Ísland viðurkennir sjálfstæði og fullveldi Palestínu

Þann 29. nóvember 2011 samþykkti Alþingi samhljóða ályktun um að við­urkenna sjálfstæði og fullveldi Palestínu innan landamæranna frá 1967. Jafnframt var minnt á rétt palestínsks flóttafólks til að snúa heim á ný. Hvort tveggja er í samræmi við ályktanir Sameinuðu þjóðanna, en Ísrael, Bandaríkin og vestræn bandalagsríki þeirra hafa þrá­skallast við að viðurkenna þennan rétt.

29. nóvember fyrir Palestínu

Dagsetningin var engin tilviljun. 29. nóvember varð örlagadagur 1947 þegar Sameinuðu þjóðirnar samþykktu tillögu um að skipta Palestínu til helminga milli palestínsks heimafólks og gyðinga sem voru að flytja til landsins unnvörpum. Tillagan var umdeild og spurt var hví palestínska þjóðin skyldi greiða fyrir glæpi nazismans og gyðingahaturs í Evrópu. Gyðingar höfðu búið öldum saman í góðu sambýli við aðra Palestínumenn. Nokkrum áratugum síðar, þegar Ísraelsmenn höfðu lagt alla Palestínu undir sig tóku Sameinuðu þjóðirnar sig saman um að gera 29. nóvember að alþjóðlegum samstöðudegi með palestínsku þjóðinni.

Íslensk stjórnvöld viðurkenna Palestínu

Félagið Ísland-Palestína var stofnað þann 29. nóvember 1987. Það hafði frá upphafi sem eitt af meginmarkmiðum sínum að Ísland viðurkenndi PLO, Frelsissamtök Palestínu sem réttmætan fulltrúa palestínsku þjóðarinnar og «rétt Palestínumanna til að stofna lífvænlegt, sjálfstætt og fullvalda ríki».

Hið fyrra ávannst árið 2000, er Halldór Ásgrímsson utanríkisráherra tók upp fullt stjórnmálasamband við PLO. Hið síðara gerðist 2011 er Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra lagði fram tillögu um að viðurkenna Palestínu, sem náði fram að ganga í utanríkismálanefnd með vissum breytingum.

Það var síðan 15. desember 2011, að viðurkenning Íslands og stjórn mála samband þjóðanna var formlega staðfest á fundi utanríkisráðherranna Malki og Össurar við hátíðlega athöfn í Þjóðmenningarhúsinu í Reykjavík.

Þessar myndir eru teknar 29. nóvember 2011; sú hér að ofan sýnir vel þá gleði sem braust út meðal Palestínumanna á Íslandi. Neðri myndin er tekin við Alþingishúsið, þegar þingið hafði samþykkt að viðurkenna sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

Aðkoma FÍP að samþykkt Alþingis

Það á að vera óhætt að segja frá því nú áratug síðar, að breytingar sem urðu á tillögu Össurar komu í kjölfar fundar fulltrúa FÍP með þáverandi formanni og þingflokksformanni Framsóknarflokksins, Sigmundi Davíð og Gunnari Braga. Hann hófst á þeim orðum undirritaðs að við værum ekki komin til að leita eftir stuðningi Framsóknar, við vissum að hann væri vís. Á fundinum urðu nokkur skoðanaskipti um tillögu Össurar sem lauk með því að Sigmundur Davíð sagði: Sveinn Rúnar, vilt þú ekki bara skrifa þetta fyrir okkur, þú ert lang best inn í þessu máli? Ég tók þessu tækifæri fagnandi og skilaði til þeirra tillögu um kvöldið sem fór síðan til annarra nefndarmanna og var afgreidd óbreytt úr utanríkismálanefnd. Út úr þessu kom samhljóða ályktun Alþingis, en stuðningur Sjálfstæðismanna fólst í að sitja hjá. Aðkoma FÍP skilaði sér ekki hvað síst í því að réttur flóttafólks til að snúa heim aftur kom inn í ályktunina.

Dagskrá Alþingis breytt

Fyrir hönd FÍP hafði ég óskað eftir að málið yrði tekið á dagskrá 29. nóvember á alþjóðlegum samstöðudegi með réttindabaráttu Palestínu. Þá kom í ljós að fjárlagaumræða var á dagskrá þennan dag og ekki hægt að taka neitt annað fyrir á sama degi. Það fór þó svo að for­seti Alþingis, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, setti málið á dagskrá þennan dag. Það varð þó engin flýtiafgreiðsla, því að stór hluti þingmanna hafði þörf fyrir að tjá sig í þessu sambandi og voru fluttar fjölmargar ræður um mikilvægi Palestínumálsins fyrir hvern og einn. Þótt mér þætti vænt um þessar ræður, þá var það Ragnheiður Elín þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins sem hreyfði mest við mér, þegar hún lýsti því yfir að hennar flokksmenn myndu sitja hjá. Spennan leið hjá og ég fylltist óskaplegri gleði og þakklæti fyrir að ályktunin væri að fara í gegn samhljóða og sá sómi yrði aldrei frá Alþingi tekinn.

Norðurlandaráð hvetur til viðurkenningar

Það leið eitt ár þar til Svíþjóð fetaði í fótspor Íslands og viðurkenndi Palestínu haustið 2012. Enn hafa hin Norðurlöndin ekki látið verða af því. Það hefur ekki dugað til, að þing Norðurlandaráðs sem haldið var í Reykjavík fyrir nokkrum árum samþykkti að skora á ríkisstjórnir hinna Norðurlandanna að gera slíkt hið sama og fara að fordæmi Íslands. Enn hefur ekkert gerst.

Viðurkenning Palestínu á Ísrael

Sjálfstæði og fullveldi Palestínu var lýst yfir á þjóðþingi PLO 15. nóvember 1988 er Arafat forseti las upp sjálfstæðisyfirlýsinguna. Sama haust flutti Allsherjarþingið sig um set, frá New York til Genfar, til að geta hlýtt á ræðu Arafats um sama efni. Með stefnumörkun Arafats forseta og PLO 1988 um sjálfstæði og fullveldi innan landamæranna frá 1967, Grænu línunnar svokölluðu, var verið að viðurkenna tilvist Ísraelsríkis.

Ísrael virðir ekki landamæri

Ísraelsríki hefur ekki komið til móts við útrétta friðarhönd Palestínumanna. Í Ísrael hafa verið við völd öfl sem leyna ekki ásetningi sínum að sleppa engu af hertekinni Palestínu. Ísraelsríki byggir á aðskilnaðarstefnu og skilgreinir ekki landamæri gagnvart nágrönnum, hver sem er við völd í Tel Aviv. Landránið hefur átt sér stað frá stofnun ríkisins og hernámið fer stöðugt vaxandi.

Meirihluti aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna viðurkenndi Palestínu frá og með 1988 og á þessari öld bættust við fjölmörg ríki. Ísland varð fyrst svokallaðra vestrænna ríkja til að bætast í þann hóp. Ályktun Alþingis 29. nóvember 2011 vakti athygli langt út fyrir landsteinana og ekki síst í Palestínu og Austurlöndum nær. Henni þarf að fylgja eftir með auknum stuðningi og samstarfi, lifandi samstöðu með palestínsku þjóðinni í baráttu hennar fyrir frelsi og mannréttindum.

Birtist fyrst í Frjáls Palestína.

Scroll to Top