Í bókinni Íslandsstræti í Jerúsalem eftir Hjálmtý Heiðdal er sögð saga Palestínu og Ísraels. Reifaðar eru orsakir og afleiðingar þess að Ísraelsríki var stofnað 1948 og Palestínumenn rændir landi sínu. Sagt er frá hlutdeild Íslendinga í þessari átakasögu. Bókin er 224 bls og Nýhöfn gat út 2019.

Hvað getum við gert andspænis 73 ára óslitinni deilu í Mið-Austurlöndum? Jafnvel þótt deilan virðist óleysanleg í alþjóðlegu samhengi getum við ekki bara setið með hendur í skauti, það eru alltaf verkefni sem þarf að leysa og Ísland ber að sýna ábyrgð. Íslendingar stuðluðu að stofnun Ísraelsríkis 1947 fyrir tilstuðlan Sameinuðu þjóðanna og viðurkenndu sjálfstæði Palestínu árið 2011.
Íslendingar hafa aftur á móti ekki tekið ábyrgð sína nógu alvarlega. Það kom berlega í ljós vorið 2021 þegar verndarsvið Útlendingastofnunar vísaði hópi Palestínumanna á götuna eftir að hafa synjað beiðni þeirra um alþjóðlega vernd á Íslandi. Fjölskyldur þessarar hælisleitenda á Íslandi voru í sárum eftir linnulausar loftárásir Ísraelshers á Gazasvæðið í 11 daga þar sem 243 létust, þar af 66 börn og hundruð slösuðust. Kerfið sýndi enga miskunn, þar var enga hjálp að finna.
Íbúar á Gazasvæðinu og Palestínumenn í Mið-Austurlöndum búa hvarvetna við daglegan ótta við ofbeldi. Stöðu Palestínumanna í eigin landi var breytt í stöðu flóttafólks í „Landinu helga“ um miðja síðustu öld og dag frá degi síðan þá hefur umráðasvæði Ísraela stækkað þar til völdum var náð á öllu því svæði sem kallað var Palestína í byrjun 20. aldar. Hvað getum við gert?
Hvernig ætla Ísraelar og Palestínumenn að búa saman í sátt og samlyndi, þar sem friður og réttlæti eru æðstu gildin? Það er eitt af þeim verkefnum sem höfundur glímir við í bókinni. Það eru nokkrar leiðir og þær eru raktar í bókinni.
Svarið er á hendi Ísraela og alþjóðasamfélagsins því Palestínuarabar hafa ekki fengið neitt eftir átök þjóða á svæðinu, enga stöðu í 73 ár nema að vera flóttafólk í eigin landi og í nágrannalöndunum eins og Líbanon og Jórdaníu og í maí 2021 flúði fólk yfir til Egyptalands undan skelfilegum loftárásum.
Staðreyndin er sú að Palestínumönnum er meinað að vera sjálfstæð þjóð meðal þjóða. Í hvert sinn sem það brjótast út átök þá nýta Ísraelsmenn þau til að grafa undan stofnunum Palestínu, drepa fólk og leggja undir sig meira land og fleiri hús í eigin þágu. Þetta er augljóst. Kjarnorkuveldi með einn öflugasta her í heimi gegn flóttafólki.
Íslandsstræti í Jerúsalem er gata sem Ásgeir Ásgeirsson forseti Íslands opnaði 1966 og dregur bókin nafn sitt af henni. Hjálmtýr fer þó lengra aftur í tímann í bókinni og rekur sig frá Balfour-yfirlýsingunni 1917 og síðan áfram í gegnum blóðuga sögu átaka sem því miður enn sér ekki fyrir endann á. Hjálmtýr tekur það fram í formála að hann ætli sér ekki að vera hlutlaus. Ástæðan er sennilega sú að of margir hafa þjáðst og lengi fyrir tilstuðlan alþjóðastofnana sem hlusta ekki á örvæntingarfull hróp handan múranna. Höfundur tekur því oft sterkt til orða, sem er í góðu lagi, því hann var búinn að vara lesendur sína við slíku.
Bókin er ágætlega fram sett og rekur þráðinn til Síonista og skrifar m.a um áratugalangar „friðarviðræður“ sem standa yfir á sama tíma og Palestínumenn tapa æ meira af landi sínu „þessar aðgerðir eru eðli eða ær og kýr síonismans og því engin von til þess að þeir hætti ránskap sínum“ (28).
Höfundur rekur þessa ótrúlegu sögu landsnáms í Palestínu, hvaða rök og hvaða áróðri var beitt og hvernig Íslendingar rata inn í þessa sögu stórveldanna. Það má draga lærdóma af þeirri sögu, hvað skuli forðast í utanríkispólitík.

Heimildavinnan er góð og vitnað í mikilvæg ummæli og skrif. Auk þess er töluvert af myndum í bókinni sem veita upplýsingar og innsýn t.d. mynd af landnemum síonista í Palestínu árið 1920, þar stendur einnig „Þegar síonistar kynntu hugmyndir sínar um landnám gyðinga í Palestínu fyrir ráðamönnum í upphafi 20. aldar lögðu þeir áherslu á að það yrði mikil lyftistöng fyrir fólkið sem þar byggi fyrir.“(157). Þetta reyndist svo sannarlega ekki rétt. Heimamenn voru reknir burt. „Gyðingaríkið hefði aldrei verið stofnað án þess að hrekja burt 700,000 Palestínumenn.“ (Benny Morris, bls. 167).
Bókin Íslandsstræti er gagnrýnin umræðubók, henni er ætlað að hreyfa við lesendum sínum. Höfundur hefur greinilega unnið heimavinnuna vel og sett saman bók til að knýja lesendur til að taka afstöðu og leggja sitt af mörkum. Það eru næg verkefni framundan.
Hernám Ísraela heldur bara endalaust áfram og sú saga er mörkuð glæpum, morðum, ránum og nauðgunum og hvers konar ofbeldi. Yfirburðastaðan er yfirþyrmandi og skapar enn meiri hræðslu og óöryggi, því 700,000 landtökumenn hafa þegar flutt yfir á Vesturbakka Palestínumanna.
Á kvöldin kemur landtöku- og hústökufólk inn á búsvæði Palestínumanna, fer inn á heimili fólks, hendir út húsgögnum og flytur inn í húsin með sitt eigið dót. Flóttafólkið innan múrsins tapar híbýlum sínum. Það er réttindalaust – en þó ekki út frá almennum mannréttindum. Hvert getur það leitað? Hvað getum við gert?
Málstaður Palestínumanna hefur óneitanlega vaxið ásmegin á Íslandi, m.a. fyrir tilstuðlan Félagsins Ísland-Palestína. Einnig hefur alþjóðasamfélagið gagnrýnt yfirvöld í Ísrael alvarlega. Bókin Íslandsstræti í Jerúsalem er gott veganesti fyrir alla sem vilja skilja átakasögu Ísraela og Palestínumanna og hvernig Íslendingar eru viðriðnir þá sögu.
Birtist fyrst í Frjáls Palestína.