Maður er nefndur Joe Sacco

Joe Sacco er margverðlaunaður myndasöguhöfundur sem stundar rannsóknarfréttamennsku í myndasöguformi. Hann hefur sérhæft sig í sögum frá stríðshrjáðum svæðum, fyrst og fremst Bosníu og Palestínu. Helstu verk hans eru Palestine (kom fyrst út í seríuformi á árunum 1993-5, gefið út í einni bók 2001), Safe Area Goražde (2001) og nú síðast Footnotes in Gaza (2009).

Joe Sacco fæddist á Möltu en fjölskylda hans fluttist með hann til Ástralíu árið eftir og ólst hann þar upp til 1972, þegar fjölskyldan flutti til Bandaríkjanna.

Sacco er með BA-gráðu í fréttamennsku frá háskólanum í Oregon. Hann sýndi myndasögum og satíru snemma áhuga en einnig ferðamennsku og vann fyrir sér á tímabili við að skrifa ferðabækur. Árið 1985 stofnaði hann blað sem gaf út óhefðbundnar og satirískar myndasögur, Permanent Press, en þegar blaðið fór á hausinn hóf hann störf sem fréttaritari hjá The Comics Journal.

Árið 1988 ferðaðist Sacco um Evrópu, og skrifaði seinna um það ferðalag myndasöguna Yahoo. Hann tók þá að kynna sér betur Persaflóastríðið og átti eftir að skrifa styttri verk um það (sjá t.d. myndasögusafnið War Junkie). Þetta varð um leið til þess að hann gerði sér ferð til Ísraels og hernumdu svæðanna og dvalist þar meðal Palestínumanna í desember 1991 og janúar 1992. Palestine fjallar um dvöl hans þar.

Eins og í öðrum verkum sínum lýsir Sacco þarna því sem á daga hans sjálfs drífur, daglegu lífi fólksins, og leyfir hann því að segja sögu sína, sem hann vinnur svo verk sitt út frá. Hann skoðar ástandið frá margvíslegum sjónarhornum og vinnur ítarlega rannsóknarvinnu. Hann nálgast verk sín af miklum heiðarleika, hreinskilni og hugrekki.

Það er jafnframt styrkur Saccos að hann reynir ekki að fegra efni sitt, heldur leitast hann fyrst og fremst við að varpa fram greinagóðri mynd af viðfangsefni sínu. Hann sýnir okkur fólk í breyskleika sínum, með kostum sínum og göllum, löngunum, vonum, fordómum og hégóma, svo það verður mannlegt fyrir lesandanum og þar með auðveldara að samsama sig því. Og þrátt fyrir átakanlegar sögur er einnig húmor í bókunum og slegið á létta strengi inn á milli.

Í verkum sínum er Sacco ávallt meðvitaður um það að jafnvel þegar hann kynnist fólki vel, þá stendur hann utan við, er útlendingurinn, gesturinn. Þannig birtist hann líka í sjálfsmyndum þar sem hann ýkir sjálfan sig og gerir sig hálf skrípalegan, svo hann virkar „nördalegri“. Sacco gerir sér einnig grein fyrir að sögurnar verða alltaf hlutlægar, hvort sem um hans sjónarhorn eða viðmælenda er að ræða.

Vert er að mæla heilshugar með verkum Saccos. Í Safe Area Goražde segir hann frá fjögurra mánaða dvöl sinni í samnefndum bæ í Austur-Bosníu á árunum 1994 til 1995, á meðan stríðið geisaði. Saga bæjarins og fólksins verður jafnframt smækkuð mynd af stríðinu sjálfu, maður fær áþreifanlega mynd af fólkinu og því hvernig það upplifði stríðið og einangrunina á þessu svæði, sem átti að heita verndað af Sameinuðu þjóðunum, en þær brugðust þegar á hólminn var komið. Sacco hefur einnig fjallað um Bosníu í verkunum The Fixer, Soba og Christmas With Karadzic (þeim tveimur seinni var safnað í bókina War’s End).

Í nýjustu bókinni, Footnotes in Gaza, beinir Sacco sjónum að atburði sem sagan hefur almennt gleymt, þó að þeir sem upplifðu hana hafi það síður. Jafnframt er verkið án efa metnaðarfyllsta verk Sacco til þessa, 388 síður (328 með eftirmála).

Atburðurinn sem um ræðir eru fjöldamorð sem hersveitir Ísraela unnu í Rafah og Khan Younis árið 1956. Þau fjöldamorð voru sjálf neðanmálsgrein átaka milli ísraelskra sveita og palestínskra skæruliða, sem tengdust jafnframt stríðinu sem þá geisaði milli Egyptalands annars vegar og bandalags Ísraels, Bretlands og Frakklands hins vegar.

Um þetta segir Sacco meðal annars í bókinni og ekki laust við að íronía fylgi orðunum: „Sagan getur án neðanmálsgreina verið. Neðanmálsgreinar eru í besta falli ónauðsynlegar; í versta falli trufla þær heildarfrásögnina. Við og við, þegar djarfari ritstjórar, sem halda sig fremur við meginatburði, koma fram, hristir sagan alveg af sér sumar neðanmálsgreinar, og maður getur séð hvers vegna… sagan er nú þegar troðfull af þeim. Hún getur ekki annað en skapað nýjar síður á hverri klukkustund, á hverri mínútu. Sögunni svelgist á ferskum atburðum og gleypir hverja þá gömlu sem hún getur. Stríðið 1956? Hu?“

Verkið sýnir lífið á Gaza og sögu þess fyrr og nú. Sacco tók viðtöl við sjónarvotta morðanna og eftirlifendur, rannsakaði gögn um atburðina og gerði sitt besta til að púsla saman frásögn af þessu. Hann ræddi einnig við talsmenn ísraelshers um þetta og fleira , ekki síst Mordechai Bar-On sem var hægri hönd varnarmálaráðherra Ísraels í stríðinu, Moshe Dayan.

Rannsókarvinna Sacco er eins og ævinlega til fyrirmyndar. Við skynjum hringrás atburða, sem, ásamt tímanum sem er liðinn, veldur því að minni fólks er ekki óskeikult, atburðir renna saman og óskýrast. Sacco segir sjálfur að Palestínumenn virðist aldrei geta notið þeirra forréttinda að melta einar hörmungar áður en þær næstu dynji á þeim. „Þegar ég var á Gaza, var yngra fólkið oft forviða yfir rannsókn minni á atburðunum 1956. Hvað myndi það gera þeim gott að kafa í söguna þegar þeir sættu árásum og það var verið að rústa húsunum þeirra núna? En það er ekki svo auðvelt að ætla að aðskilja fortíð og nútíð; þær eru hluti af vægðarlausri hringrás, sögulegri móðu. Kannski er þess virði að frysta þessa stöðugu framrás og skoða einn eða tvo atburði sem voru ekki einungis hörmung fyrir fólkið sem lifði þá heldur gætu líka verið lærdómsríkir fyrir þá sem vilja skilja hvers vegna og hvernig – eins og El-Rantisi* sagði- hatri var sáð í hjörtu.“ Hvað minnið varðar þá segir það sína sögu, eitt áhrifamesta en jafnframt lágstemmdasta atriðið í bókinni. Einn sjónarvotta segir frá en á erfitt með að halda áfram. Hann brestur í grát. Sacco segir að þetta sé í lagi, hann þurfi ekki að halda áfram. Barnabarn hans biður hann að vera sterkan, að reyna að tala frá huganum, án þess að láta ástríður stjórna frásögninni. Hann spyr afa sinn loks hvað sé það versta sem hann muni frá þessum degi og afinn svarar einfaldlega „Ótti. Ótti.“

Enn hefur lítið verið minnst á teikningarnar, en ég vona að myndirnar sem birtast hér með greininni gefi einhvern nasaþef af því hversu góður teiknari Sacco er, jafnframt því að vera afbragðs sögumaður. Palestínsk-bandaríski fræðimaðurinn Edward Said kallaði Palestine „…einstaklega frumlegt stjórnmála- og listaverk“ og bætti við: „Að tveimur eða þremur skáldsagnahöfundum og ljóðskáldum undanskildum hefur enginn fjallað betur um þetta hörmulega ástand en Joe Sacco.“

Sacco tileinkaði nýjasta verk sitt fólkinu á Gaza.

Endilega verðið ykkur út um bók eftir Sacco, hvort sem það er úr bókabúð (ætti alltént að fást í myndasöguversluninni Nexus) eða bókasafni. Bækur hans eru sannarlega þess virði að kynna sér.

*Abed El-Azis El-Rantisi var meðstofnandi Hamas. Hann var myrtur af Ísraelsher árið 2004. Rantisi var 9 ára þegar árásin var gerð í Khan Younis og frændi hans var drepinn þennan dag. Í viðtali við Sacco og fréttamanninn Chris Hedges árið 2001 sagði hann „Ég man ennþá harmakvein og tár föður míns og bróður. Ég gat ekki sofið í marga mánuði eftir þetta… það skildi eftir sig sár í hjarta mínu sem getur aldrei gróið. Ég er að segja ykkur þessa sögu og ég er næstum farinn að gráta. Það er aldrei hægt að gleyma þess konar aðgerð. Þeir sáðu hatri í hjörtu okkar.“

Birtist í Frjáls Palestína.

Scroll to Top