Lengst af sá ég ekki ástæðu til þess að velta sérstaklega fyrir mér grundvallarmannréttindum enda tilheyri ég fámennum forréttindahópi sem hefur aldrei liðið skort á nauðsynjum né upplifað brot á frelsi mínu og mannhelgi. Ég hef gert það sem ég vil, þegar ég vil, þar sem ég vil. Það tekur því aldeilis á óreyndri réttlætiskenndinni að ferðast til hertekinnar þjóðar eins og Palestínu, þar sem daglegt líf einkennist af kúgun, ferðatakmörkunum, valdaníðslu, mannréttindabrotum og niðurlægingu af hendi hernámsþjóðarinnar á meðan að heimurinn horfir aðgerðarlaus á.
Allar borgir og bæir á Vesturbakkanum (sem mynda á framtíðarríki Palestínumanna) eru umkringd ólöglegum landtökubyggðum Ísraela og eru byggðirnar forsenda fleiri en 600 eftirlitsstöðva, vegatálma, veghliða og annara hindrana sem gera 2 milljónum Palestínumanna ómögulegt að komast óhindrað á milli staða, á meðan að landtökufólkið ferðast algerlega óáreitt um Vesturbakkann. Landtökubyggðirnar eru tengdar hver annari með splunkunýjum hraðbrautum sem skera þvert á landsvæði Palestínumanna og eru eingöngu ætlaðar landtökufólki. Við hvert þorp sem er einangrað vegna landtökubyggðanna og hraðbrautanna er varðstöð sem eingöngu Palestínumenn þurfa að fara í gegn um. Það heyrir til algerra undantekningar að komast frá einum palestínskum bæ til annars án þess að vera stoppaður og yfirheyrður á ísraelskri varðstöð. Og nú er ég aðeins að tala um Vesturbakkann, Gaza ströndin er alveg sér kapítuli.
Ég hef starfað sem sjálfboðaliði í Palestínu 2005, 2008 og 2009. Þar hef ég starfað í borg á norðurhluta Vesturbakkans sem heitir Nablus, en í henni búa um 150 þúsund manns en borgin sér öðrum 150 þúsundum í nærliggjandi þorpum fyrir nauðsynlegri samfélagsþjónustu. Eins og aðrar borgir er Nablus umkringd 14 ólöglegum landtökubyggðum sem gerir það að verkum að borgin er lokuð til allra átta með 7 varðstöðvum. Þetta þýðir að Nablusbúar geta ekki yfirgefið borgina sína án þess að fá leyfi frá ísraelskum yfirvöldum og íbúar nærliggjandi þorpa hafa ekki aðgang að nauðsynlegri þjónustu í borginni, hvorki menntun né heilbrigðisþjónustu.
Síðustu tvö sumur starfaði ég með litlum grasrótarsamtökum sem kallast Project Hope. Hjá þeim starfa bæði innlendir og erlendir sjálfboðaliðar. Samtökin miða að því að veita fólki sem lifir við alvarlegt og óréttlátt hernám mannúðleg tækifæri til að auka þekkingu sína og færni í tungumálum og listum. Aukin tungumálakunnátta er Palestínumönnum dýrmæt, eins og öll önnur menntun, þar sem hún opnar fleiri möguleika á að vekja athygli á ástandinu í landinu. Þó svo að samtökin einbeiti sér sérstaklega að tungumála- og listakennslu varð svo úr að ég fékk, ásamt öðrum, tækifæri til þess að þróa og kenna heilsueflingar- og skyndihjálparnámskeið fyrir hin ýmsu kvenfélög umhverfis Nablus. Við sem stóðum að skyndihjálparkennslunni 2008 ákváðum að skrifa skyndihjálparbók, sem fyrir tilstuðlan Félagsins Ísland-Palestína var gefin út í 500 eintökum og dreift til þeirra sem hlutu kennslu.
Þar sem skyndihjálpin var einungis kennd í þorpunum og flóttamannabúðunum fyrir utan Nablus fylgdu því alltaf smá ferðalög þar sem við þurftum að fara í gegnum varðstöðvar, þrátt fyrir að þorpið væri í aðeins 10 km fjarlægð frá miðborg Nablus. Þó svo að ég færi í hverri viku í gegnum sömu varðstöðina, með sama túlkinum og með sömu endurlífgunarbrúðuna kostaði það alltaf óþarfa vesen, niðurlægingu og seinkanir.
En svo hef ég einnig haft umsjón með enskutímum, en þá sóttu aðallega fólk á aldri við mig og flestir háskólanemar. Það var alveg ljóst frá upphafi að ég væri ekki að fara kenna ensku, enda ekki með reynslu né réttindi á því sviði, þannig að ég ákvað strax að hafa tímana í formi umræðna. Fyrir hvern tíma var ég búin að finna til nokkur umræðuefni og svo völdum við í sameiningu það sem okkur þótti áhugaverðast og ræddum og skiptumst á skoðunum. Þau voru líka dugleg við að finna upp á umræðuefnum sjálf og oftar en ekki þróuðust um ræðurnar í allt aðra átt en til stóð í upphafi tímanna. Sum umræðuefni voru heitari en önnur og stundum spunnust út líflegar rökræður um umdeild málefni, og ég átti oft í stökustu vandræðum við að stýra umræðunum og halda þeim á ensku.
Helgarfríin nýttust svo í ferðalög, bæði innan Vestubakkans og utan hans. Það sem var kannski erfiðast við það að ferðast frá Nablus var það að ég gat farið. Ég er frjáls, en þeir Palestínumenn sem ég vann með og kenndi gátu ekkert farið. Ég sagði bekknum mínum að ég væri að fara til Haifa (ísraelsk borg þar sem margir íbúar Nablus eiga rætur að rekja) vitandi það að þau mega aldrei fara til Haifa og mega mörg hver ekki einu sinni yfirgefa Nablus. Borgir eins og Jerúsalem, Jericho og Bethlehem eru staðir sem maður hefur þekkt frá blautu barnsbeini og Dauða hafið er einstakt í veröldinni.
Sömuleiðis fór ég ásamt öðrum sjálfboðaliðum í heimsóknir til ýmissa samtaka sem starfa í Ísrael, en áhugaverðast var að heimsækja samtök fyrrverandi hermanna sem vilja rjúfa þögnina um grimmd hernámsins og vekja athygli á neikvæðum áhrifum hermennskunnar á líf og heilsu þeirra sem gegna herskyldu (en meirihluti Ísraelsmanna gegnir herskyldu). Hver einasti dagur í Palestínu var áskorun, hver einasta kennslustund færði mér eitthvað nýtt. Það var svo margt sem ég hafði aldrei nokkurn tíma geta ímyndað mér sjálfa mig gera, hvort sem það var að standa fyrir framan hóp af fólki, halda athygli þess og halda uppi umræðum án þess að falla í yfirlið eða standa í hárinu á vopnuðum landamæravörðum með mikilmennskubrjálæði.
Dvöl mín í Palestínu hefur verið tilfinningarlegur rússíbani, ég upplifði bæði djúpa depurð og reiði yfir óréttlætinu sem maður varð vitni að á hverjum einasta degi; tilgangsleysi öryggiseftirlitsins, ömurlegum réttlætingum á ólöglegu hernámi og vonleysi yfir skeytingarleysi umheimsins í garð þeirra sem brotið er á. En á sama tíma hef ég aldrei kynnst eins mikilli gleði, auðmýkt, heiðarleika, um hyggju og gestrisni í fari fólks, bæði palestínsku og alþjóðlegu.
Öllum sem álíta sig mannúðlega ber að opna augun fyrir því óréttlæti sem einkennir líf meirihluta íbúa heimsins og velta fyrir sér hvaða þýðingu það hafi að vera veikur, fátækur og vanmáttugur á tímum hnattvæðingar og framfara í vísindum. Sem íbúar í siðmenntuðu og mannssæmandi samfélagi sem byggt er á grundvallar siðferðislegum gildum er það skylda okkar að hlusta, axla ábyrgð og bregðast við óréttlæti og ójöfnuði.
Birtist í Frjáls Palestína.