Ísraelskir landnemar eru herskárri en áður

Ástandið í Palestínu eftir Washington-samkomulagið:

Fp israelskir landnemar herskarri en adur jan 1994 1
Efnahagur Ísraels er í molum og þeir geta ekki lifað án aðstoðar frá Bandaríkjum Norður-Ameríku

Salman kom hingað til lands árið 1971 frá Jerúsalem og hefur búið hér síðan. Hann hefur oft farið í heimsókn til æskustöðvanna, stundum árlega. Síðast fór hann til Jerúsalem 16. september síðastliðinn og var í tvo mánuði. Tíðindamanni blaðsins þótti forvitnilegt að frétta af ástandi mála í Palestínu nú eftir hið fræga samkomulag Ísraels og Palestínumanna. Salman var því spurður:

– Var eitthvað öðruvísi nú en í fyrri heimsóknum þínum til Palestínu?

Ástandið er verra nú en áður, ekki síst hvað varðar ísraelsku landnemana. Landnemarnir eru herskárri en fyrr og má segja að þeir hafi tekið völdin í sínar hendur. Ísraelski herinn stendur bara og horfir á, en aðhefst ekkert.

– Og viðbrögð Palestínumanna?

Flestir Palestínumenn vona innst inni að samkomulagið við Ísrael haldi og eðlilegt ástand komist á, því þeir eru búnir að fá meira en nóg af ríkjandi ástandi. Margir Palestínumenn eru þó tortryggnir, því margir lausir endar eru á þessu samkomulagi. Mörgum mikilvægum spurningum er enn ósvarað, til dæmis hvað varðar flóttamenn. Sama er að segja um ýmis réttindi svo sem nýtingu lands, vatnsréttindi og Jerúsalem sjálfa.

– En viðbrögð Ísraelsmanna?

Ísraelsmenn ganga út frá því að einungis sé um að ræða heimastjórn Palestínumanna á þeirra svæðum, en sjálfstætt ríki Palestínumanna komi ekki til greina. Þetta er ríkjandi viðhorf meðal þeirra.

– Var þá ekkert jákvætt að finna?

Hið eina jákvæða er viðurkenning Ísraelsmanna á Frelsissamtökum Palestínu, PLO. Ísrael neitar að hlusta á ályktanir Sameinuðu þjóðanna gegn þeim, en tala aðeins um samkomulagið milli PLO og Ísraels. Sjálfur tel ég að eina vonin sé fólgin í ályktunum Sameinuðu þjóðanna og Öryggisráðsins.

– Hvað telur þú að muni gerast ef núverandi stjórn Ísraels fellur?

Það veit enginn, en samkvæmt túlkun Ísraelsmanna hafa Palestínumenn ekki tryggingu fyrir neinu. Andstaða við samkomulagið fer Iíka vaxandi meðal Palestínumanna. Í raun og veru snýst samkomulagið ekki um annað en að setjast niður og tala saman. Morðsveitirnar eru enn að og þeim fer heldur fjölgandi ef eitthvað er.

– Hvað um Yasser Arafat?

Ég held að hann sé að missa öll tök á ástandinu, jafnvel hans nánustu ráðgjafar eru hættir að vinna með honum. Arafat ræður þó enn öllu í PLO en efnahagur samtakanna er í rusli og hann þarf á að halda einhverjum sem heldur honum gangandi. Vestræn ríki og arabísku olíuríkin tældu hann með gylliboðum til að ganga að þessu samkomulagi við Ísrael. Ísraelsmenn voru beittir svipuðum þrýstingi til að reyna að finna lausn á sínum vanda.

– Tengdist þetta ekki lokum kalda stríðsins?

Jú, það er öruggt að þetta samkomulag á rætur að rekja til loka kalda stríðsins. Efnahagur Ísraels er líka í molum og þeir geta í reynd ekki lifað án aðstoðar frá Bandaríkjum Norður-Ameríku. Til dæmis er atvinnuleysi í Ísrael nú um 12%. Með samkomulaginu vonast Ísraelsmenn til að komast með framleiðslu sína inn á fjölþjóðlegan markað, t.d. í arabalöndum og öðrum ríkjum Asíu. Ísrael hefur nú tekið upp stjórnmálasamband við Kína, Indónesíu og fleiri lönd, sem hefði verið óhugsandi án þessa samkomulags. Af Ísraels hálfu er samkomulagið því fyrst og fremst sjónarspil til að auka vinsældir sínar meðal annarra þjóða, en Palestínumenn hafa í raun fengið ósköp lítið út úr þessu.

– Hvað telurðu að gerist ef slitnar upp úr samkomulaginu?

Það mun ekki slitna upp úr þessu samkomulagi, en Ísraelsmenn munu draga eins lengi og þeir geta að koma því í framkvæmd í samræmi við ályktun við Öryggisráðsins nr. 242 frá 1967.

Birtist í Frjáls Palestína.

  • Höfundur (Jón frá Pálmholti) var rithöfundur og blaðamaður.

Scroll to Top