Mannréttindi í skugga herlaga

„Undirritun Oslóarsamkomulagsins vakti vitaskuld vonir, en þær eru nú brostnar. Við höfum ekki orðið vör við breytingar. Síður en svo, mér finnst í raun að ástandið hafi versnað. Ekkert lát er á handtökum eða yfirheyrslum, hermenn færa sig upp á skaftið í skjóli neyðarlaga, síendurteknar lokanir á milli Ísraels og hernumdu svæðanna eru skýlaust mannréttindabrot. Mörg þúsund Palestínumenn hafa í vetur verið sviptir atvinnu svo mánuðum skiptir því að réttur þeirra til að ferðast er svívirtur. ,,Nei, mér finnst lítil ástæða til bjartsýni.“ Svo mælir Fateh Azzam framkvæmdastjóri mannréttindasamtakanna Al-Haq. Samtökin hafa í fimmtán ár verið einn helsti málsvari mannréttinda á hernumdum svæðum Ísraelsstjórnar. Umfangsmikilli starfsemi er stjórnað frá aðalbækistöðvum þeirra í borginni Ramallah, þau reka mál fyrir fórnarlömb mannréttindabrota, safna og skrá upplýsingar um ástand mannréttindamála og koma þeim á framfæri á alþjóðavettvangi. Al-Haq eru aðili að alþjóðlegum samtökum lögfræðinga og fylgja starfsreglum þeirra og starfsmenn eru flestir löglærðir. Eins og Fateh Azzam bendir á hafa forsvarsmenn Al-Haq orðið fyrir vonbrigðum með þróun mannréttindamála á Vesturbakkanum síðastliðin misseri. Þeir telja að í skjóli friðaryfirlýsingarinnar hafi Ísraelar beitt meira harðræði gagnrýnislaust en áður. Grunur leikur á að pyndingar og önnur ill meðferð á Palestínumönnum í fangelsum sé nú háð minni takmörkunum en fyrr. Í kjölfar sprengjutilræða íslamskra heittrúarmanna í Ísrael síðastliðið ár hafa mörg þúsund manns verið handteknir og yfirheyrðir, sumir sitja inni í allt að sex mánuði án dóms og laga. „Hreinsanir“ í íbúðarhverfum og bæjum eru reglulegar, hópar manna og einkum þeir sem grunaðir eru um aðild að heittrúarhreyfingum eru handteknir oft í skjóli nætur og haldið svo dögum skiptir. Starfsemi baráttu- og réttindasamtaka Palestínumanna hefur verið skorðuð, sem dæmi má nefna sendu ísraelsk yfirvöld viðvörun til ellefu áhrifamestu samtakanna sem starfa á vegum Palestínumanna í Austur-Jerúsalem nú í febrúar og hótuðu að banna starfsemi þeirra yrðu þau uppvís að tengslum við sjálfstjórnina á Gasaströnd og í Jeríkó. Í augum Palestínumanna er þetta staðfesting á stefnu Ísraelsstjórnar varðandi Jerúsalem. Þótt í Oslóarsamkomulaginu standi að um stöðu Jerúsalem eigi að semja í lokaáfanga viðræðna sé Ijóst að Ísraelsmenn ætli að tilleinka sér hana alla og það strax. Skemmdar- og hryðjuverk af hálfu ísraelskra landnema halda áfram en sumir sleppa með væga refsingu. Ísraelsk stjórnvöld segja þó að öryggisgæsla í palestínskum byggðum hafi verið hert til muna frá Hebron-morðunum í fyrra.

Ísraelar hafa ekki einungis fært sig upp á skaftið undanfarin misseri að mati forsvarsmanna Al-Haq, heldur hafa þeir einnig gripið til nýrra aðferða. Það sem veldur Al-Haq mönnum mestum áhyggjum er notkun Ísraelshers á skriðdrekaflugskeytum við eyðileggingu á palestínskum mannvirkjum. Á árinum 1992 og 1993 eyðilögðu ísraelskir hermenn hundrað tuttugu og eina byggingu með sprengjum eða skriðdrekaflugskeytum. Byggingarnar voru flestar íbúðarhúsnæði eða verslanir. Þetta er niðurstöður rannsóknar sem Al-Haq samtökin hafa gert en forsvarsmenn þeirra fullyrða að sömu aðferðum sé enn beitt. Rústir íbúðarhúsa í bænum Jenin og í Khan Yunis á Gasaströndinni eru til vitnis um framferði Ísraelshers. Ísraelar hafa notast við þessa aðferð við leit að eftirlýstum Palestínumönnum. Hermenn leggja oftast til atlögu að næturlagi. Þeir lýsa bæjarhluta hernaðarsvæði, girða hann af, skipa íbúum að yfirgefa svæðið og miða svo vopnum að því tiltekna húsi þar sem þeir teija að sá eftirlýsti leynist. Gefi hann sig ekki fram er vopnunum beitt. Al-Haq telur sig hafa vitneskju fyrir að íbúum hafi oft verið meinað að taka verðmæti með sér úr byggingunum. Af athæfinu getur því hlotist gríðarlegt eignartjón.

Mörg þúsund Palestínumenn hafa í vetur verið sviptir atvinnu svo mánuðum skiptir.

Ísraelsk yfirvöld réttlæta gjörðir sínar með því að verið sé að handtaka hættulega einstaklinga sem ógni öryggi ríkisins, að notkun flugskeyta komi í veg fyrir blóðbað og verji þar með ísraelska hermenn, að aðgerðirnar fæli Palestínumenn frá því að fela „glæpamenn“, og loks telja þau aðgerðirnar samræmast alþjóðalögum. Mannréttindasamtökin Al-Haq hafna þessum rökstuðningi alfarið. Það er rangt að mati samtakanna að vopnum sé beitt við handtöku á grunuðum misindismönnum, í flestum tilfellum falla skeytin við leit á þeim, og að vernd sé réttmæt þegar hermenn beita flugskeytum gegn óbreyttum borgurum, þeir benda sömuleiðis á að með framferði sínu séu Ísraelar að refsa heildinni fyrir glæpi sem eftir á að upplýsa. Það sé skýlaust brot á Genfar- og Haagsáttmálum um mannréttindi og meðferð óbreyttra borgara á hernumdum svæðum.

Samkvæmt Genfarsáttmálanum ber ísraelska ríkinu skylda til að láta þá er brjóta ákvæði sáttmálans eða ábyrgjast brotin svara til saka. Hæstiréttur Ísraels hefur tvisvar sinnum verið beðinn um að úrskurða um flugskeytaárásir á palestínsk íbúðarhús en í hvorugt skiptið orðið við óskunum. Þetta er dæmigert framferði varðandi meðhöndlun kæra sem íbúar hemumdu svæðanna leggja fyrir æðstu dómstólana. Þeim er ekki sinnt á þeim forsendum að herlög ríki á svæðunum og það sé utan starfsviðs réttarins að fjalla um mál er varða öryggi ríkisins. Eigi að síður hefur Hæstiréttur völd til þess að fjalla um lagalegt réttmæti þeirra athafna sem herinn stendur fyrir. En í mörgum tilfellum skírskota dómstólar til breskra herlaga sem Ísraelar segja að gildi á hernumdu svæðunum í slíkum málum. Á meðan framtíð Vesturbakkans er óráðin og staðan óbreytt segja forvígismenn Al-Haq samtakanna að Genfarsáttmálinn sé hinsta vígi Palestínumanna gagnvart flugskeytaárásum Ísraela. Þeir benda á að ýmsar heimildir sáttmálans sem gætu varið Palestínumenn gegn slíkum árásum hafi aldrei verið notaðar. Þar sé mikilvægust grein 9 sem heimilar að aðildarþjóðir „verji“ ákvæði sáttmálans og stuðli að því að þau séu virt. „Þar sem ísraelsmenn hafa brugðist,“ segir Fateh Azzam, „neyðumst við til þess að skora á ríki heims að taka upp hanskann fyrir okkur, tryggja að mannréttindabrotum linni, að þeir ábyrgu verði látnir svara til saka og fórnarlömbum flugskeytaárása verið greiddar bætur.“

Birtist í Frjáls Palestína.

Scroll to Top