Í dag minnumst við þjóðarmorðs sem enn stendur yfir á Gaza

Í dag minnumst við þess að valdhafar heimsins og öll stjórnvöld sem kjósa að vera undirseld þeim, þar á meðal íslensk (bæði þá og nú, þetta er svona „þvert á flokka“ dæmi) ákváðu fyrir tveimur árum að taka afstöðu með þjóðarmorði, með tortímingu, með útrýmingu Palestínufólks á Gaza.

Vopnuð andspyrna gegn ofurvopnuðu slátrunarkerfi og kúgun var notuð sem réttlæting fyrir yfirþyrmandi ofbeldi gegn bæði andspyrnunni og gegn börnum, gegn framtíðinni, gegn tilverunni, gegn sannleikanum og sögunni.

Gaza © Hosny Salah – Pixabay
Gaza © Hosny Salah – Pixabay

Saga andspyrnu Palestínufólks gegn ofurvaldi vestursins er löng. Fyrst var það breska heimsveldið, svo það bandaríska, nýlenduveldi sjálf, sem gengu til liðs við síonista. Palestínufólk hefur risið upp aftur og aftur allan þennan tíma, með pólitískri baráttu á alþjóðavettvangi, með því að leita réttar fyrir alþjóðlegum dómstólum, með mótmælagöngum, með því að skrifa og dreifa bókmenntum sínum og sögu, með því að reyna að fá áheyrn vestrænna meginstraumsmiðla, með því að leita að samstöðu fólks með samvisku um allan heim og fá það til að sniðganga og einangra nýlenduveldið, með því að berjast við þungvopnaða hermenn á skriðdrekum með steina að vopni, með því að brjótast aftur inn í eigið land úr hernaðarumsátri til að taka gísla, til að reyna að frelsa sína eigin fanga sem pyndaðir eru í pyntingabúðum landránsveldisins.

Allri þessari andspyrnu, friðsamlegri jafnt sem vopnaðri, hefur verið svarað með grimmilegu ofbeldi sem valdaríkin hafa alltaf stutt og alltaf réttlætt og alltaf grafið undan öllum samstöðuaðgerðum. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er engin undantekning. Stuðningi við landránsnýlenduveldið hafa iðulega fylgt „áhyggjur“, „þetta er of langt gengið“, „einhvern tíma hlýtur að komast á friður“, vegna þess að það má ekki vera of augljóst okkur sjálfum hve svívirðilegt það er og glæpur gegn mennskunni, að styðja svo augljós rangindi. (Þetta á við um það þegar stjórnvöld eru ekki yst til hægri.)

Nú höfum við haft tvö ár til að melta þjóðarmorð í beinni útsendingu – eða tvö ár til að forðast að sjá það. Tvö ár af þögn, undanbrögðum og mælskulist til að komast hjá því að gera skyldu okkar, sem er að sýna alla þá samstöðu með Palestínu sem við megnum. Tvö ár af samsekt. Tvö ár af linnulausri slátrun kúgarans gegn hinum undirsettu. Tvö ár til að réttlæta það að ganga nú örugglega ekki á rétt kúgaranna til að njóta lífsins og láta rödd sína heyrast í sölum akademíunnar, íþróttavöllum, sviðum söngleikjanna. Nei nei nei, það væri hóprefsing maður, það væri brot á mannréttindum, guð minn góður, það væri röskun á málfrelsinu, nei nei nei við skulum bara sjá til með þetta og vona að þegar nýlenduherrarnir upplifa aftur öryggi þá muni þeir slaka aðeins á þessu.

Ég hef engin hnyttin lokaorð. Ég er bara að skrásetja nokkur atriði. Ég fer fram á sniðgöngu á öllum sviðum. Ég fer fram á samstöðu okkar með Palestínu. Ég fer fram á að utanríkisráðherra hætti að réttlæta þjóðarmorð. Það er algert lágmark.

Birtist fyrst á Facebook síðu höfundar.

Scroll to Top