Hvers vegna ég truflaði Olmert

Ef Ehud Olmert, fyrrum forsætisráðherra Ísraels, hefði einungis verið erindreki eða menntamaður sem hefði haldið fram umdeildri skoðun, þá hefði það vissulega verið tilraun til að hefta rökræður að trufla hann í ræðu sinni í Mandel-salnum í Chicago-Háskólanum þann 19. október (sjá grein eftir Noah Moskowitz, Meredyth Richards og Lee Solomon, „The Importance of Open Dialogue“, í tímaritinu The Chicago Maroon, þann 19. október 2009). Ég kynntist reyndar sjálfur þannig tilraunum þegar framíkallarar trufluðu mig í sífellu í Mandel-salnum í janúar, þegar ég kom fram ásamt John Mearsheimer og Norman Finkelstein.

En ekki er hægt að líta það sömu augum og að standa í móti stjórnmálaleiðtoga sem er grunaður um stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni.

Skýrsla rannsóknarnefndar Sameinuðu þjóðanna, sem dómarinn Richard Goldstone fór fyrir og fjallaði um átökin á Gaza síðastliðinn vetur, úrskurðaði að Ísrael hafi meðvitað og af algjöru skefjaleysi valdið gífurlegri eyðileggingu á borgaralegum eignum og innviðum, og vísvitandi valdið borgurunum þjáningum. Hún ályktaði að „atvikin og munstrið sem atburðirnir fóru eftir hafi verið orsök vísvitandi áætlana og ákvarðanna“ og geti talist til „stríðsglæpa“ og „glæpa gegn mannkyni“. Ef það reynist rétt, þá er Ehud Olmert sá einstaklingur sem ber mesta ábyrgð, en sem forsætisráðherra og æðsti borgaralegi yfirmaður Ísraelshers kom hann að nánast öllum þáttum skipulagningarinnar og framkvæmdarinnar.

Drápin á meira en 3000 Palestínumönnum og Líbönum meðan á þriggja ára valdatíma Olmerts stóð eru ekki bara skoðanaskipti sem hægt er að gagnrýna með kurteisislegri spurningu sem er skrifuð á minnisblað sem sá aðspurði fær að sjá fyrirfram. Þau eru glæpir sem Olmert þarf að svara fyrir gagnvart alþjóðalögum og almenningi.

Ólíkt Hamas (sem Goldstone ásakar einnig um stríðsglæpi) neitaði Ísrael alfarið að starfa með Goldstone-nefndinni. Í stað þess að sæta ábyrgð er Olmert það ósvífinn að hann ferðast nú um Bandaríkin til að réttlæta þessa hroðalegu glæpi, fær væna þóknun fyrir erindin og er hylltur sem „hugrakkur“ stjórnvitringur.

Í tölvupósti sínum til háskólasamfélagsins í Chicago-Háskólanum, fordæmdu rektor háskólans Robert Zimmer og aðstoðarrektorinn Thomas Rosenbaum „truflanirnar“ á ræðu Olmerts. „Sérhver höft á rökræðum“, skrifuðu þeir, „eru andstæð grundvallargildum Háskólans í Chicago og langvarandi stefnu okkar sem framvarðar menntafrelsis“.

Var það til þess að efla rökræður að háskólinn krafðist þess að spurningar yrðu bornar undir Olmert fyrirfram og að skólinn meinaði nemendum og fjölmiðlum um upptökur? Mun háskólinn núna, í nafni frjálsra rökræðna, bjóða Hamas-leiðtoganum Khaled Meshal – kannski í gegnum myndbandsupptöku – að halda fyrirlestur um stjórnsýslu fyrir nemendur skólans og skipa honum sérstakan heiðurssess? Megum við fljótlega búast viðað Omar Bashir, forseti Súdan komi fram í Mandel-salnum?

Þegar ég og fleiri buðum Olmert byrgin með orðum, þá vorum við málsvarar menntafrelsis, mannréttinda og réttlætis, sérstaklega þeirra hundraða þúsunda nemenda sem aðgerðir Olmerts svipta sömu réttindum.

Í árás Ísraels á Gaza síðastliðinn vetur voru skólar, þar á meðal háskólar, helstu skotmörkin. Samkvæmt Goldstone-skýrslunni eyðilögðu eða skemmdu hernaðarárásir Ísraels að minnsta kosti 280 skóla og leikskóla. Alls voru 164 nemendur og 12 drepnir, og 454 nemendur og fimm kennarar særðust.

Eftir sprengjuárásirnar héldu Olmert og Ísrael áfram að ráðast gegn menntafrelsinu, þar sem þau leyfðu ekki menntagögnum að berast til Gaza. Stílabækur, minnsbækur, ritfæri og tölvur eru öll á bannlista. Í september bað Chris Gunness, talsmaður flóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna, Ísrael opinberlega að aflétta banni þess um að nemendurnir á Gaza, sem voru í áfalli, fengu bækur og önnur gögn.

Ísrael rústaði byggingum Íslamska háskólans og annara háskóla. Samkvæmt Goldstone-skýrslunni voru þetta „borgaralegar menntastofanir og nefndin fann engar heimildir um notkun þeirra sem hernaðarbækistöðvar eða nokkrar sannanir fyrir að þær hefðu hernaðarmikilvægi sem hefði gert þær að lögmætu skotmarki í augum Ísraelshers“.

Háskólanemar á Gaza – þar af eru 60% konur – leggja stund á allt það nám sem nemendur við Chicago-háskóla gera. Hvatir þeirra, metnaður og hæfileikar eru alveg jafnmikil, en þeir eru að kafna undan ótrúlegu ofbeldi, áföllum og herkví Ísraels, en hún er stríðsglæpur í sjálfu sér. Olmert er maðurinn sem fyrirskipaði þessar aðgerðir og það verður að sækja hann til saka fyrir það.

Glæpir gegn mannkyni eru skilgreindir sem „glæpir sem hrista samviskuna“. Þegar stofnanir sem bera þá siðferðislegu og lagalegu ábyrgð að refsa fyrir stríðsglæpi og fyrirbyggja þá kjósa þess í stað að þegja algerlega um þá – eða, og það sem verra er, veita grunuðum stríðsglæpamanni skálkaskjól og kynna nemendum hann sem fyrirmynd í „stjórnsýslu“, þá er það siðferðisleg skylda að óhlýðnast því boði, ef það er það sem til þarf. Í stað þess að fordæma þá, þá ætti háskólinn að vera stoltur að því að nemendur hans voru meðal þeirra sem þorðu að andæfa.

Í fyrsta sinn í skráðri sögu þurfti forsætisráðherra Ísraels að sitja undir því opinberlega að nöfn fórnarlamba hans væru nefnd. Þetta var táknrænt skarð í múr refsileysunnar og vísir að því að því almenna réttlæti sem fórnarlömb Olmerts eiga rétt að sæta þegar réttað verður yfir Olmert.

Þessi grein birtist upphaflega í Chicago Maroon, tímariti Háskólans í Chicago.

Birtist í Frjáls Palestína.

Scroll to Top