NATO að vera með herlið í Líbíu en í Sýrlandi. Sýrland styðji Hisbollah í Líbanon og Hamas í Palestínu. Ísrael hafi hernumið Vesturbakkann og Gaza og NATO hafi ekkert aðhafst þar. Eins hafi viðbrögð við innrás Íraks í Kúvaít sannarlega verið önnur en gagnvart Ísrael. Var það það ekki lýðræði þegar Hamas vann í þingkosningum? Hvað sem erjum Hamas og Fatah líði þá hafi þetta verið lýðræði, meti maður á annað borð lýðræði út frá kosningum.
Mikilvægi viðurkenningar og horfur í Palestínu
Amal vonar að sættir náist milli Fatah og Hamas, að stjórnin geti starfað saman og hún lítur þingkosningarnar, sem boðaðar hafa verið í maí, jákvæðum augum. Viðurkenning á Palestínu sé afar mikilvæg í því skyni að koma Palestínu á kortið. Palestína hafi búið í huga og hjörtum fólks þaðan en það verði erfiðara að láta eins og Palestína sé ekki til þegar hún fær formlega viðurkenningu. Amal minnist þess að hafa verið spurð þegar hún kom til landsins og sagðist vera frá Jerúsalem, hvort hún væri gyðingur eða frá Ísrael. Hún sé hvorugt.
Amal segist stolt af því að 80% Íslendinga styðji ákvörðunina samkvæmt skoðanakönnunum, að Ísland hafi tekið eigin ákvörðun með stuðningi við Palestínu og stolt af því vera Íslendingur á Alþingi þegar þetta mikilvæga skref sé stigið.
Viðtal: Einar Steinn Valgarðsson
Birtist fyrst í Frjáls Palestína.