Í þessum hlaðvarpsþætti ræða Assal Rad og Marc Owen Jones um sannleikamorð (eða veruleikamorð?) Ísraels. Marc birti ritrýnda grein á dögunum þar sem hann bjó til nýtt hugtak, alethocide (aletheia þýðir sannleikur á grísku og cide þýðir dráp á latínu).
Hann rökstyður að til þess að fá heiminn til að samþykkja þjóðarmorð þurfi að skapa hliðarveruleika með sannleikamorði. Þá er átt við skipulagða og kerfisbundna herferð sem ekki bara breiðir yfir sannleikann um hryllingsverk heldur skapar falska sögu eða framvindu til að umbreyta félagslegum viðmiðum og almenningsáli og brjóta niður samstöðuhreyfingar gegn ofbeldinu. Í þessu skyni vinna saman hátt settir stjórnmálamenn, ríkisstofnanir, tæknifyrirtæki og fleiri.
Nokkur dæmi um þetta eru þegar ísraelskar stofnanir tóku markvissan þátt í að dreifa ósönnum sögum um dráp Hamas á börnum, með póstum á samfélagsmiðla, og hvernig ísraelsríki kaupir auglýsingar á google þannig að ef fólk leitaði að skýrslum mannréttindasamtaka um þjóðarmorðið (eins og Amnesty eða Human Rights Watch) þá komu fyrst upp keyptar síður sem sverta þessi samtök.
Hlaðvarpsröðin heitir Occupied Thoughts og greinin hans Marc er Jones, M. O. (2025). Evidencing alethocide: Israel’s war on truth in Gaza. Third World Quarterly, 1–18. https://doi.org/10.1080/01436597.2025.2462791
Assal Rad hefur á sínum X/Twitter reikningi birt leiðréttar fyrirsagnir úr miðlum eins og New York Times, örugglega á hverjum degi síðan í október 2023. Hún útskýrir mikilvægi fyrirsagna út frá fjölmiðlaneyslumynstri nútímans þar sem við lesum oft lítið nema fyrirsagnir. Hún ræðir einnig um það hvernig það kemur vissulega fyrir að góðar fréttaskýringar birtist í þessum miðlum, en að þær séu undantekningar og í heildarsamhenginu upplifir fólk þær einmitt sem undantekningar en ekki staðfestingar á mynstri.

Birtist fyrst á Facebook.