Í dag ók ég tveggja og hálfs tíma leið frá heimili mínu í Jerúsalem til Ktzl’ot-fangelsisins í Naqab, þar sem þúsundir Palestínumanna eru í haldi, til að fara í heimsókn sem lögmaður sem sérhæfir sig í réttindum palestínskra pólitískra fanga. Þetta var fyrsta heimsókn mín eftir fangaskiptasamninginn 13. október 2025, sem samið var um með milligöngu Bandaríkjanna, þar sem Ísrael leysti úr haldi nærri 2.000 palestínska fanga á meðan þúsundir annarra urðu eftir.[1]

Á leiðinni glímdi ég við tvær myndir: gleði hinna frelsuðu og þögulan fjölda fanganna sem eftir voru. Ég spilaði aftur í huganum myndskeiðin sem fóru í dreifingu á netinu og sýndu frelsaða palestínska fanga hlaupa í faðm barna sinna, maka faðmast við tilfinningaþrungna endurfundi og aldraða gráta af létti. Á sama tíma hugsaði ég um þá um það bil 9.100 aðra sem haldið er í ísraelskum fangelsum og fangabúðum, þar á meðal yfir 3.500 í stjórnsýsluvarðhaldi, auk annarra fanga frá Gaza í herfangabúðum í ótilgreindum/óuppgefnum fjölda. Allir þeir, ásamt fjölskyldum sínum, eru enn sviptir frelsi sínu.[2]
Á meðan á akstrinum stóð velti ég fyrir mér: Hvernig líður manni þegar félagar manns ganga frjálsir en maður sjálfur verður eftir? Hvað hugsar maður þegar sagt er að stríðinu sé að ljúka, þegar svokallað vopnahlé er í gildi, en í fangaklefunum er eldurinn langt frá því að vera slokknaður?
Frá því að þjóðarmorðið á Gaza hófst hafa aðstæður í ísraelskum fangelsum versnað til muna. Ég held því ekki fram að þær hafi nokkurn tíma verið í samræmi við alþjóðalög, en það sem nú gerist verður að viðurkenna sem framlengingu á fangelsisstefnu sem á rætur í nýlendurökfræði. Undir stjórn öfgahægriráðherrans ltamar Ben-Gvir samþykkti Knesset stríðstímalög í lok árs 2023, sem heimila yfirlýsingu um „neyðarástand í fangelsum“ eða „fangelsisneyðarástand sem leyfir harðari reglur, aukið eftirlit og sviptingu grundvallarréttinda.[3] Sem hluti af þessari stefnu voru fjölskylduheimsóknir afnumdar, sem gerði fundi með lögmönnum að einu samskiptaleiðinni við umheiminn.
Þess vegna hafa lögmenn, sérstaklega palestínskir, staðið frammi fyrir takmörkunum vegna skrifræðis, þar á meðal töfum og afbókunum á heimsóknum, auk þess að vera látnir sæta líkamsleit og leit í lögfræðiskjölum[4] (skjöl sem samkvæmt siðareglum ísraelska lögmannafélagsins eru vernduð af trúnaði milli lögmanns og skjólstæðings). Mikilvægt er að taka fram að skjöl á arabísku vekja grunsemdir, að finna lögfræðilegar athugasemdir skrifaðar á arabísku getur verið notað sem réttlæting til að aflýsa heimsókn, undir þeirri fullyrðingu að lögmenn séu að senda „dulkóðuð skilaboð“. Skilaboðin eru því skýr: Tengsl fangans við umheiminn skulu rofin. Samt sem áður er hlutverk okkar sem lögmanna að vinna gegn þessu því skylda okkar er að koma fram við hvern fanga ekki sem númer heldur sem manneskju sem á skyldfólk, akur, uppskeru; líf utan fangelsisins.
Þegar ég kom inn í fangelsið sýndi ég skilríki, afhenti símann minn og persónulega muni til fangavarða. Leitað var í skjölum mínum og einnig fór ég í gegnum líkamsleit. Ekkert af þessu er óvenjulegt fyrir slíkar heimsóknir, en ég minni sjálfa mig á að við megum ekki venjast hinu óásættanlega, bara af því að það er venjulegt. Ég gekk inn og settist í básinn til að hitta fangann.
Milli mín og fangans var tvöfalt gler og mörg lög af frelsi. Ég hélt á símanum; hann hélt á símtólinu á móti, en hendur hans voru fjötraðar með handjárnum. Ég sagði honum að ég hefði talað við fjölskyldu hans. Ég nefndi frænku hans og uppskeruna á landi hans. Hann brosti, brothætt blik. Svo spurði hann: „Hvað með okkur? Eitthvað nýtt? Hvað með okkar lausn, og allra hinna, þeirra tíu þúsund sem eftir eru?“
Hér er það sem við vitum um þá sem eftir eru í fangelsunum. Lífsskilyrðin eru hrottaleg.
Eins og fram kom hér að ofan, frá október 2023, eftir yfirlýsingu um „fangelsisneyðarástand“, hafa grundvallarréttindi inni í fangelsunum verið afnumin. Matur er skammtaður, hreinlæti minnkað niður í það lágmark sem þarf til að lifa af og samskipti við umheiminn eru nær rofin. Margir fangar hafa verið fluttir ítrekað frá einni stofnun til annarrar, settir í einangrun eða neitað um lögfræðiaðstoð.
Einn fangi lýsti því einfaldlega og beint:
„Sólin og loftið snertu ekki húð mína í átta mánuði.“
Fangar hafa greint frá miklu og hröðu þyngdartapi, í sumum tilfellum allt að 50 kílóum, vegna vísvitandi minnkunar á matarskömmtum. Fangar sofa á dýnum án laka eða kodda.
Sturtur, þegar þær eru leyfðar, eru stuttar og í köldu vatni, með lítilli eða engri sápu. Fatnaður er ekki endurnýjaður; fangar hafa ekkert val en að klæðast aftur rökum, óþvegnum fötum, bæði að vetri og sumri. Þetta umhverfi ýtir undir húðsýkingar, sérstaklega kláðamaur, sem er mjög útbreiddur. Í sumum fangaklefum deila 150 – 200 fangar einni sjampóflösku. Morgunmatur getur verið hálfur tómatur, hálf gúrka og lítill ostbiti. Kvöldmatur getur verið nokkrar skeiðar af vanelduðum hrísgrjónum.
Vanræksla heilsugæslu eykur þjáningarnar. Yfirfullt er í klefum: klefar sem eru ætlaðir fyrir sex manns hýsa oft þrettán eða fleiri. Margir tala um að líkaminn veikist, svefn sé truflaður og tíminn leysist upp í óaðgreinanlega daga.
Símtöl og heimsóknir fjölskyldna eru stöðvaðar fyrirvaralaust. Persónulegar eigur voru gerðar upptækar snemma í neyðarástandinu í fangelsunum.
Þessar aðstæður eru ekki aðeins líkamlegar. Þær eru sálrænar.
Margir fangar sögðu mér að á veggjum fangelsisins væri ljósmynd af rústum hverfis á Gaza, með arabískum texta „قدي دجلا قزغ“ sem þýðir „nýja Gaza“. Með þessu er verið að segja föngunum „það sem þið berjist fyrir er þegar orðið að rústum“. Fyrir nokkrum dögum sá ég frétt í ísraelsku sjónvarpsstöðinni Rás 13 þar sem sama mynd var sýnd með stolti 16. október 2025.
Hvað verður um manneskju sem missir þriðjung líkamsþyngdar sinnar, sem sér ekki sólarljós, sem hefur ekki heyrt frá fjölskyldu sinni í marga mánuði eða jafnvel ár? Hvað gerist þegar eina frásögnin sem er í boði er sú sem er hönnuð til að brjóta þig niður?
Ég sagði fanga, sem fékk ekki frelsi, sannleikann, „Opinberlega er fangaskiptasamningurinn í höfn. En ef þú ert að spyrja hvort við séum enn að ræða ykkar mál, hvort við höldum nöfnum ykkar á lofti og hvort okkur svíði að þið fáið ekki að njóta á frelsis – þá, já, erum við það.“
Hann kinkaði kolli. Hann skildi hvað það þýðir að hann gleymist ekki.
Á leiðinni til baka um Nagab í rökkrinu var mynd hans í huga mér, myndin af brosi hans — brothættu en lifandi. Í huganum hljómuðu fagnaðarlæti þeirra sem fengu frelsi og þögn þeirra sem enn voru á bak við rimlana.
Þeir sem eftir eru eru ekki tölur. Þeir eru fólk með fjölskyldur, sambönd, framtíð, land, minningar og merkingu. Og við megum ekki rugla saman sértækri lausn og réttlæti; því frelsi sem ekki fæst er enn frelsi sem er neitað um.
Stríðinu er ekki lokið. Að minnsta kosti ekki fyrir þá. Og baráttan fyrir réttlæti er barátta sem lýkur ekki með samkomulagi. Hún heldur áfram þar til frelsi verður að veruleika.
- Mat Nashed, „Who are the Palestinian Captives Israel Released?“ Al Jazeera, 13. október 2025, https://www.aljazeera.com/features/2025/10/13/explainer-who-are-the-palestinian-captives-israel-released
- Reuters. 2025. ,Who are the Palestinians Held in Israeli Jails?“ Reuters, 24. október 2025. https://www.reuters.com/world/middle-east/who-are-palestinians-held-israeli-jails-2025-10-24/; Sjá einnig, HaMoked — Center for the Defence of the Individual. 2025. „Prisoners Charts.“ Skoðað (24. október 2025]. https:/hamoked.org/prisoners-charts.php
- B’Tselem, Welcome to Hell: The Israeli Prison System as a Network of Torture Camps (ágúst 2024), https://www.btselem.org/sites/default/files/publications/202408_welcome_to_hell_summary_eng.pdf.
- Ashraf Bader, „Ben-Gvir’s Policies Directed against Prisoners and the Transformation That Occurred after October 7,“ stefnuskjal, Institute for Palestine Studies, 4. mars 2024.
Birtist í Frjáls Palestína.
