Hjálmtýr Heiðdal svarar grein Hreiðars Þórs Sæmundssonar: „Hreiðar Þór hefur afhjúpað í fyrri skrifum sínum mikla óbeit á Palestínuaröbum og þeim sem taka málstað þeirra“
7. febrúar sl. birtist grein í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni „Hatursgleraugu Hjálmtýs Heiðdal“.
Höfundurinn er Hreiðar Þór Sæmundsson og er greinin svar við grein minni í Lesbók 15. des. 07 undir fyrirsögninni „Þarf alþjóðasamfélagið sterkari gleraugu?“ Hreiðar grípur til þess ráðs að gefa í skyn að ég hati Ísrael og gyðinga, sígilt bragð þeirra sem reyna að verja gjörðir Ísraelsríkis. Hin „hatursfulla“ grein mín var tilraun til þess að skoða ástæður þess að frá stofnun Ísraels hefur ríkt þar heiftúðugt stríð sem virðist ekki ætla að ljúka í náinni framtíð.
Hreiðar fer á kostum þegar hann lýsir hversu vel Ísraelríki hugsar um fólkið sem hið sama ríki hefur hrakið frá heimkynnum sínum:
„Samúð Ísraela með flóttamönnunum, þrátt fyrir stöðugar skærur við öfgahópa meðal þeirra, hefur komið fram í afar samviskusamlegu umsjónar- og uppbyggingarstarfi á svæðum þeirra allt fram að stofnun heimastjórnar Palestínu 1994 og einnig eftir það. Framfarirnar í heilbrigðismálum Palestínumanna, undir umsjón Ísraels síðustu áratugina, vegamálum, veitu- og holræsamálum, fjarskiptamálum og menntamálum eru með ólíkindum“(Morgunblaðið 7. feb. 08).
Þeir sem styðja framferði Ísraelsríkis þurfa auðvitað að sýna vissa snilli í umgengni við sannleikann og sker Hreiðar sig ekki úr í þeim hópi.
Aðrir, þ.á.m. fólk sem þekkir kúgun af eigin reynslu, eru ekki jafn hrifnir af „samúð Ísraela“. Nelson Mandela hefur lýst Ísrael með eftirfarandi orðum:
„Kynþáttabundið misrétti Ísraels er hið daglega líf flestra Palestínumanna. Þar sem Ísrael er gyðingaríki þá öðlast gyðingar sérstök réttindi sem annað fólk fær ekki að njóta… Kynþáttaaðskilnaður er glæpur gegn mannkyni. Ísraelar hafa rænt margar milljónir Palestínumanna frelsi sínu og eignum. Ísrael hefur fest í sessi óhugnanlegt kerfi kynþáttakúgunar og óréttlætis. Þeir hafa skipulega fanglesað og pyntað þúsundir Palestínumanna og brotið alþjóðalög. Hernaður þeirra hefur fyrst og fremst beinst gegn almennum borgurum, og þá sérstaklega gegn börnum.“
Hreiðar Þór hefur afhjúpað í fyrri skrifum sínum mikla óbeit á Palestínuaröbum og þeim sem taka málstað þeirra auk þess sem hann samþykkir öll þau brot á alþjóðalögum og mannréttindum sem Ísraelsríki hefur staðið í frá 1948. Lítum á dæmi úr skrifum Hreiðars: „Í allri umfjöllun… um svokallaða „landtökumenn“ gyðinga er látið í veðri vaka að vondir gyðingarnir séu að stela landi af réttmætum eigendum þess, palestínuaröbum. Gallinn við þessa afstöðu og nálgun er sá að palestínskir arabar hafa aldrei átt þetta land, heldur miklu fremur gyðingarnir sem átt hafa þarna búsetu um þúsundir ára og þar af í sjálfstæðu ríki sínu í næstum þúsund ár. Arabar hófu þar ekki búsetu í neinum mæli fyrr en á sjöundu öld e.Kr. Auk þess að vera frá fornu fari hluti hins gamla Ísraelsríkis, þá eru Vesturbakkinn, Gaza og Gólanhæðir landsvæði sem Ísraelar unnu í styrjöldum sem algjörlega var til stofnað af fjandsamlegum arabaríkjum og ættu því samkvæmt alþjóðavenjum að hafa fulla heimild til að innlima þau.“ (Morgunblaðið 28.08.06)
Nú vill svo til að 20. nóv. sl. voru birt skjöl í Ísrael sem sanna að 40% lands sem tekið hefur verið undir landtökubyggðir gyðinga á Vesturbakkanum eru í einkaeigu Palestínumanna – og einkaeignarétturinn er grundvallaratriði í stjórnskipun ríkisins. Hvernig leysir Hreiðar þessa þversögn? Annaðhvort verður hann að samþykkja að landarán hafi átt sér stað eins og Hæstiréttur Ísraels hefur dæmt (mál Elon Moreh landtökubyggðarinnar), með öðrum orðum: hann verður að éta eigin fullyrðingar, eða að hann verður að lýsa því yfir að arabar hafi ekki sömu grundvallarréttindi og gyðingar hvað sem niðurstöðu réttarins líður. Hann er þá kominn á þær brautir þar sem réttindum manna er skipt upp eftir kynþætti og trú. Tvö dæmi um slíkt eru sérstaklega þekkt úr sögu seinni tíma: ríki Hitlers og Suður-Afríka á valdatíma kynþáttahyggjunnar.
Hreiðar segir í grein sinni að ég fari fram með órökstuddar fullyrðingar og dylgjur:
„Dylgjur Hjálmtýs um að ísraelskir sagnfræðingar hafi í nýopnuðum skjalasöfnum fundið sannanir um að opinber stjórnvöld gyðinga hafi fyrir stofnun Ísraels haft þjóðernishreinsun araba beinlínis á stefnuskránni.“
Það sem Hreiðar kallar dylgjur er einföld úttekt á því sem hinir svokölluðu nýju sagnfræðingar í Ísrael hafa sannað gegnum yfirgripsmiklar rannsóknir á tilurð Ísraelsríkis. Ég nefni hér nokkra fræðimenn (allt gyðingar) sem Hreiðar getur dundað sér við að kynna sér: Ilan Pappé, Avi Shlaim, Tom Segev, Simha Flapan, Uri Milstein, Baruch Kimmerling.
Í lok greinar sinnar spyr Hreiðar:
„Fær ekkert stöðvað framgang lygamafíu palestínuvina í fjölmiðlum hér á landi, ekki einu sinni virðuleg ritstjórn Morgunblaðsins?“
Og svo veltir hann fyrir sér möguleikum á lagasetningu til að „skylda fjölmiðla til að greina rækilega frá öllum sjónarmiðum í meiriháttar pólitískum deilum“. Í þessu er viss þversögn, annars vegar dugar ekki „virðuleg ritstjórn Morgunblaðsins“ til að stöðva lygamafíu og hins vegar vill Hreiðar lög um að skylda ritstjórnina til að birta öll sjónarmið! Hvernig nær ritstjórnin að stöðva lygamafíu ef lög skipa henni að „greina rækilega frá öllum sjónarmiðum“?
Höfundur er kvikmyndagerðarmaður.
Birtist fyrst í Morgunblaðinu.