Eftir Hjálmtý V. Heiðdal:
„Þó er til lítill hópur fólks á Íslandi sem er andsnúinn því að Palestínumenn njóti sömu mannréttinda og venjulegir Íslendingar telja sjálfsögð.“
Samkvæmt skoðanakönnunum er mikill meirihluti þeirra Íslendinga sem taka afstöðu til sjálfstæðis Palestínu hlynntur því að okkar þjóð hjálpi Palestínumönnum áleiðis í baráttunni til að stofna eigið ríki.
Þó er til lítill hópur fólks á Íslandi sem er andsnúinn því að Palestínumenn njóti sömu mannréttinda og venjulegir Íslendingar telja sjálfsögð.
Það hlýtur að vekja furðu margra að þennan hóp skorti mannúð til að samþykkja að hrakin þjóð í fjarlægu landi öðlist sjálfsagðan rétt til búsetu og eðlilegs lífs í sínu eigin landi.
Tveir úr þessum hópi hafa nýlega skrifað greinar í Morgunblaðið. Skríbentarnir heita Skúli Skúlason og Ólína Klara Jóhannsdóttir og eru í félaginu Ísland-Ísrael. Bæði ráðast þau gegn Palestínumönnum, fólki af annarri trú en þeirra eigin, og reyna að sannfæra lesendur sína um að hér fari hið versta fólk sem ætli að vinna okkur allt til miska sem það mögulega getur.
Það er athyglisvert að sjá hve þessi skrif ríma við aðferðir sem gyðingahatarar fyrri tíma notuðu. Gyðingum voru eignaðir allir lestir og illur tilgangur og því var réttlætanlegt að ráðast gegn þeim. Hápunktur ofsóknanna var helför nasista.
Líkt og Skúli og Ólína byggðu ofsækjendur gyðinga málflutning sinn á trúarofstæki og kynþáttahyggju. Norski fjöldamorðinginn Anders Breivik var á sömu slóðum í sínum málflutningi. Hann jós hatri sínu yfir múslima og eignaði þeim allt hið versta, eins og Skúli og Ólína. Sumir skrifa – aðrir skjóta.
Höfundur er kvikmyndagerðarmaður.
Birtist fyrst í Morgunblaðinu.