Palestínumenn eru einn stærsti hópur flóttamanna í heiminum. Þessi hópur fólks var rekinn úr landi sínu eftir blóðuga bardaga og þjóðernishreinsanir í kjölfar stofnunar Ísraelsríkis árið 1948 og í framhaldi þess hernám Ísrael á Vesturbakkanum og Jerúsalem árið 1967.
Eftir dvöl mína í flóttamannabúðum á Vesturbakkanum árin 2013 og 2014, verð ég að viðurkenna ég vissi lítið um hvernig ástandið væri í þeim fjölmörgu flóttamannabúðum Palestínumanna sem enn standa í Jórdaníu og Líbanon.
Þegar dvalið er í flóttamannabúðum innan landamæra Palestínu er búið undir hernámi og miklu atvinnuleysi en í raun er ástandið svipað og á öðrum stöðum á Vesturbakkanum – þrátt fyrir að sjálfsagt sé það töluvert verra vegna fátæktar og stöðnunar sem flóttamannabúðir skapa.
Í sumar lá því leið mín til Líbanon. Saga Líbanon og Palestínu hefur verið samtvinnuð síðustu áratugi og er þar margt áhugavert á að líta, heyra og sjá. Það er hins vegar ekki mitt hlutverk að segja frá því sem utanaðkomandi gestur hjá landi og þjóð. En eins og staðan er í dag er um 1,5 milljón flóttamanna í Sýrlandi. Þetta er að stórum hluta flóttafólk frá Sýrlandi en þar eru einnig margar Palestínskar flóttamannabúðir, þar sem þriðja kynslóð flóttamanna vex nú úr grasi. Þar af eru eflaust frægastar Shatila flóttmannabúðirnar í Beirut sem eru hvað þekktastar fyrir hrottaleg fjöldamorð árið 1982, undir lok borgarastríðs í Líbanon, þegar ísraelsher hafði ráðist inn í landið. Í búðunum eru nú á skrá í kringum 10.000 Palestínumenn ásamt töluverðu af sýrlensku flóttafólki.

Þegar ég ákvað að fara til Líbanon var mér ofarlega í huga að heimsækja palestínskar flóttamannabúðir. Var það aðallega til þess að sjá aðstæður fólksins, til þess að ræða við það og heyra sögur þess, en þó var ég smeyk um að fólki gæti þótt ég óviðeigandi, að koma líkt og ég vildi skoða eymd þess.
Eftir að hafa fyrir óskaplega tilviljun rekist á gamlan samstarfsfélaga á kaffihúsi í Beirut, sem ég hafði kynnst í Palestínu, ákvað ég að heimsækja hann í Shatila flóttmannabúðirnar og fá að kynnast samstarfsfélögum hans þar sem hann vann í félagsmiðstöð og kenndi ensku.
Að ganga inn í Shatila flóttamannabúðirnar er eins og að ganga inn í annan heim, heim sem er ómögulegt að bera saman við ríkmannlega næturklúbba og sólarstrendur sem má finna víða um Líbanon. Þrengslin milli húsanna í búðunum eru mikil og rafmagnslínur hanga þvers og kruss. Við göngum í gegnum þéttar, þröngar götur sem minna óneitanlega á Balata flóttamannabúðirnar á Vesturbakkanum, þar sem nýgiftar konur verða að fara úr brúðarkjólunum þegar gengið er milli húsanna svo þeir strjúkist ekki við veggina. Börn eru að leik á götunni, fólk á iði inn og út úr húsum og friðhelgi er lítil sem engin.

Vinur minn tjáir mér að Shatila flóttamannabúðirnar séu ólíkar öðrum flóttamannabúðum vegna þess að þær séu opnar, fólk geti farið inn og út að vild. Þar af leiðandi hafi fólk í Shatila örlítið meiri möguleika á að sleppa úr fátækragildrunni, en aftur á móti sé það meira á varðbergi gagnvart utanaðkomandi.
Frásögn mín og upplifun er að sjálfsögðu lituð af mínum eigin reynsluheimi sem Íslendingur. Það er ekki mitt að segja frá aðstæðum í flóttamannabúðum eða hvernig það er að alast upp sem annars, eða þriðja flokks borgari eftir að fjölskyldu þinni hefur verið hent út úr eigin landi. Hver sem er getur kynnt sér sögu Palestínumanna í Líbanon þar sem mannréttindi hafa verið virt af vettugi. Samt sem áður er mikilvægt að leyfa sögum fólks að heyrast og að Íslendingar muni eftir þessum flóttamönnum sem hafa verið skipreka þar í áratugi. Sér í lagi í ljósi þess að íslenska þingið viðurkenndi rétt þessa fólks til þess að snúa aftur til heimalands síns á sama tíma og það viðurkenndi tilvist Palestínuríkis.
Að mínu mati á Palestína margt sameiginlegt með flóttamannabúðum annarra landa að því leyti að heimurinn virðist helst vilja gleyma þeim aðstæðum sem þar ríkja. Af og til er peningum hent í átt að vandanum, helst með stóru skilti sem tilkynnir hver hinn „gjöfuli bjargvættur“ sé. Eftir það er fólkið gleymt, en það þýðir ekki að það hætti að vona. Það er enn þrá eftir heimalandinu.
Við heimsóttum félagsmiðstöðina Children and Youth Center þar sem ég fékk tækifæri til þess að heyra um starf félagsmiðstöðvarinnar og hvað ég geti gert. Líkt og mig hafði grunað hefur fólkið í Shatila, að sjálfsögðu, sama þorsta og Palestínumenn eftir því að segja sögur sínar. Eftir áralanga þöggun vill fólk segja frá lífinu í búðunum, það vill segja frá lífi foreldra sinna og skyldmenna sem voru rekin á brott frá Palestínu og hvernig það er að vera landlaus en með heimaland í hjartanu.
Þar sem það sem átti sér stað árið 1948 hefur verið að mestu leiti þaggað niður af zionistum. En það sem skiptir mestu máli er að margir Palestínumenn þrá einnig að fá að komast aftur til Palestínu. Fá að sleppa úr fátæktargildrunni og fá tækifæri til þess að byrja upp á nýtt.
Í umræðunni um Palestínu er mikilvægt að gleyma ekki þessu fólki og hafa þær ótalmörgu flóttamannabúðir í Jórdaníu, Líbanon og víðar inni í umræðunni. Einn daginn verður að leysa þetta víðtæka og alvarlega vandamál og viðurkenna tilvist flóttamanna sem einstaklinga á jafnt við aðra. Palestína er nefninlega víða.
Birtist í Frjáls Palestína.