Meðan ranglæti viðgengst verður ofbeldi ekki útrýmt

Salman Tamimi rekur fyrirtækið Garðabæjarpitsu við Garðatorg í Garðabæ. Hann kom til Íslands 3. júní 1971 og hefur búið hér síðan. Hann á íslenska konu og 4 börn. Salman kom hingað frá Jerúsalem. Hann var á leið til Bandaríkjanna til náms, en ákvað að stansa hér og vinna í 3 mánuði, en er hér enn. Stundum er kvartað undan því að útlendingar taki vinnuna frá heimamönnum og séu því ekki æskilegir. Salman er dæmi um hið gagnstæða. Hann hefur skapað sér vinnuna sjálfur, og hefur auk sjálfs sín 4 menn í vinnu.

Salman fæddist í Jerúsalem árið 1955 og ólst þar upp. Hann var spurður:

Hvernig var að alast upp í Jerúsalem?

Það var mjög gott að vera þar fram til ársins 1967 að Ísraelsmenn hertóku borgina og það sem eftir var af hinni gömlu Palestínu.

Hvað breyttist við hertöku Ísraelsmanna?

Þá hófst kúgun á Palestínumönnum og þeir fundu sig vera annars flokks fólk í landi sínu. Ísraelsmenn hafa drottnað þarna síðan og innlimað borgina í ríki sitt. Þetta var brot gegn samþykktum Sameinuðu þjóðanna og var fordæmt m.a. af Öryggisráði þeirra á sínum tíma. Þrátt fyrir þetta ríkja Ísraelsmenn þarna enn og ástandið hefur stöðugt farið versnandi.

Hvers vegna telur þú að Ísraelsmönnum haldist uppi að brjóta með þessum hætti samþykktir hinna Sameinuðuþjóða?
Fp medan ranglaeti vidgengst verdur ofbeldi ekki utrymt 1

Vesturveldin hafa stutt þá hvernig sem þeir hafa hegðað sér, sérstaklega Bandaríkin og hafa þar með óvirt samþykktir S.þ.

Gyðingar segja Palestínu sitt rétta föðurland?

Núna búa a.m.k. tvöfalt fleiri gyðingar í Bandaríkjunum en í Ísrael, auk þess fjölda sem býr í öðrum löndum. Af hverju búa þeir ekki líka í Ísrael? Þarna hafa verið miklir flutningar á fólki gegnum tíðina og enginn veit raunverulegan uppruna þeirra sem búa þarna nú. Nafnið Palestína er t.d. komið úr grísku, með ættflokki sem kom þangað frá Krít löngu fyrir Krist. Gyðingar eru ekki sérstök þjóð, heldur trúflokkur sem starfað hefur í mörgum löndum og gerir enn. Þeir hafa blandast hinum ýmsu þjóðum og rabbíi þarf oft að ákveða hverjir teljist gyðingar. Ég þekki t.d. Palestínumenn sem voru gyðingar en skiftu um trú og eru síðan Palestínumenn. Það er margt sem bendir til að Palestínumenn séu ekki síður afkomendur hinna fornu gyðinga en þeir sem fluttu til landsins og stofnuðu Ísraelsríki. Landið tæmdist aldrei af fólki. Það hefur verið samfelld byggð þarna alla tíð. Það búa t.d. margir gyðingar í öðrum arabalöndum og eru kallaðir arabar. Okkur skiftir ekki máli hverjir bjuggu þarna fyrir tvö þúsund árum.

Nú voru 413 Palestínumenn teknir í des s.l. og reknir út í eyðimörkina. Sumir hafa kallað þá hermdarverkamenn. Hvað segir þú um það mál?

Þessir menn voru teknir af heimilum sínum eða af vinnustað, settir inn í bíla og þeim ekið inná hertekið svæði í Líbanon, án nokkurrar rannsóknar. Mál þessara manna voru aldrei könnuð og þeir hafa aldrei fengið dóm. Þeir voru því teknir án dóms og laga, sem er brot gegn Genfarsáttmálanum. Þar segir að hver maður skuli dæmdur í sínu heimalandi. Herleiðingin var því brot gegn þessum alþjóðlega sáttmála. Ísraelsmenn viðurkenndu strax mistök varðandi 6 menn, en hvað um hina?

Hafa ísraelsmenn gert eitthvað svipað áður?

Já, margsinnis. Þegar Ísraelsríki var stofnað 1948 voru um 700 þúsund íbúar landsins reknir til nágrannalandanna. 385 þorp voru útmáð. Nú eru um tvær og hálf milljón Palestínumanna í flóttamannabúðum. Sagan endurtók sig í stríðinu 1967 og oft síðan.

Sérð þú einhverja lausn á þessum málum?

Ein mesta hættan á heimstyrjöld nú stafar af yfirgangi Ísraelsmanna, fái Palestínumenn ekki viðurkenningu sem sjálfstæð þjóð. Ég sé enga aðra lausn á þessu máli. Sameinuðu þjóðirnar skortir enn framkvæmdavald til að geta fylgt samþykktum sínum eftir. Til að lausn fáist verða Bandaríkjamenn að hætta stuðningi sínum við Ísrael. Fólk um allan heim verður að krefjast þess. Það er í allra þágu að vandinn sé leystur og komið í veg fyrir að hugsanleg heimstyrjöld hefjist á þessu svæði og þær hörmungar sem myndu fylgja slíku. Meðan ranglæti viðgengst í heiminum verður ofbeldi ekki útrýmt.

Birtist í Frjáls Palestína.

  • Höfundur (Jón frá Pálmholti) var rithöfundur og blaðamaður.

Scroll to Top