Villimennska Sharons og herja hans virðist ekki eiga sér nein takmörk. Ungir piltar og stúlkur, móðir með þrjú börn, yfirlæknir gjörgæslu og sjúkraflutningamenn að störfum, konur í barnsnauð, sært fólk á öllum aldri, lögreglumenn og almenningur, sérstaklega fólkið í flóttamannabúðum; allt eru þetta skotmörk Sharons. Þessi núverandi forsætisráðherra Ísraels er þeim verkum vanur að skipuleggja hryðjuverk og fjöldamorð á varnarlausu fólki í flóttamannabúðum. Málaferli eru í gangi í Belgíu vegna fjöldamorðanna í Sabra og Shatila í Líbanon 1982, en þess er freistað að draga Sharon, þáverandi hermálaráðherra, til ábyrgðar fyrir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu. Hershöfðinginn Sharon hefur skýra stefnu. Hún er stríðsrekstur. Það er á þeim vettvangi sem hann nýtur sín sem leiðtogi. Og aðferð hans er að stigmagna stríðið, fjölga drápunum dag frá degi.
Það er til lítils að binda vonir við vopnahléstillögur, hvort sem þær eru kenndar við Tenet, yfirmann CIA, eða bandaríska öldungadeildarþingmanninn Mitchell. Palestínumenn samþykktu þessar tillögur á sínum tíma, en Sharon hefur engan áhuga á slíku. Eins og hann orðar það er eina leiðin að berja á Palestínumönnum og berja á þeim aftur, þar til þeir gefast upp á allri andspyrnu gegn hernáminu. Krafa dagsins hlýtur að vera sú að hernámi Ísraela ljúki. Að Ísrael skili öllum herteknu svæðunum frá 1967, sem er í samræmi við alþjóðalög og samþykktir Sameinuðu þjóðanna. En Ísraelar undir stjórn Sharons munu ekki mæta þessum kröfum. En þá verður að krefja Bandaríkjastjórn ábyrgðar á að knýja fram lög og rétt gagnvart Ísrael.
Margt af efnilegustu ungmennum Palestínu er fallið í valinn fyrir hernámsliðinu. Fáeinir hafa fórnað lífi sínu í örvæntingarfullum hryðjuverkum, sem orsakast af hernáminu og eru því á ábyrgð Ísraelsstjórnar. En fyrir hvern sem fellur stíga fleiri fram og það er ekki uppgjafarandi sem einkennir Palestínumenn þótt vopnastyrkur þeirra minni á Davíð gegn Golíat.
Það sem úrslitum ræður í átökum sem þessum er siðferðisþrek og þrautseigja sem á rætur sínar í réttmætum málstað. Þar eru Palestínumenn sterkari aðilinn.

Birtist fyrst í Frjáls Palestína.