Úr skýrslu um mannréttindabrot Ísraelsríkis:
Í skýrslu þeirri, sem Elías Davíðsson hefur tekið saman og sent formönnum þingflokkanna og fjölmiðlum, er að finna mörg átakanleg en Jafnframt fróðleg dæmi um þá gífurlegu kynþáttafordóma sem einkenna alla stefnu Ísraelsríkisríkis. Þetta er þeim mun sorglegra sem aðeins eru um fimmtíu ár síðan gyðingar sjálfir máttu þola þær hörmungar sem leiddu af kynþáttafordómum nasismans. Dæmin sýna hins vegar pólitíska stefnu sem er óhugnanlega lík stefnu Hitlers-Þýskalands, eins og sést hér á eftir:
Sniðugt kerfi hylur fordómana
Ísraelsk yfirvöld hafa hannað sniðugt kerfi til að dylja kynþáttamismunun sína. Það virkar þannig: Palestínumenn sem búa í Ísrael eru undanþegnir herþjónustu; ríkið vill ekki að þeir fái hernaðarþjálfun og beri vopn; þeim er því ekki boðið að gegna herþjónustu. Palestínumennirnir myndu líklega ekki þiggja það, til þess að þurfa ekki að skjóta á ættmenni sín í Líbanon og á herteknu svæðunum. Þetta fyrirkomulag hentar báðum aðilum en löggjafinn segir: „Fjölskyldur þeirra sem taka þátt í vörnum landsins leggja meira að mörkum og eiga því tilkall til forréttinda.“

Barnabætur í Ísrael fara eftir fjölda barna og því hvort einhver úr fjölskyldunni hefur gegnt herþjónustu. Palestínskar fjölskyldur fá því 40% minni barnabætur að jafnaði en gyðingar. Forráðamenn Ísraelsríkis vilja, í samræmi við hugmyndafræði zíonismans, stuðla að fæðingum gyðinga en takmarka fjölda Palestínuaraba í landinu. Gyðingafjölskylda fær því fyrir þriðja barnið 149 shekel á mánuði og palestínsk fjölskylda 93 shekel. En fyrir fjórða barnið og upp úr fær gyðingafjölskyldan 260 shekel fyrir hvert barn meðan palestínsk fjölskylda verður að láta 93 shekel duga. Réttur manna til vinnu og húsnæðis er einnig oft háður því, hvort viðkomandi eða ættmenni hans/hennar hafi gegnt herþjónustu. Auglýsingar í ísraelskum blöðum hljóða því ekki: „Aðeins fyrir gyðinga“, heldur „aðeins fyrir þá sem hafa gegnt herþjónustu“.
Hvatt til kynþáttahaturs
Yfirvöld hvetja til kynþáttahaturs meðal almennings með yfirlýsingum sínum og úrskurðum. Einn ráðherra (Rafael Eitan) kallar Palestínuaraba „kakkalakka“. Annar mælir með brottrekstri þeirra úr landi (Yuval Ne’emann, vísindamálaráðherra). Sá þriðji (Zevulun Hammer) mælir með því að arabískir borgarar í Ísrael verði sviptir kosningarétti ef þeir halda áfram að mótmæla innflutningi sovéskra gyðinga.

Sá fjórði (núverandi heilbrigðisráðherra) leggur til að óbreyttir ísraelskir borgarar fái að skjóta til bana Palestínuaraba í sjálfsvörn án þess að eiga á hættu að verða sóttir til saka. Sjálfur forseti landsins, Herzog, hefur náðað ísraelska gyðinga sem myrt hafa arabíska fanga, en hefur neitað að stytta refsingu samviskufanga, sem situr í einangrunarklefa og afplánar 18 ára dóm; Herzog neitar jafnvel að binda endi á þriggja ára einangrun þessa fanga.
Birtist í Frjáls Palestína.
