Gervifætur til Gaza og stuðningur til sjálfshjálpar

Í maí 2009 hélt samstarfshópur Félagsins Ísland-Palestína og OKP, fyrirtækis Össurar Kristinssonar, til Gaza með efni í um 40 gervifætur. OKP framleiddi gervilimi af hæsta gæðaflokki sem byggðu á uppgötvunum Össurar sem var þó hægt að framleiða hvar sem var, á örskammri stund. Össur og félagar fóru víða um heim þar sem hernaðarátök eða náttúruhamfarir höfðu valdið skaða og gervilima var þörf. Þessi starfsemi Össurar var rekin án hagnaðarsjónarmiða. Þótt Össur hafi dregið sitt fyrirtæki út úr verkefninu eftir að það var komið á legg, hefur hann stutt af örlæti við bakið á gervifótaverkefninu og gaf fyrir nokkrum árum efni í 100 fætur til viðbótar fyrri framlögum.

Össur Kristinsson að störfum á Gaza 2009.

Í Gazaborg var fyrir hendi samstarfsaðili, ALPC (gervilima- og polio stöðin) þar sem smíði gervilima byggði á gömlum grunni. Frá byrjun varð gott samstarf við Hazem Shawa forstöðumann og fjölmennt starfsfólk þar á meðal gervilima­smiði og sjúkraþjálfara. Við fráfall Hazems tók við forstöðu Muhamed Dweima sem þegar hefur komið hingað til lands.

Hindranir við flutning hjálpartækja

Haustið 2010 stóð til að annar hópur færi til Gaza, en hann komst aldrei nema að landamærunum. Í fyrstu var efnið í gervifætur tekið af hópnum á Ben Gurion flugvellinum og tókst ekki að fá það afhent af tollyfirvöldum fyrr en viku síðar og þá með greiðslu tolla og sekta. Þegar hópurinn var síðan kominn að Eretz, landamærastöðinni inn á Gaza var hópurinn hindraður í að fara inn með hjálpartækin á þeim grunni að leyfin væru útrunnin. Hópurinn hélt hver til síns heima, nema undirritaður sem beið átekta og fékk svo leyfi inn á Gaza eftir örfáa daga og kom efninu inn á svæðið. Óskar Þór Jónsson, stoðtækjasmiður og náinn samstarfsmaður Össurar til margra ára, kom síðan fljótlega sína aðra ferð til Gaza til að fylgja málum eftir.

Viðbótarefni í gervifætur hefur síðan komist inn á Gaza flest árin og er ekki ósennilegt að efni í að minnsta kosti 200 fætur hafi komist á leiðarenda. Í flestum tilvikum hefur undirritaður farið með efnið ýmist í gegnum Ísrael eða Egyptaland. Í nokkrum tilvikum hafa sjálfboðaliðar félagsins flutt efni til Jerúsalem. Með aðstoð Muhammed Odeh í Austur-Jerúsalem og milligöngu Birgis Þórarinssonar þáverandi starfsmanns hjá UNRWA höfum við fengið aðstoð við flutninginn inn á Gaza þegar önnur sund voru lokuð.

Maríusjóður til stuðnings konum

Þann 10. október 2010 var stofnaður Maríusjóður hjá AISHA (sú sem lifir af), félagi til stuðnings konum og börnum á Gaza sem sætt hafa hvers kyns ofbeldi. Þá var fyrsta framlagið frá FÍP afhent til þessa starfs sem í upphafi var hluti af styrkingarprógrammi Geðheilsusamtakanna á Gaza fyrir kon­ur, WEP (Women empowerment pro­gr­am).

Það er skemmtileg tilviljun að Maríu­sjóðurinn var stofnaður 10. október sem er bæði alþjóðlegi geðheil­brigðisdagurinn og afmælisdagur Maríu M. Magnúsdóttur, helsta velgjörðarmanns hjálparstarfs Félagsins Ísland-Palestína. María hafði átt langa ævi sem hjúkrunarfræðingur í Lundúnum og upplifði loftárásirnar þar í seinni heimsstyrjöldinni en varði elliárunum á Blönduósi þaðan sem hún styrkti starfið um milljónir.

Maríusjóður hefur styrkt AISHA í uppbyggingu á aðstöðu félagsins, en fyrst og fremst til að styrkja konur til sjálfshjálpar. Þá er um að ræða konur sem hafa af ýmsum ástæðum orðið að taka að sér hlutverk fyrirvinnu ofan á annað. Konurnar hafa fengið fjárstyrk, oft ekki nema 1-200 þúsund krónur sem þó gerir þeim þó kleift að koma smáfyrirtæki af stað og sjá þannig fyrir sér og fjölskyldu sinni.

Þess má geta að FÍP varð fyrsti stuðningsaðili AISHA, en í kjölfarið komu miklu öflugri og stórtækari stuðningsaðilar, þar á meðal Kvinna till kvinna Foundation, sænsk hjálparsamtök sem Magnea Marinósdóttir var í forstöðu fyrir í nokkur ár. Magnea gjörþekkir til starfs AISHA.

Neyðarsöfnun FÍP

Félagið Ísland-Palestína hefur um langt árabil haft í gangi Neyðarsöfnun fyrir Palestínu þar sem hver einasta króna, fer óskipt í hjálparverkefni. Ferðastyrkir til sjálfboðaliða teljast þar með. Enginn kostnaður dregst frá söfnuninni heldur hefur félagið lagt slíkt til úr eigin félagssjóði, sem verður til af árgjöldum félaga.

Fyrstu framlögin frá félaginu voru afhent í ferð okkar séra Rögnvalds Finnbogasonar, fyrsta formanns félagsins í maí 1990, en það var ekki fyrr en haustið 2000 og eftir það, að meira varð úr söfnun og framlögum.

Allt frá árinu 2000 hafa fjármunir verið sendir til ýmissa félagasamtaka. Þar má nefna Heilsustarfsnefndirnar (UPHWC) og barna- og unglingastarf þeirra í Rafah á Gaza (Rachel Corrie Center), Geðheilsusamtökin á Gaza og barnastarf þeirra (GCMHP) lengst af undir forystu Eyad el Sarraj, geðlæknis og mannréttindafrömuðar.

Það er of langt mál upp að telja alla, en fyrsta framlagið í október 2000 var til Palestínsku læknishjálparnefndanna (PMRS) undir forystu dr. Mustafa Barghouthi. Þær eru starfandi bæði á Vesturbakkanum og Gaza. Eftir eina af ferðum Borgþórs Kjærnested með hópa til Palestínu, í það skipti hóp þingmanna, var gerð samþykkt á Alþingi sem leiddi til þess að ríkisstjórnin tók að styðja PMRS til rekstur sjúkrabifreiðar sem þjónaði sem færanleg heilsugæsla til þeirra sem ekki gátu komist um vegna farartálma hernámsins í Salfit héraði.

Á seinni árum hefur lang mest af söfnunarfé runnið til hjálparstarfs á Gaza þar sem neyðin er mest. Á hinn bóginn hafa sjálfboðaliðarnir lagt leiða sína til Vesturbakkans. Það hófst með ferð okkar Viðars Þorsteinssonar þegar beiðni barst í apríl 2002 um að senda fólk á vettvang til að bera vitni um stórárásir Ísraelshers á borgir Vesturbakkans. Flestir sjálfboðaliðar hafa tekið þátt í ISM, alþjóðlegri samstöðu­hreyfingu og síðustu ár hafa ferðir kvenna verið mest áberandi. Fjórtán íslenskar konur hafa tekið þátt í Alþjóðlegri friðarþjónustu kvenna (IWPS) og hefur starfið einskorðast við aðstoð við bændur nærri landránsbyggðum á tíma ólífuuppskerunnar.

Birtist fyrst í Frjáls Palestína.

Scroll to Top