Þorvaldur Örn spurði sig þessarar spurningar í greinarstúf sem hann reit fyrir blaðið og sendi stjórninni í netpósti. Hann endaði grein sína á samviskuspurningu, sem Sverrir Agnarsson greip á lofti og svaraði út frá eigin lífshugsjón.
Þorvaldur Örn Árnason:
Af hverju er ég í Palestínufélaginu? Hvers vegna er ég að skipta mér af því sem gerist í Palestínu? Kemur mér það við? Af hverju er mér ekki sama? Flestum tekst að leiða þetta mál hjá sér þrátt fyrir daglegar fréttir, sem yfirleitt eru ekki góðar fréttir.
Ég hef aldrei til Mið-Austurlanda komið og þekki sögu þessa heimshluta aðeins af bókum og fréttum. Fyrst þó af Biblíusögunum sem ég las af áhuga í barnaskóla. Ég lifði mig svo inn í sögurnar af Abraham, Móse og Jesú að sögusviðið varð eins og næsta sveit. Guð var sjálfur aðalpersónan í sögunum og ekkert sjálfsagðara en hann ætti sér útvalda þjóð. Egiptar og Filistear voru í aukahlutverki, eiginlega skúrkar. Ég sá ljóslega fyrir mér Betlehem, Jerúsalem, Jordan, Dauðahafið og ótal aðra staði.
Þó 2000 ár skilji að í tíma og 5000 km í rúmi hefur mér æ síðan þótt Biblíusögurnar mjög nálægar. Þegar ég óx upp heyrði ég æ oftar fréttir af stríði þar sem Arabar í gerfi Golíats voru að ráðast á Ísrael, sem varðist hetjulega að hætti Davíðs. Samúð mín var með Biblíuþjóðinni og mér fannst hún vera að verja sitt eigið land sem Guð var löngu búinn að gefa henni. Að vísu vantaði þarna inní þau tæplega 2000 ár sem þjóðin hans Guðs hraktist að heiman, dreifðist um lönd og álfur og umrætt land var byggt Aröbum. (Í sjálfu sér væri það minni tímaskekkja ef Norðmenn hæfu að nema hér land að nýju nú á árinu 1999!) En nú var þjóð Guðs loksins komin heim aftur eins og ekkert hefði í skorist (eða hvað?) en ljótu Arabarnir voru sífellt að hrekkja hana. Svo kom sex daga stríðið.
Það var 1967, ég var þá í menntaskóla. Ég gladdist yfir glæstum sigri ísraelsmanna, eins og svo margir aðrir. En svo fór ég að efast og á nokkrum árum upp úr 1970 skipti ég um skoðun. Ein ástæðan var sú að ég hætti að trúa á Guð (einnig á drauga og fleiri slík fyrirbrigði og losnaði þar með við myrkfælnina). Þá hrundu forréttindi ísraelsmanna í huga mínum og við blasti herskátt ríki byggt á trúarofstæki og yfirgangi. Önnur ástæða var sú að ég bjó um árabil í Noregi. Þar var öflug stuðningshreyfing við málstað Palestínuaraba og þá gafst mér kostur á að horfa einnig á málið frá arabískum sjónarhóli. Mér fór að ofbjóða afstaða Íslands sem oftast var endurómur af stefnu Bandaríkjanna til stuðnings Ísraels á hverju sem gekk. Ekki var síður óhugnanlegt hve hlutdrægur fréttaflutningur íslensku fjölmiðlanna var.
Ég fór að skammast mín fyrir stefnu þjóðar minnar. Ef ég vildi ekki vera með öllu samsekur varð ég að mótmæla og reyna að fá stefnunni breytt. Því var það engin spurning að ganga í Félagið Ísland-Palestína þegar það var loks stofnað 1987.
Hvað hefði gerst ef ég hefði haldið barnatrú minni á Guð og ekki hleypt heimdraganum? Væri ég þá enn stuðningsmaður hinnar útvöldu þjóðar Guðs líkt og svo margir landar minir virðast vera? Hefði mér þá kannski tekist að leiða málið hjá mér?
Hvers vegna komast íslensk stjórnvöld upp með að viðurkenna, umbera og styðja ríki sem er byggt á trúarofstæki, aðskilnaði og kerfisbundinni mismunun fólks eftir trú og ætterni og sölsar undir sig annarra land?
Ríki sem þverbrýtur öll helstu mannréttindi og alþjóðalög og hefur gert milljónir manna réttindalausa í eigin landi eða hreinlega landflótta? Ríki sem á sér engin viðurkennd landamæri og aðeins minnihluti þjóða heims styður?
Hvers vegna beita þau félög, sem hafa réttlæti á stefnuskránni, sér ekki af afli til þess að afnema óréttlæti og kúgun sem við höfum átt þátt í að skapa? Af hverju hjálpum við ekki Palestínumönnum að byggja upp lýðræðislegt réttarríki sem sé laust við allt það óréttlæti sem þeir hafa sjálfir þurft að búa við?
Og að lokum ein samviskuspurning: Hvers vegna hefur dregið úr krafti mín sjálfs í þessari baráttu?
Sverrir Agnarsson:
Varðandi þessa samviskuspurningu, þá held ég að þetta sé eitthvað í tíðarandanum. Eitthvað sem allir upplifa í sambandi við baráttumál sín og á ef til vill rót sína í fjölmiðlabyltingu seinni ára sem hefur leitt til þess að sá miðlægi kjarni sem áður virtist vera í allri umræðu er horfinn og brotinn upp í smá einingar og menn horfa á sitt eigið prógram og missa sameiginleg tengsl við stóru málin. Ég vona að þetta ástand líði hjá þegar við lærum að nota og lifa við þessa nýju tækni.
Baráttan í Palestínu er að mínu mati meðal annars mikilvæg vegna þess fordæmis sem endanlegur sigur kúgarana myndi hafa á alla heimsbyggðina. Er hægt að uppræta, sundra og niðurlæga heila þjóð á okkar tímun með aðstoð alþjóðasamfélagsins án þess að samviska heimsins gefi þvi nokkurn gaum?
Ég sló því fram fyrir nokkrum árum að Palestínumálið væri í raun eins einfalt og spurningin um réttindi óskilgetinna barna.
Hver heldur því enn fram að óskilgetin börn eigi engan rétt?
Birtist í Frjáls Palestína.