Jólahugleiðing eftir séra Þorbjörn Hlyn Árnason prófast, Borg á Mýrum
Í guðspjalli 3. sunnudags í jólaföstu er sagt frá orðsendingu sem Jesú berst frá Jóhannesi skírara. Jóhannes er hrópandinn í eyðimörkinni, sá er boðaði komu Messíasar, eða Krists. Um hann sagði Jóhannes: „Sá kemur eftir mig, sem mér er máttugri, og er ég ekki verður þess að krjúpa niður og leysa skóþveng hans. Ég hef skírt yður með vatni, en hann mun skíra yður með heilögum anda.“
Nú er Jóhannes skírari í fangelsi og bíður dauða síns og hann spyr hvort Jesús sé sá sem koma skal, eða hvort þeim beri að vænta annars lausnara. Jesús svarar þeim, og segir að þeir skuli kunngjöra Jóhannesi það sem þeir sjá: „Blindir fá sjón, haltir ganga, líkþráir læknast, meira að segja hinir dauðu rísa upp. Fátækum er boðað fagnaðarerindið.“
Þurfa þeir fleiri vitna við? Þeir sjá að hann er kominn, hinn smurði Kristur, sá sem ritningarnar og spámennirnir hafa sagt að muni koma, sendur af Guði, til að verða lausnari heimsins.
Þessa sendingu íhugum við á aðventu og við fögnum á jólum, að mannkyn sem gengur í myrkri sér loksins ljós.
Á aðventu erum við full eftirvæntingar eftir hátíð Ijóss og friðar. Hin mikla hátíð nálgast, kemur til þjóðar sem býr í myrkrum, endurnýjar vonir, breytir, gefur gleði og fögnuð. Því getum við horft vonglöð fram á veg og minnst fæðingar Guðssonar með auðmýkt og þökk.
Vörumst að láta þessa miklu hátíð hverfa inní eintómt skrum og innantóma umgjörð. Gerum augu okkar sjáandi og látum eyru okkar nema rödd Guðs. Notum dagana framundan til íhugunar og sjálfsskoðunar. Þökkum allar velgjörðir Guðs, þökkum að hann dvelur ekki við misgjörðir okkar, að miskunn hans er rík. Þannig fáum við staðist, þannig fáum við lifað frá einum degi til annars. Eigum hvert annað, fáum að vera eitt í þjónustunni við Drottin.
Hann sækir okkur heim. Hann leitar að huga okkar og hjarta, því þar vill hann búa og auðga okkur, fylla okkur sannri mennsku með anda sínum og orði. Því blessaður er hann sem er Ijós heimsins. Þá getum við sagt, óttalaust og án áhyggju: Drottinn miskunna þú okkur.
Eftirvæntingin er víða og hún á sér margar myndir. Margir eru þeir sem bíða eftir lausn sinni og frelsun. Þeir sem eru sjúkir vona á bata. Þeir sem eru vanmegnugir biðja að Guð gefi þeim styrk og þrek. Þeir sem kvíða og eru áhyggjum hlaðnir vona að Guð létti þeim byrðarnar svo þeir megi horfa vonglaðir fram á nýjan dag.
Allur sá ótölulegi fjöldi Guðs barna, vítt um heimsbyggðina, sem býr við bág kjör, vonar líka. Allir þeir sem eru hungraðir, klæðalitlir, án skjóls – án nokkurrar framtíðar, undirokaðir, kúgaðir; fátækt fólk sem verður snauðara til að hinum ríku skapist enn meiri auður.
Í fimmtíu ár hefur þessi þjóð liðið og þjáðst, lifað lífi sínu landlaus, lengst af án málsvara, ein og yfirgefin. Þjóð sem er sundurtætt og svívirt. Þjóð sem hefur aldrei fengið skýra viðurkenningu heimsins á því að fá að lifa í eigin landi.
Í fyrirbænum okkar nú á aðventu skulum við minnast Palestínumanna. Þjóð Palestínu býr og bíður í eftirvæntingu eftir því að njóta þeirra mannréttinda sem sáttmáli Sameinuðu þjóðanna kveður á um. Í fimmtíu ár hefur þessi þjóð liðið og þjást, lifað lífi sínu landlaus, lengst af án málsvara, ein og yfirgefin. Þjóð sem er sundurtætt og svívirt. Þjóð sem hefur aldrei fengið skýra viðurkenningu heimsins á því að fá að lifa í eigin landi. Barátta Palestínumanna fyrir rétti sínum hefur lengst af verið hundsuð, fótum troðin og lítilsvirt, vegna þess að Vesturlönd og Bandaríkjamenn þurftu að eignast frið við sjálfa sig fyrir fálæti sitt um þjóðarmorð á gyðingum í síðari heimstyrjöld. Engir kirkjunnar menn geta nokkru sinni hugsað um þann voðalega tíma án þess að gráta og iðrast.
En engu réttlæti er fullnægt með því að setja eina þjóð niður í heimili annarrar. Palestínumenn hafa goldið þess að stórveldi heimsbyggðarinnar vildu einfalda lausn á erfiðu máli. Einhvern tíma hefðu Íslendingar getað sýnt samstöðu með þjóð sem er rænd fullveldi og gerð annars flokks í eigin landi.
En eftir seinna stríð þegar við urðum rík og feit og fullnægð þá misstum við minnið. Nú erum við þannig, að opinberlega höfum við engin sjónarmið önnur á umheiminn en þau, að útlendingar séu eitthvað sem við getum grætt á, eða haft gott af. Að öðru leyti koma útlönd okkur ekki við nema sem eitthvert furðufyrirbæri, án skuldbindinga og örugglega án þess að við gerum okkur gildandi í samfélagi þjóðanna sem svarar ábyrgð gagnvart þeim sem þjást og líða.

Mörg vorum við sem áttum von um nýjan tíma, lausn, frelsi og ef til vill fullveldi Palestínumanna í eigin landi, eftir Oslóarsamninginn sem gerður var árið 1993. Ekki er ástæða til mikillar bjartsýni nú, miðað við atburðarás síðustu mánaða. Friðarsamningarnir svokölluðu, hafa reynst ákaflega haldlitlir og núverandi stjórnvöld í Ísrael virðast geta leyft sér að hindra eðlilegan framgang á sjálfsögðum réttlætismálum.
Engu að síður er samviska heimsins að vakna, og virt alþjóðasamtök – og staðarsamtök eins og Félagið Ísland-Palestína, heimta sanngjarna niðurstöðu í málefnum Palestínumanna. Enn getum við því vonað og beðið um réttlæti til handa þeim sem eru ófrjálsir og undirokaðir.
Minnumst þess vegna orða Maríu, móður Drottins, er hún mælir fram í lofsöng sínum: „Önd mín miklar drottinn og andi minn gleðst, í Guði frelsara mínum. Því að hann hefur litið til ambáttar sinnar í smæð hennar, héðan í frá munu allar kynslóðir mig sæla segja. Því að mikla hluti hefur hinn voldugi við mig gjört, og heilagt er nafn hans. Miskunn hans við þá er óttast hann varir frá kyni til kyns. Máttarverk hefur hann unnið með armi sínum, og drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað. Valdhöfum hefur hann steypt af stóli og upp hafið smælingja, hungraða hefur hann fyllt gæðum en látið ríka tómhenta frá sér fara.“
Guð sé okkur öllum náðugur og miskunnsamur.
Birtist í Frjáls Palestína.