Gat engan órað fyrir þjóðarmorði?

Palestínufólk og palestínskt fræðafólk og álitsgjafar hafa alltaf verið sniðgengin af vestrænum meginstraumsmiðlum. Þar ríkja raddir vestrænna og ísraelskra stofnana. Í þessum miðlum, eins og ríkismiðlum Evrópuríkja á borð við RÚV og BBC, og bandarískum miðlum eins og CNN og New York Times, svo ekki sé talað um aðra bandaríska öfgahægrimiðla, er nánast aldrei talað við palestínskt fræðafólk né heldur við sérfræðinga um Palestínu annars staðar að. Þannig er aldrei talað við ísraelsku Gyðingana Ilan Pappé eða Avi Shlaim í Bretlandi þó að þeir búi þar og séu háskólaprófessorar þar, sérfræðingar í landráni Ísraels í Palestínu, með langan lista af bókum, vísindagreinum og verðlaunum í sínu farteski.

Þess vegna getur vel skapast sú tilfinning að engan hafi getað órað fyrir um viðbrögð Ísraels við útbrotstilraun Hamas og annarra andspyrnuhreyfinga í október 2023. Að sjálfsögðu sá enginn fyrir alla atburði tvö ár fram í tímann. Ekki frekar en hægt var að sjá fyrir í október 2023 að Víkingur yrði Íslandsmeistari í fótbolta 2025. En allir sem vita eitthvað vissu þá þegar að yfirgnæfandi líkur væru til þess að Ísrael myndi nýta þennan atburð til að vinna Palestínufólki eins mikið tjón og þeir mögulega gætu, helst að hreinsa Gazasvæðið algerlega með því að drepa sem flesta, eyðileggja allar lífsbjargir og hrekja þannig alla sem eftir lifa á brott. Við vissum þetta mörg þó að við hefðum ekki fyrir fram vitneskju um það hvernig Joe Biden vann í einu og öllu að þessu markmiði með Ísrael. Við héldum örugglega einhver að á einhverjum punkti myndu Bandaríkin fá nóg. Ekki vegna samvisku eða gilda heldur vegna ímyndar og áhrifa á „mjúka valdið“ sem þeir hafa í krafti þeirrar ímyndar.

Við vissum sem sagt að fjöldamorðin og þjóðernishreinsunin sem hófst um leið væri ekkert annað en röklegt framhald á landtökustefnu Ísraels frá upphafi, í aðdraganda og eftir stofnun ríkisins. (Ég setti þessa setningu hér á undan á Facebook, í nútíð, 7. nóvember 2023.) Persónulega þá átti ég samræðu við Gunnu í eldhúsinu að kvöldi 7. október það ár um að nú myndi Ísrael nýta tækifærið og þeir myndu drepa minnst hundrað þúsund og ganga eins langt og þeir mögulega gætu.

En ég var ekki einn, og það vantar í sjálfu sér ekkert upp á að efni hafi verið birt um þetta, en það drukknar í meginstraumnum og gleymist. Raz Segal var svo sem ekki fyrstur til, margir Palestínumenn sögðu þetta fyrir 13. október 2023, en sumir tóku eftir Raz, þar sem hann er Gyðingur og sérfræðingur í þjóðarmorðum. Grein hans heitir A Textbook Case of Genocide. Auk Raz Segal má líka nefna að meira en 800 fræðimenn (aðallega á sviði þjóðarmorða, helfarar og alþjóðalaga) skrifuðu undir yfirlýsingu 15. október 2023 þar sem þeir vöruðu við þjóðarmorði, Public Statement: Scholars Warn of Potential Genocide in Gaza. Suður-Afríka lagði fram kæru sína 29. desember 2023, með ítarlegum og yfirgnæfandi sönnunargögnum. En þetta náði ekki til stjórnmálafræðiprófessora af vestrænum uppruna.

Ég fór og leitaði að fleiri heimildum sem hafa fallið í gleymskunnar dá, til að athuga hvort einhvern hefði órað fyrir um meginatriðið: þjóðarmorðið.

Refaat Alareer, prófessor í enskum bókmenntum við Íslamska háskólann á Gaza, kom fram í fjöldamörgum þáttum í ýmsum miðlum (þó ekki á meginstraumnum) upp úr 7. október. Ísrael myrti hann svo í desember 2023. Hann var drepinn af yfirlögðu ráði og honum hafði verið tilkynnt það fyrir fram af ísraelska hernum. Hér er tvít hans frá 9. október:

Hann var svo til viðtals 10. október á Democracy Now! og sagði:

What is happening in Gaza is complete and utter extermination of the non-Jewish population in occupied Palestine. As you mentioned, Israel ordered a medieval hermetic siege from air and sea. Israel has also just bombed the only way out through Egypt, the Rafah crossing. The only way out is for — what’s happening, what we are foreseeing is slow starvation, slow genocide. Maybe Israel is going to push us all into the sea.

Some are calling for striking Gaza with a nuclear bomb. Can you imagine that? And many other Israeli officials are using Nazi discourse and Nazi language, talking about Palestinians as savages and animals that need to be exterminated and that Gaza needs to be turned into a parking lot. This is what we are dealing with. We are dealing with a systematic, structural, colonial attempt to annihilate and exterminate the Palestinians, with the aid and support of the West and American tax money.

Hann lýsir þessu af þekkingu, en það er hefð fyrir því í okkar vestræna menntaheimi að taka ekki mark á Palestínumönnum, sem eru þeir sem hafa mestu þekkinguna á síonisma. Meira má lesa hér af viðtalinu sem var tekið 10. október, Refaat Alareer in Gaza: Israel’s “Barbaric” Bombardment Is Part of Ethnic Cleansing Campaign

Fleiri palestínskir fræðimenn vöruðu við því sem kom á Al-Jazeera. Við vitum jú að málfrelsi gengur út á að vestrænt fólk innan hæfilega viðtekins ramma skoðana fái að tjá sig í okkar miðlum. Þess vegna komu þessar raddir ekki fram nema á Al-Jazeera eða á „óhefðbundnum miðlum“ (t.d. Democracy Now). Hér eru nokkrar viðvaranir:

Hópur sérfræðinga um þjóðarmorð ásamt meira en hundrað samtökum skoruðu einnig á Alþjóða sakamáladómstólinn að gefa út handtökuskipanir gegn foringjum Ísraels 19. október 2023: Genocide Scholars and 100 Palestinian and International Civil Society Organisations Call on Prosecutor Khan to Issue Arrest Warrants, Investigate Israeli Crimes and Intervene to Deter Incitement to Commit Genocide in Gaza

Einnig má nefna að sérfræðingar vöruðu við og töldu allra síðasta frest til að koma í veg fyrir þjóðarmorð vera að renna út 2. nóvember 2023, Gaza is ‘running out of time’ UN experts warn, demanding a ceasefire to prevent genocide

Hundruðum akademískra starfsmanna Háskóla Íslands fannst þetta líka ljóst og skrifuðu undir yfirlýsingu sem var birt 13. nóvember 2023.

Að lokum nefni ég samtök lögfræðinga fyrir Palestínu sem héldu netfund 19. október 2023 undir yfirskriftinni Gaza on the Brink: Israeli Genocidal Intent, þar sem palestínsk-bandaríska fræðikonan Noura Erakat opnar fundinn með því að segja:

Over the last few days, we have witnessed Israel undertaking the crime of genocide against the Palestinian people in the besieged Gaza strip. Senior Israeli officials have made statements with genocidal intent and followed them up with actions that deliberately inflict on the Palestinian people conditions of life calculated to bring about their physical destruction, amounting to the crime of genocide as defined in international law. This is not an isolated situation but is an extension of systematic grave injustices the Palestinian people have been subjected to for over a century.

Svo að það má segja að það sé hæpið að „engan hafi getað órað fyrir“ um framhaldið þó að enginn hafi séð það nákvæmlega fyrir sér í smáatriðum, ekki frekar en nokkur sjái nokkurn tíma nokkuð fyrir í smáatriðum. Höfðu Palestínumenn kannski of rétt fyrir sér of snemma? Ef ramminn þinn er mótaður af vestrænni yfirburðarhyggju og þekkingarleysi á síonisma þá bara trúir þú ekki raunveruleikanum. Ef þú gerir þér ekki fulla grein fyrir landránsnýlendueðli Ísraels og „útrýmingartilhneigingu“ landránsnýlenda almennt (sjá til dæmis Wolfe, P. (2006). Settler colonialism and the elimination of the native. Journal of Genocide Research, 8(4), 387–409.) þá áttu erfitt með að trúa því sem er/var að gerast og hefur í raun verið í gangi á mismunanda hraða og með mismunandi ákafa í um það bil öld.

Því miður segir þekkingin okkar einnig að Ísrael muni ekki gefa neitt eftir eftir hina nýju samninga – þeir hafa ekki skyndilega skipt um skoðun. Þeir vilja enn þá alla Palestínu og meira til, þeir vilja hreinsa Palestínu af aröbum og þeir nýta hvert tækifæri til að vinna málstað Palestínu eins mikið tjón og mögulegt er. Til þess beita þeir öllum brögðum: lygaáróðri, samningssvikum, aftökum, fjöldamorðum, eyðileggingu ræktarlands, húsnæðis og svelti, svo örfá dæmi séu tekin. Mig órar hér með fyrir því að stundarfriðurinn sé mestan part brella og blekking. Morðin munu halda áfram, ef til vill aftur af fullum þunga þegar stríðsföngum hefur verið skilað til Ísraels.

Birtist sem krækja í skjal á Facebook síðu höfundar.

  • Höfundur er lektor og áður aðjunkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Scroll to Top