Stjórn Félagsins Ísland-Palestína sendir frá sér eftirfarandi ályktun 21. maí 2001:
Félagið Ísland-Palestína fordæmir harðlega grimmdarlegar árásir Ísraelshers á varnarlausa íbúa herteknu svæðanna sem nú sæta daglegum sprengjuárásum frá árásarþyrlum, skriðdrekum og sprengjuflugvélum af fullkomnustu gerð. Nú hafa á sjötta hundrað manns fallið í árásum Ísraelshers og landtökumanna, þar af um 200 börn undir 18 ára aldri og nærri eitthundrað stúdentar. Tala særðra og limlestra nálgast 25.000 og eru 40% þeirra börn. Fjöldi fatlaðra af völdum þessara árasa er kominn upp í 2.300 manns sem eru nærri jafnmargir og urðu örkumla í fyrri Intifada-uppreisn Palestínumanna árin 1987–1992. Fjórir palestínskir læknar hafa verið drepnir. Hernám Ísraela á palestínsku landi og sívaxandi landtaka þeirra fela í sér margföld brot á alþjóðalögum og samþykktum Sameinuðu þjóðanna.

Samkvæmt Genfarsáttmálanum er hernámsveldi ábyrgt fyrir öryggi íbúanna. Í þessu ljósi eru loftárásir Ísraelshers og morð dauðasveita þeirra, sem leita uppi ákveðna einstaklinga og taka þá af lífi án dóms og laga, enn glæpsamlegri en ella. Hér er um að ræða ríki sem reynir að flagga lýðræði en ástundar í þess stað hryðjuverk fyrir opnum tjöldum.
Félagið bendir á að hernámið er undirrót átakanna og full ábyrgð hvílir á Ísraelsstjórn og hernámsliðinu gagnvart þeim ódæðisverkum sem unnin eru jafnt af hendi Ísraelshers og landtökuliði sem og palestínskum aðilum. Það skal jafnfram áréttað að þjóð sem býr við hernám hefur samkvæmt stofnsáttmála S.Þ. ótvíræðan rétt til að veita andspyrnu til að losa sig undan hernáminu.
Félagið Ísland-Palestína tekur undir þær kröfur sem hljóma um heim allan að Palestínumenn á herteknu svæðunum fái alþjóðlega vernd. Palestínumenn eru herlaus þjóð, að því leyti svipuð Íslendingum, og hún á enga möguleika á að verjast Ísraelsher, einum fullkomnasta og öflugasta her í heimi.
Félagið minnir á samhljóða ályktun Alþingis frá 18. maí 1989 þar sem lögð er áhersla á að viðurkenna sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar, tilverurétt Ísraelsríkis og rétt palestínskra flóttamanna að fá að snúa aftur til fyrri heimkynna sinna í samræmi við margítrekaðar ályktanir S.Þ. Félagið skorar á íslensk stjórnvöld að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael á meðan þetta ríki telur sig hafið yfir alþjóðalög og samþykktir S.Þ.
Birtist fyrst í Frjáls Palestína.