Hversu lengi . . .?

Það er skrýtið að ímynda sér að ráðamenn utanaðkomandi þjóðar ráði gjörsamlega öllu í öðru þjóðfélagi, hvort sem það er daglegt líf borgaranna eða efnahagurinn, en þetta er raunveruleikinn sem Palestínumenn þurfa að sæta af hálfu Ísraels. Landamæri Ísraels eru regulega lokuð meira en 125.000 palestínskum verkamönnum, flestum frá Gaza, en margir reiða sig á hvaða störf sem þeir geta fengið þar til að tryggja afkomu sína. Byggðir Palestínumanna eru hersetnar, landtökubyggðum fjölgar og þær sem fyrir eru – jafnt í trássi við alþjóðalög sem hernámið yfirleitt – stækka á meðan flestir ráðamenn erlendis kinka kolli, gefa út hástemmdar yfirlýsingar eða gefa samþykki sitt með þögn sinni eða aðgerðaleysi.

Byggðir Palestínumanna á Vesturbakkanum eru girtar af og einangraðar með girðingum og múr á meðan Ísraelar sölsa æ meira land undir sig og sérstakir vegir eru hannaðir þar fyrir gyðinga og eru aðeins ætlaðir þeim. Landtökumenn njóta svo öruggrar verndar hersins. Vilji palestínskir þorpsbúar og bændur rækta akrana sína geta þeir átt á hættu að vera skotnir. Akrar fá að standa auðir og afurðir rotna.

Ráðamenn Ísraels tala opinskátt um þjóðernishreinsanir gagnvart nágrönnum sínum, þó stundum sé reynt að nota „penara“ orðalag.

Ferðir Palestínumanna eru gjörsamlega háðir duttlungum hernámsliðsins. Eftirlitsstöðvar eru á víð og dreif með hermönnum, gráum fyrir járnum,vegum er rústað, olífutré, lífæð þorra fólksins, eru rifin upp með rótum. Útgöngubanni er skellt á fólk svo dögum getur skipt. Húsum er rústað, flóknir lagakrókar gera Palestínumönnum afar illkvæmt að reisa hús og auk þess eru „öryggisástæður“ haldgott skálkaskjól.

Íbúum á Gaza, afgirtu, umluktu og hernumdu svæði, er refsað fyrir að „kjósa vitlaust“, og settir í herkví. Þeir hafa sætt land- og loftárásum með hléum. Innviðir Gaza eru í rúst og var ástandið þó hörmulegt fyrir, áður en Ísraelar hófu árásir sínar í desember 2008 þar sem meira en 1400 Palestínumenn voru drepnir. Atvinnuleysi á Gaza mældist um 40% í fyrra og samkvæmt rannsókn frá því í ár lifa 61% Gazabúa undir fátæktarmörkum skv. skilgreiningu Sameinuðu þjóðanna.

Þjarmað hefur verið æ meira að íbúum Gaza, en atburðir fyrr á árinu, árásin á skipaflotann sem flutti hjálpargögn til svæðisins og morð á níu manns, og þrýstingur sem Ísrael sætti í kjölfarið hefur orðið til þess að Ísrael fór í kattaþvott en hefur engu breytt um stefnu sína í raun. Í stjórn Sharons hafði landtökumönnum verið vísað burt en fengu ríflegar bætur frá ríkinu, á meðan Palestínumenn fá engar bætur fyrir missi sinn af hálfu hernámsliðsins. Landsvæðið var þó eftir sem áður í hers höndum og er enn í dag.

Á meðan efnahagur Ísraels græddi á landtökubyggðunum kostaði það samt sitt að halda landtökubyggðunum uppi með hervernd og löndin á Vesturbakkanum voru verðmætari, ekki síst í tilliti til vatnsauðlinda.

Ísraelskir arabar njóta ekki fullra borgaralegra réttinda, heldur hafa þá sérstöðu að vera „varanlegir dveljendur (e. „permanent residents“). Það þýðir að þeir njóta ekki fullra réttinda á við gyðinga þó þeir geti til að mynda kosið til ísraelska þingsins. Ísrael á líka með þessu móti hægara með að svipta þá réttindum sínum, kjósi það að gera svo.

Þá eru ónefndur meirihluti Palestínumanna sem er flóttamenn, flestir frá stríðinu 1948.

Þessir flóttamenn fá ekki viðurkenndan rétt sinn til að snúa aftur til ættjarðar sinnar. Margir þeirra þreyja þorrann í ömurð í flóttamannabúðum og eru upp á ölmusu alþjóðasamfélagsins komnir. Ísrael ríkir í krafti herafla síns, varið af múrum, vörðum, herflugvélum og orustuþyrlum, eldflaugum, skriðdrekum, herskipum kjarnavopnum, – og þannig mætti áfram telja. Það ríkir með ógn og valdbeitingu.

Nýlega var til dæmis kynnt kerfi sem Ísraelsher státar sig af þar sem hægt er að skjóta Palestínumenn við landamærin á Gaza með hríðskotabyssum sem stýrt er með fjarskiptabúnaði, svo minnt gæti á tölvuleik, nema að fórnarlömbin eru af holdi og blóði. Stúlkur í hernum njóta þess heiðurs að fá að manna fjarstýringarnar.

Palestínumenn eiga í andspyrnu við hernámslið sem hefur alla tilveru þeirra í hendi sér og vopnin sem þeir sjálfir hafa eru á borð við eldflaugar, riffla og sprengjubelti.

Árásir sem bitna á óbreyttum borgurum eru alltaf stríðsglæpur, og á þetta jafnt við eldflaugaárásir og land- og loftárásir, sem og sjálfsmorðsárásir. 1400 manns sem féllu í árásarhrinu Ísraela á Gaza versus 13 Ísraelar segir þó sína sögu.

Ísraelsríki heldur í sífellu áfram að virða alþjóðalög að vettugi. Stefnan hjá ráðamönnum þess virðist vera að gera Ísrael og Palestínu sem mest að gyðingaríki til að hindra það að Palestínumenn geti fengið að stofna sjálfstætt ríki, sem þó væri aðeins um 22% af upprunalegri Palestínu. Þannig er bundið um hnútana að aðeins yrðu eftir svæði sem mætti líkja við svissneskan ost, tvístruð og afgirt. Eins hafa þeir ekki viljað samþykkja hugmyndina um eitt lýðræðislegt ríki þar sem allir íbúar væru jafn réttháir. Það virðist skipta ráðamennina litlu hvaða álit það skapar þeim með almennings um allan heim. Andstaðan við Ísrael eykst, sniðgönguátök spretta upp æ víðar og skildi ekki mann undra, að fólk sem lætur sig mannréttindi einhverju varða skuli andæfa framferði Ísraelsríkis. Á hinn bóginn gefur þetta rasistabylgjunni sem eykst í Evrópu og Bandaríkjunum byr undir báða vængi, og hætta er á að and-zíonismi og and-semítismi lendi undir sama hatt. Hvað arabalönd varðar þá er þetta sem opið sár fyrir almenning og ráðamenn geta einnig nýtt sér þetta til fylgis við sig, hvort sem hugur fylgir þá máli eður ei.

Slæm samviska vegna helfararinnar ræður að sjálfsögðu miklu um stuðning Vesturveldanna við Ísrael. Allt of margir voru annað hvort beinir stuðningsmenn eða kusu að horfa fram hjá þessum hroðalegasta glæp 20. aldarinnar. Morð á 6 milljónum gyðinga er það stjarnfræðileg tala að heilinn nær ekki utan um hana. Og það má nefna það að þó að sagan geti virst fjarlæg – við sjáum rústir sem virka fornlegar og svarthvítt myndefni – er ekki lengar síðan að þetta var en svo að amma mín var við nám í Berlín á stríðsárunum og var á 21. aldursári þegar stríðið hófst, en hafði til allrar mildi komst hún heim til Íslands nokkrum mánuðum áður það braust út.

Hún man það til að mynda vel þegar hún frétti að strákurinn á efri hæðinni þar sem hún leigði hefði verið „sóttur“, hún gekk framhjá Kaiser Wilhelms Gedächnictskirche í Berlín, sem nú er rústir einar, þegar kirkjan var heil. Hún sá Hitler og Mussolini aka framhjá þegar hún var á leið í skóla – og það í lit. Amma mín verður 92 ára núna í desember.

Aftur á móti hefur helförin því miður oft verið notuð til þess að réttlæta þau voðaverk sem eiga sér stað í dag og þess má geta að minningu annara fórnarlamba helfararinnar en gyðingum hefur verið úthýst úr Helfarararminnismerkinu í Berlín og víðar. Þrýstihópar á borð við AIPAC eiga sinn þátt í þessu. Ekki má svo gleyma því að ýmsir kristnir hópar telja það heilaga skyldu sína að styðja Ísrael skilyrðislaust, bæði sem fyrirheitna landið og þar sem þeir telja að þetta muni greiða fyrir efsta degi. Maður hlýtur að spyrja sig hvort það hafi verið þetta sem fólkið hafði í huga sem sagði „aldrei aftur“.

Ísrael nýtur nánast skilyrðislauss stuðnings öflugasta ríkis heims, Bandaríkjanna, en þegar önnur ríki eflast er ekki víst að ægivald Bandaríkjanna verði sífellt til staðar til að redda Ísrael, og í ljósi áðurnefnds almenningsálits virðist sá stuðningur tvíeggja sverð.

Ísrael fær efnahagslega, hernaðarlega og stjórnmálalegan stuðning frá Bandaríkjunum. Á meðan efnahagsaðstoð fer vanalega til þróunarlanda fær Ísrael, sem er efnaðara en mörg ríkjanna í Evrópusambandinu, meiri efnahagsaðstoð frá Bandaríkjunum en nokkurt annað ríki í heiminum. Það er um 1.8 milljaðrar í hernaðaraðstoð, 1.2 milljarðar í efnahagsaðstoð og annar milljarður í margvíslega styrki, oftast hergögn frá hinum ýmsu bandarísku stofnunum.

Ísrael er jafnframt eina ríkið sem fær að verja hluta af hernaðarstyrkjum sínum í eigin vopnaframleiðslu. Bandaríkin styðja svo stefnu Ísrael um að neita hvorki né gangast við kjarnorkustyrk sínum þó hann sé vel þekktur og skjalfestur.

Í veru sinni í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna hafa Bandaríkin oftast beitt neitunarvaldi sínu til að verja Ísrael fyrir því að þurfa að láta Palestínumenn njóta grundvallarréttinda.

Það er nefnilega kjarni málsins. Barátta Palestínumanna er í grunninn ekki barátta um óhlutbundin hugtök, fána, sögu, þjóðsöngva eða pólitíska frasa. Hún er barátta fyrir réttinum til mannsæmandi lífs. Þetta er í raun krafa beggja þjóða. Það er ekki mannsæmandi líf að eiga skæru-og hryðjuverkaárásir á hættu og það er ekki mannsæmandi líf að lifa við hernám, hernaðarárásir, útlegð og skert réttindi eins og lýst hefur verið hér að ofan. Svo lengi sem hernámið er við lýði mun í raun hvorug þjóðin fá frið.

„How long must we sing this song?“ spurðu U2 í laginu Sunday Bloody Sunday. Í ljósi þess þykir mér viðeigandi að ljúka þessum pistli með sömu orðum og ég gerði í ritstjórapistli mínum í fyrra, enda sýnist mér krafan jafn knýjandi nú og áður:

Niður með hernámið. Niður með herkvína. Niður með múrana, andlega og veraldlega. Megi friður og réttlæti ná að ríkja.
Shalom, salaam.*

* Þessi kveðja er sameiginleg aröbum og gyðingum og heilsa þeir og kveðja á þennan veg. Orðið sjálft getur í senn merkt friður, heilindi, öryggi og friður. Arabar gætu þá sagt „salaam aleikum“ og gyðingar „shalom alekheim“ sem mætti útleggjast sem „megi friður og velferð fylgja þér“

Birtist í Frjáls Palestína.

Höfundur

Scroll to Top