Frjáls Palestína – Ritstjórapistill

Hernám Palestínu er flakandi sár á samvisku heimsbyggðarinnar. Nú, í byrjun júní 2007, eru 40 ár liðin frá Sex daga stríðinu, sem markar upphaf þess hernáms Vesturbakkans og Gaza. Á þessum 40 árum hefur ástandið versnað og versnað – og versnað ennþá meira. Ísraelska ríkisstjórnin er vanalega frekar fljót að leiðrétta okkur þegar okkur dettur í hug að nú geti þetta ekki orðið verra.

Það er með trega sem við minnumst þessara dapurlegu tímamóta. Það gefur manni dálitla tilfinningu fyrir dýpt vandans, hvað tímamótin eru orðin mörg. Í ár eru til dæmis líka 60 ár frá samþykkt Sameinuðu þjóðanna um að stofna skyldi Ísrael og Palestínu, og 20 ár frá upphafi fyrra intifada, sem vill svo til að var um sama leyti og félagið okkar var stofnað, en það verður tvítugt í haust.

Þar sem félagið hefur stækkað og þörfin fyrir það ekki síður, var ákveðið að gefa út tvö tölublöð af Frjálsri Palestínu í ár. Af nógu er víst að taka, þar sem málefni Palestínu eru annars vegar. Þar leggst á eitt að félagið hefur verið með virkara móti á nýliðnu starfsári og að margt hefur gerst í palestínskum stjórnmálum – og reyndar ísraelskum og íslenskum líka.

Jafnvel þau sem búa við kröppust kjör meðal okkar Íslendinga, eiga erfitt með að gera sér aðstæður Palestínumanna í hugarlund. Hér á landi er ríkt fólk og fátækt, en sem þjóð – eða sem hagkerfi – njótum við óvanalegra forréttinda. Palestína er á hinum endanum. Fólkið sem hefur það slæmt hérna hefur það býsna gott í samanburði við þá sem hafa það gott í Palestínu. Ég vona að Íslendingar – jafnt stjórnvöld sem almennir borgarar – muni halda áfram að leggja af mörkum til Palestínumanna. Þá munar meira um það en okkur.

Birtist í Frjáls Palestína.

Scroll to Top