Um leið og Ísrael hafði hertekið Austurhluta Jerúsalem 1967 var borgin gerð að höfuðborg Ísraelsríkis. Lýst var yfir að Jerúsalem væri höfuðborg gyðinga sem aldrei yrði deilt með öðrum.
Ekkert ríki hefur viðurkennt þennan gerning og þess vegna eru þar engin sendiráð.
Allar götur síðan og þrátt fyrir mótmæli ríkja heims hefur skipulega verið unnið að fjölgun landnemabyggða í Jerúsalem. Miklum fjármunum hefur verið varið til að koma innfluttum gyðingum fyrir í hinum arabíska hluta borgarinnar. Samtímis hafa yfirvöld hindrað með allskonar reglugerðum Palestínumenn í að byggja ný hús eða endurbæta eldri hús. Einnig hafa í töluverðum mæli verið rifin hús í eigu araba og þá beitt vafasömum reglugerðum eða tilskipunum. Þetta hefur leitt til þess að í Austur-Jerúsalem, hinum arabíska hluta borgarinnar, eru nú 160.000 gyðingar á móti 155.000 aröbum. Þetta er, eins og margoft hefur komið fram, alvarlegt brot á alþjóðasamþykktum um hernumin svæði og íbúa þeirra. Alþjóðleg mótmæli hafa þar engu um breytt.
Tíminn er að renna út fyrir möguleika á friðsamlegri lausn á deilum Ísraels og Palestínumanna.

Í Oslóarsamningum frá 1993 eru tiltekin nokkur deilumál og viðræðum um þau frestað til seinni tíma þar á meðal samningum um framtíðarstöðu Jerúsalem. Það er skýrt ákeðið í samningnum að staðan í þeim deilumálum sem bíða þess að verða tekin fyrir haldist óbreytt og að hvorugur aðilinn reyni að breyta neinu sér í hag á biðtímanum. Í deilunni um Jerúsalem þýðir þetta m.a. að ekki megi með skipulegum aðgerðum reyna að hafa áhrif á stöðu og fjölda gyðinga og araba í borginni.
Viðræður um Jerúsalem eru ráðgerðar sumarið 1996.
Það hefur sýnt sig á undanförnum áratugum að Ísraelar virða að vettugi alla alþjóða samninga um meðferð á herteknu landi og á fólki sem þar býr. En hvernig er þá með samningana sem tókust í Osló 1993? Þar eiga Ísraelar í beinum samningaviðræðum við Palestínumenn og áttu frumkvæðið að þeim ásamt Bandaríkjunum. Þessi samningavilji hefur sem alkunna er áunnið þeim friðarverðlaun Nóbels. Ætla mætti að þessir samningar hefðu meira vægi í augum Ísraelsstjórnar og hún myndi virða hann fremur en eldri alþjóðlegar samþykktir.
En það liðu ekki nema þrír dagar frá undirritun á niðurstöðum annarar lotu samninganna í Washington 28. sept. 1995 þar til ríkisstjórn Ísraels opinberaði ráðagerðir sínar um enn eina landnemabyggðina í Austur-Jerúsalem (arabíska hlutanum), byggð sem á að hýsa 30-40.000 gyðinga. Byggt verður rétt innan við borgarmörkin ekki langt frá Betlehem. Auk þessa voru á hernumdu svæðunum utan Jerúsalem skráð 96 tilfelli á tímabilinu frá okt. 93 til jan. 95, þar sem land í eigu Palestínumanna var tekið eignarnámi og úthlutað Gyðingum. Þessi þróun hefur ekki verið stöðvuð.
Margar ríkisstjórnir hafa bæði fyrir og eftir Oslóarsamninganna mótmælt aðgerðum Ísraela á hernumdu svæðunum. Meðal annars leiddu Evrópusambandslöndin hjá sér hátíðarhöld Ísraelsstjórnar 1995/1996 í sambandi við 3000 ára afmæli byggðar í Jerúsalem. En svo lengi sem mótmælin er einungis hálfvolg orð þarf Ísraelstjórn ekki að taka tillit til þeirra fremur en áður.
Deilurnar í Mið-Austurlöndum eru og verða enn um sinn langstærsti áhrifavaldurinn í stjórnmálasögu samtímans. Þær geta hvenær sem er hrundið af stað atburðarás sem gæti haft stórstyrjöld í för með sér. Samningarnir sem hófust í Osló 1993 kveiktu veikar vonir um að þrátt fyrir allt sé mögulegt að leysa þessi deilumál sem hingað til hafa verið flóknari en Gordíanshnúturinn. Í Ijósi þessa er framferði Ísraelsstjórnar í Jerúsalem glæpsamlegt einnig gagnvart mér og þér og gefur í skyn afstöðu byggða á ósveigjanleika sem aldrei getur leitt til varanlegs friðar.
Jerúsalem hefur verið byggð Palestínumönnum frá upphafi og er óaðskiljanlegur hluti þjóðarvitundar þeirra. Hún er kjarni sögu þeirra, lista, menningar og trúarlífs hvort sem þeir eru múslimar eða kristnir. Meðferð Ísraelsstjórnar á arabískum íbúum innan gömlu múra Jerúsalem og hin algera fyrirlitning sem hún sýnir öllu því sem þeim er heilagt er kveikjan að þeim tilfinningum sem fá menn til að gera sjálfsmorðsárásir.
Nú ríður á að allir þeir einstaklingar og hópar, sem áhuga hafa á og gera sér grein fyrir mikilvægi þess að deilur Ísraela og Araba leysist friðsamlega, leiti upplýsinga um það sem er að gerast og miðli þeim upplýsingum eftir öllum tiltækum leiðum. Það verður að reyna að hafa áhrif á stjórnmálaöfl innan Evrópusambandsins og í Bandaríkjunum sem eru nógu sterk til að fá ríkisstjórnir sínar að beita Ísrael þeim þrýstingi sem þarf til að halda það samkomulag sem hefur náðst í þessum samningum kenndum við Osló.
Að öðrum kosti verður ástand þessarar púðurtunnu, sem Ísrael/Palestína er, verra en áður. Engin önnur deila í samtímanum hefur eins mikilvægar pólitískar afleiðingar fyrir þróun friðar í heiminum.
Ef ríkisstjórnir heimsins mótmæla ekki með öflugri hætti þessum samningsrofum Ísraela á samningi, sem blekið er varla þornað á, verður hugtakið „friðarferli“ („Peace process“) enn eitt öfugmælið í merkingarfræði stjórnmálanna.
Öfgaverk palestínskra baráttuhópa eru ekki sprottin úr hugmyndafræði trúarbragða þeirra eins og reynt er að hamra á fjölmiðlum og í ræðum ráðamanna á Vesturlöndum heldur kúgun og niðurlægingu hernumdar þjóðar og ef við það bætast svik og tvöfeldni í túlkun á þessum nýju samningum verður örvæntingin dýpri, hermdarverkin fleiri og öfgafyllri og atburðarrásin hamslausari en nokkru sinni áður.
Birtist í Frjáls Palestína.