Í nafni okkar allra

Um klukkan sex sl. mánudagsmorgun kom kallið í gegnum hátalara ísraelska hersins um að allir karlmenn í Deheishesh flóttamannabúðunum ættu að koma út af heimilum sínum og safnast saman við nálæga steinanámu. Á milli 1.000 og 1.200 karlkyns íbúar frá flóttamannabúðunum og nágrannaþorpinu Artis komu til námunnar.

Karlarnir og piltarnir, 14 ára og eldri, voru bundnir á höndum og bundið var fyrir augun á þeim. Samkvæmt lýsingum Palestínumanna sem voru á staðnum var mönnunum haldið í steinanámunni fram á nótt. Þeir voru aðeins klæddir nærfötum og fengu engan mat. Þeir sem þurftu á lyfjum að halda fengi þau heldur ekki. Seint um nóttina var flestum sleppt og aðeins nokkrir tugir manna voru færðir til yfirheyrslu. Meðal þeirra var enginn af lista Ísraelsmanna yfir eftirlýsta menn.

Þeir sem fengu að fara urðu að ganga með hendur á lofti aftur til heimila sinna. Fyrir þá var þetta dagur niðurlægingar og pyntinga sem þeir munu seint gleyma. Hvernig getum við ímyndað okkar að mega þola slíka tilhæfulausa fjöldahandtöku? Getum við ímyndað okkur börn okkar, 14 og 15 ára gömul, færð til námu í morgunsárið, bundin og síðan niðurlægð klukkutímum saman, þótt þau hafi ekkert gert af sér? Myndum við ekki finna til haturs og löngunar til þess að hefna okkur á þeim sem fremdu slíkan verknað?

Í síðustu viku urðu þúsundir Palestínumanna um allan Vesturbakkan, frá Jenín til Jerúsalem, fyrir slíkum ranglátum fjöldahandtökum. Hveru margir voru í raun handteknir? Er einhver sem telur? Talsmaður Ísraelshers sagði, eftir að hafa kannað málið, að hann vissi ekki nákvæmlega hversu margir hefðu verið handteknir. Hann gekk aðeins úr skugga um að niðurlæging mannanna væri fest á filmu, svo að ísraelskur almenningur gæti séð bundna og hálfnakta fangana.

En handtökurnar eru ekki það versta sem komið hefur fyrir palestínsku þjóðina síðan Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísrael, lýsti því yfir að hún skyldi fá harkarlega meðferð. „Það þarf að berja þá niður, sagði Sharon í byrjun mánaðarins á kaffistofu þingsins. Árangurinn er sá að um 170 Palestínumenn hafa látið lífið, um tíu á dag að meðaltali. Í hópi hinna látnu eru 12 börn og unglingar, 11 meðlimir í palestínskum öryggissveitum, þrír starfsmenn í heilbrigðisgeiranum, þar af tveir læknar, og einn erlendur fréttamaður.

Öll palestínska þjóðin hefur tekið þátt í þjáningunum. Hundruðum þúsunda almennra borgara var haldið í hryllilegu stofufangelsi. Margir urðu að yfirgefa heimili sín og búa dögum saman hjá nágrönnum sem þeir þekktu lítið. Skriðdrekar óku um strætin, sprengjur féllu og árásarþyrlur flugu yfir, skelfd börn sátu föst inni á heimilum sínum, gamalmennum og sjúklingum var neitað um læknishjálp, margir höfðu engar matarbirgðir og í sumum tilfellum ekkert rafmagn eða rennandi vatn. Ofan á þetta bættist ofbeldisfull leit ísraelskra hermanna á heimilum fólks.

Ísraelska þjóðin vissi lítið af þessum þjáningum og virðist ekki ætla að láta þær á sig fá. Ísraelsmenn eru uppteknir af eigin þjáningum og uppfullir af ótta við palestínska hryðjuverkamenn í hverju horni, þannig að þeim er alveg sama um þjáningar annarra. Flestir ísraelskir læknar depluðu ekki einu sinni auga þegar starfsbræður þeirra voru drepnir, ísraelskir blaðamenn mótmæltu ekki dauða ítalsks starfsbróður síns og ísraelskir lögmenn sögðu ekkert þótt alþjóðalög væru brotin.

Þjáningar Ísraelsmanna voru vandlega tíundaðar í fjölmiðlum, sem var rétt og skylt, en þjáningar Palestínumanna, sem eru mun alvarlegri, voru varla nefndar í ísraelskum fjölmiðlum. Það var næstum engin umfjöllun í Ísrael um þann mikla fjölda Palestínumanna sem var drepinn, og það var ekki tilefni til almennrar umræðu að aðeins í nokkurra mínútna fjarlægð frá Jerúsalem voru tugir þúsunda sveltandi fólks í haldi undir sprengjuregni.

Í nafni allra Ísraelsmanna hefur herinn framið verknaði sem eru óþolandi og óásættanlegir. Sú staðreynd að meirihluti Ísraelsmanna hefur hvorki viljað heyra né sjá hvað var að gerast leysir okkur ekki undan ábyrgð. Það dregur heldur ekki úr því tjóni sem Ísrael verður sjálft fyrir vegna þessara tilgangslausu aðgerða. Þeir sem voru niðurlægðir við steinanámuna munu fá sína hefnd. Við greiðum öll gjaldið.

Birt í enskri útgáfu ísraelska dagblaðsins Haaretz, 17. mars 2002.

Svala Jónsdóttir, sem starfar við mannréttindavakt á vegum Hjálparstofnunar kirkjunnar í Palestínu, þýddi greinina og stytti.

Birtist fyrst í Frjáls Palestína.

Höfundur

  • Gideon Levy

    Höfundur er fréttaskýrandi á ísraelska dagblaðinu Haaretz.

Stöðvið helför Ísraels á Gaza - Mótmæli.
Mótmæli við ríkistjórnarfund Hverfisgötu 4, föstudaginn 22. ágúst klukkan 8:45, nánar.

Scroll to Top