Fyrir tveimur árum

Ég heiti Najlaa Attaallah. Ég sit við skrifborðið mitt í Reykjavík og skrifa þessi orð: Orð sem endurspegla ferð mína frá landinu sem ég fæddist og ólst upp í – til þessarar stundar, þar sem ég sit og skrifa til ykkar.

Ég kem frá öðrum heimi en þeim þar sem ég bý núna; á Íslandi. Fyrstu þrjá áratugi lífs míns var heimur minn borgin Gaza í heimalandi mínu Palestínu. Það er land sem er talið vera stærsta fangelsi nútímans; staður þar sem fólk vaknar og sofnar með sprengjuhljóð Ísraela í eyrunum; staður þar sem ferðafrelsi Palestínumanna er verulega skert af ísraelskum landnemum. Palestína er allt annar heimur en Ísland. Ég hef upplifað að búa í þessum tveimur mismunandi heimum á sama tímabili í sögunni. Mikilvægur hluti af aðlögunarsögu minni er reynsla mín af því að sækja um hæli á Íslandi.

Ég vona að saga mín geti hjálpað þeim sem nú eru á leiðinni til að leita hælis á Íslandi.

Najlaa ásamt eiginmanni sínum Ragheb Beasaio
og börnunum Yousef og Allen.

Ég kom til Íslands á köldum degi í janúar 2019. Til þess að komast hingað þurfti ég að færa mikla fórn. Ég þurfti að yfirgefa börnin mín tvö og manninn minn tímabundið – eitthvað sem krafðist mikils hugrekkis en vakti líka mikla sorg í hjarta mínu. Verkefni mitt var nám innan UN-GEST áætlunarinnar (Jafnréttisrannsóknir og þjálfunaráætlun) við Háskóla Íslands. Ég kom til Íslands án þess að ætla að setjast hér að. Tilgangur minn var að öðlast fræðilega reynslu í kynjafræði svo ég gæti rutt brautina til að skapa betri tækifæri fyrir konur í Palestínu. Ég kom til Íslands sem kona sem hafði þröngt sjónarhorn á tilgang lífsins. Maður má ekki gleyma því að ég var að koma frá lokuðu landi; fangelsi.

En eftir að ég hóf þátttöku í UN-GEST áætluninni öðlaðist ég nýja sýn! Ég var daglega innblásin af fólkinu sem tók þátt í áætluninni í gegnum opnar umræður og samtal, þar sem nemendur frá núverandi og fyrrverandi átakasvæðum og alþjóðlegir fyrirlesarar sköpuðu nýtt litróf um hvernig hlutirnir ættu að vera.

Eftir fimm mánaða nám, búsetu og iðkun nýrra lífshátta á Íslandi – áttaði ég mig til fulls á þeim möguleikum sem bjóðast við búsetu á friðsælum stað – á Íslandi. Að flytja til Íslands var mjög framandi upplifun. Í fyrsta skipti á ævinni upplifði ég frið og frelsi. Ég áttaði mig á því að friður og frelsi er eitthvað sem maður ætti aldrei að snúa baki við. Mér fannst ég vera syndug ef ég léti börnin mín búa áfram í Palestínu. Hvers konar móðir væri ég ef ég léti börn mín búa áfram í óöruggu landi ef það væri möguleiki á friði á öðrum stað? Ég var örugg á Íslandi á meðan börnin mín þurftu að rýma húsið okkar á Gaza reglulega þegar ofbeldið stigmagnaðist. Ég vildi ekki að börnin mín upplifðu stríð sem enginn veit hvenær lýkur. Ég vissi að ég þurfti að koma börnum mínum í öryggið á Íslandi – en fyrst þurfti ég að búa til heimili og skjól fyrir fjölskylduna mína áður en þau kæmu til Íslands.

Biðin eftir fjölskyldu minni var erfiðasta tímabilið. Ég gekk í gegnum krítískt tímabil þar sem ekkert var ljóst og enginn í kerfinu gat gefið mér endanlegt svar um hvenær ég gæti séð börnin mín.

Eitt sinn var ég svo niðurbrotin að ég var næstum því búin að ákveða að fara aftur til Palestínu. Þá voru liðnir ellefu mánuðir síðan ég sá börnin mín. Ferlið við að fá stöðu mína á Íslandi staðfesta hafði gengið mjög vel, en það sama gilti ekki um fjölskyldu mína. Ástandið á Gaza gerði það enn verra. Þegar fjölskyldan mín fékk loksins að fara úr landi þurfti hún að yfirstíga margar hindranir á ferð sinni frá Gaza til Íslands. Ég hefði óskað að þeim hefði boðist opinber aðstoð á þessum erfiða tíma. Hins vegar fengu ég og fjölskylda mín líka frábæran stuðning sem gerði fjölskyldu minni kleift að komast frá Gaza og koma til mín á Íslandi, hálfu ári eftir að ég fékk dvalarleyfi. Þetta var kraftaverk í mínum huga. Ég var ekki lengur ein. Ég uppgötvaði fegurð Íslands og hin mörgu tækifæri, með fjölskylduna mér við hlið.

Talandi af reynslu þá veit ég að fjölskyldusameining fyrir flóttafólk á Íslandi þyrfti að fá meiri athygli ríkisvaldsins, sérstaklega þegar um ung börn er að ræða. Aðstoð og leiðsögn ætti að veita þeim sem eru í neyð, sérstaklega þeim sem eru mjög viðkvæmir í þessu ferli, til dæmis fólk sem talar litla sem enga ensku. Þar að auki er mikil þörf fyrir foreldranámskeið fyrir þennan hóp fólks á Íslandi. Jafnframt því að vekja athygli á réttindum barna og kvenna á Íslandi, til að fræða nýjar fjölskyldur um lög og hefðir í nýju landi sínu, Íslandi. Ég fékk aðstoðarmann í gegnum vini mína, en ég hefði átt að geta fengið slíka aðstoð frá hinu opinbera. Ég er heppin að eiga vini sem standa með mér og veita mér leiðsögn. Hins vegar eru ekki allar konur og karlar af erlendum uppruna á Íslandi jafn heppin og ég í þeim efnum. Konur hafa jafnan rétt og karlar á Íslandi, sem gerir mér loksins kleift að vera frjáls kona. Þennan sannleik þekkja ekki allar konur af erlendum uppruna á Íslandi. Því þarf að breyta.

Sá tími sem við höfum búið á Íslandi hefur sýnt mér hve mörgum árum ég og fjölskylda mín glötuðum í Palestínu, þegar líf okkar snerist um að berjast til að halda lífi. Ég hef unnið dag og nótt á Íslandi til að tryggja að við nýtum sem best tækifærin sem bjóðast hér á Íslandi og að við þurfum aldrei að snúa aftur á átakasvæði. Hvað sem því líður, hjarta mitt er alltaf á Gaza. Til að sýna heimaríki mínu stuðning, stofnaði ég óhagnaðardrifið fyrirtæki sem heitir Gaza Company og hefur það að markmiði að styrkja flóttakonur efnahagslega með því að veita þeim vinnu við saumaskap. Fyrirtækið stefnir einnig að því að viðhalda og heiðra palestínska og íslenska menningu með því að útvega vörur sem byggja á ríkri sögu og hefðum þessara tveggja þjóða.

Búseta á Íslandi hefur gjörbreytt lífi mínu. Ég vinn núna sem arkitekt sem var ekki mögulegt í Palestínu. Ég rek félagslegt fyrirtæki sem hefur það að markmiði að efla konur í heimalandi mínu og heiðra hefðir okkar. Mikilvægast er að börnin mín tvö eru örugg. Þegar ég skrifa þessi orð eru þau á leikskólanum nokkrum húsaröðum í burtu: í leik og námi með öðrum börnum – ég hef ekki áhyggjur af því hvenær næsta árás Ísraelsmanna mun eiga sér stað. Svona er líf okkar í dag – í friði.

Handrit: Najlaa Attaallah
Ritstjórn: Dalrún J. Eygerðardóttir
Þýðing: Hjálmtýr Heiðdal

Birtist fyrst í Frjáls Palestína.

Scroll to Top