Hryðjuverk Hamas og Ísraelsstjórnar

Sjálfsmorðsárásir síðustu vikna í Jerúsalem og Ísrael, sem hernaðararmur Hamassamtakanna hefur gengist við og bitnuðu á óbreyttum borgurum, hafa sem von er kallað fram almenna fordæmingu. Þessar sprengingar hafa einnig vakið ugg og vantrú á möguleikum friðsamlegrar þróunar í samskiptum Ísraela og Palestínumanna.

Þar ráða ekki síst um viðbrögð Ísraelsstjórnar. Þau eru eins og oft áður í þá veru að refsa öllum palestínskum íbúum herteknu svæðanna fyrir glæpi hóps hryðjuverkamanna. Þau viðbrögð að láta Ísraelsher ráðast gegn almenningi með fjöldahandtökum, manndrápum, innilokun, sprengingum íbúðarhúsa eru líka hryðjuverk. Allt eru þetta hópsrefsingar sem teljast til stríðsglæpa. Slíkir glæpir eru þeim mun alvarlegri hryðjuverk að hér er það ríkisvald sem er að verki.

Það er umhugsunarvert að dagurinn sem Hamas valdi fyrir þessa síðustu sprengjuherferð var 25. febrúar, dagurinn sem herforinginn og læknirinn Baruch Goldstein hafði valið tveim árum áður til að ráðast með vélbyssu snemma morguns inn í mosku Abrahams í borginni Hebron. Goldstein myrti á augabragði tugi barna og fullorðinna sem áttu þar bænastund á helgum degi, og lét síðan sjálfur lífið.

Ekki lét Ísraelsstjórn sprengja upp íbúðarhús fjölskyldu hans né loka af landnemabyggðina þar sem hann hafði búið. Þvert á móti var stuðningsmönnum hans leyft að reisa minnismerki til heiðurs fjöldamorðingjanum.

Birtist í Frjáls Palestína.

  • Höfundur er læknir, formaður Félagsins Ísland Palestína (1991-2016) og heiðursborgari í Palestínu (frá 2015).

Scroll to Top