Friðargildran

Eitt af þeim orðum sem hafa skipað sér fastan sess í opinberri umræðu um málefni Palestínu og Ísraels er „friðarferli“ . Oft er það haft með ákveðnum greini: „friðarferlið“. Það sem þar er átt við er ferli viðræðna sem hófst með leynilegum samningaviðræðum milli fulltrúa PLO og Ísraels í Madrid árið 1991. Var það í fyrsta skipti sem þessar fylkingar ræddust við og vöktu umræðurnar því væntingar. Þær vonir urðu að hluta til að veruleika með Oslóarsamingunum sem undirritaðir voru í tveimur skrefum árin 1993 og 1995. Margir muna eftir ljósmyndunum af handabandi Arafats og Rabíns fyrir framan Hvíta húsið, en það handaband varð að tákni nýrrar vonar um frið í Mið-Austurlöndum.

Friðarferlið hékk þó á bláðþræði, og í ljós kom að stórir hópar meðal beggja þjóða voru andvígir því. Vonbrigði friðelskandi manna voru mikil þegar heittrúaður gyðingur myrti Yitzhak Rabin árið 1995, og Benjamin Netanyahu var í kjölfarið kosinn forsætisráðherra. Allir vissu að Netanyahu hafði engan áhuga á sáttum við Palestínumenn, og staðfesti hann það með því að hraða og auka við uppbyggingu landnemabyggða á hernumdu svæðunum, en þær eru mikill þyrnir í augum Palestínumanna og einn helsti þröskuldurinn í vegi friðar. Ekki breytti það því að Netanyahu talaði jafnan mikið um friðarferlið, og sakaði þá iðulega Arafat um að vinna gegn því.

Samningar verða að gildru

Eftir valdatöku Netanyahus varð Palestínumönnum ljós sú gildra sem fólst í Oslóarsamningunum, því það litla sjálfræði sem þeim var heimilað varð að engu gagnvart Ísrael, nú þegar öllu fjandsamlegri aðilar voru þar við stjórnvölinn. Engu að síður var nú byrjað að draga upp þá mynd af átökunum að hér væri um tvo jafnvíga aðila að ræða.

Palestínumenn fengu samkvæmt Oslóarsamningunum fulla lögsögu á samanlagt um 20% hernumdu svæðanna, en það yfirráðasvæði var hólfað niður í rúmlega 200 aðskildar eyjar. Eyjarnar mynduðu síðan klasa í kringum stærstu bæi Palestínumanna á Vesturbakkanum og Gasa: Gasa-borg, Jeríkó, Ramallah, Nablus, Hebron, Jenín, Túlkarím og Kalkílja. Á milli bæjanna liggja ísraelsku landnemabyggðirnar, ísraelskir vegir og ísraelskar herstöðvar. Palestínumönnum var, og er enn, ekki unnt að komast á milli bæja án þess að fara í gegnum eftirlitsstöðvar ísraelska hersins.

Samkvæmt samingunum átti þetta ástand þó einungis að vera tímabundið. Lokalausn skyldi hafa fundist á öllum ágreiningsmálum í september 2000 og sjálfstætt ríki Palestínumanna stofnað; sátt skyldi hafa náðst um réttindi flóttamanna, endanleg landamæri, stöðu Jerúsalem og framtíð landnemabyggða. En eins og svo oft áður í deilum Palestínumanna og Ísraela vann tíminn með þeim síðarnefndu: Hús voru rifin og uppbygging landnemabyggða hélt áfram á meirihluta hernumdu svæðanna á meðan heimastjórn Arafats horfði máttvana á – ekkert skuldbatt Ísrael til að hætta þessum aðgerðum, og á meðan minnkuðu líkurnar jafnt og þétt á að samkomulag næðist.

Takmörkuð heimastjórn Palestínumanna skilaði ekki tilætluðum árangri. Uppbygging gekk illa og margir sökuðu stjórnina um óstjórn og spillingu. Efnahagsleg sóknarfæri voru lítil innan sjálfstjórnarsvæðanna, því þau voru bæði smá og innbyrðis einangruð. Atvinnuleysi og fátækt jókst á meðal Palestínumanna á hernumdu svæðunum, reiðin vegna áframhaldandi landráns kraumaði undir og lífskjör flóttamanna bötnuðu ekkert. Gaf þetta herskáum samtökum á borð við Hamas og Jihad byr undir báða vængi, og tóku þau að gera árásir á skotmörk og borgara innan landamæra Ísraels. Öll slík atvik voru miskunnarlaust notuð af Ísrael til að setja Arafat æ strangari fyrirmæli um að „uppræta hryðjuverk“, en minni áhyggjur voru af árásum ísraelskra landnema á Palestínumenn.

Ehud Barak, sem settist í forsætisráðherrastól árið 1999, gat ekki bjargað hinu skipreka friðarferli frá glötun, þrátt fyrir hraðar hendur sumarið 2000 þegar einungis nokkrir mánuðir voru til stefnu fram að lokadagsetningunni í september. Arafat hafnaði tillögunum sem Barak lagði fram í Camp David viðræðunum, enda hefðu þær aldrei hlotið samþykki palestínsku þjóðarinnar.

Óveðursský voru á lofti: Þegar Ariel Sharon heimsótti Al-Aqsa moskuna á musterishæðinni í Jerúsalem í lögreglufylgd kom til átaka milli fylgdarliðs hans og hóps Palestínumanna. Þau átök mörkuðu upphafið að átökunum sem enn standa yfir, og hafa kostað ómældar þjáningar og dauðsföll sem fjölmiðlar segja okkur frá dag hvern.

Friður eða réttlæti?

Friðarsinnum heimsins ofbýður skiljanlega sú villimennska sem nú viðgengst á hernumdu svæðunum. Fólk lætur lífið daglega, flestir óbreyttir borgarar og jafnvel börn. Friðarsinnar styðja Palestínumenn, þar sem þeir eru fórnarlömb ofbeldisins, óvopnuð þjóð sem í besta falli ver sig með grjóti og mólotov-kokkteilum. Friðarsinnar telja að ef markmiðið sé að binda enda á ofbeldið, þá séu þeir sammála Palestínumönnum. Krafa Arafats um alþjóðlegt friðargæslulið virðist benda til þess sama.

Þó að þetta sé að mörgu leyti rétt, þá leynist örlítill galli á gjöf Njarðar. Palestínumenn vilja nefnilega ekki bara frið, þeir vilja líka réttlæti. Þess vegna halda þeir Intifada-uppreisninni áfram – frekar enn að stökkva bláeygir að samingaborðinu, sem hefur veitt þeim meira af fölskum fyrirheitum en raunverulegum hagsbótum. Sá friður sem ríkti á hernumdu svæðunum frá undirritun Oslóarsaminganan og fram að haustinu 2000 var óviðunandi friður – friður gildrunnar. Friðarferlið sem Palestínumönnum var ætlað að taka þátt var í löngu ónýtt, Ísrael hélt áfram að niðurlægja þá og lífskjör þeirra versnuðu. Þetta var hvorki sanngjarn né vænlegur friður.

Við friðarsinnar á Vesturlöndum verðum því að skilja að í átökum Palestínumanna og Ísraels eru málin ekki svo einföld að nóg sé að vilja frið. Allar friðarvonir standa og falla með því hvaða beinhörðu tillögur eru í farteskinu til þess að gera hann vænlegan. Ljóst er að nú er við að etja forsætisráðherra í Ísrael sem ekki einu sinni mun bjóða upp á neitt sem kemst nálægt þeim tillögum sem Barak lagði þó fram sumarið 2000. Ariel Sharon er einungis umhugað um útþenslu eigin ríkis og lítur á Palestínumenn sem óþarfan óþjóðalýð í vegi þeirrar framrásar. Á meðan hann situr við völd er krafan um friðarviðræður tilgangslaus.

Palestínumenn reyna af veikum mætti að verjast ísraelska innrásarliðin

Fyrir mér er réttur Palestínumanna til vopnaðrar mótspyrnu óumdeilanlegur þegar svo er í pottinn búið – og auk þess má geta að réttur óbreyttra borgara til að berjast gegn hernámi er viðurkenndur samkvæmt Genfarsáttmálanum. Ariel Sharon útmálar þessa réttmætu baráttu sem hryðjuverk, og gerir það að skilyrði fyrir friðarviðræðum að þeim ljúki. Hins vegar er alveg ljóst að þegar „hryðjuverkunum“ lýkur þá mun Sharon ekki hafa upp á neitt að bjóða í samningum. Markmið Sharons er að kúga Palestínumenn til undirgefni –ekki að berjast gegn hryðjuverkum, eins og hann vill vera láta – og Palestínumenn mega ekki láta hann komast upp með það.

Þrátt fyrir þennan fyrirvara skulum við minnast þess að Intifada-uppreisnin fer að langstærstum hluta fram friðsamlega; með mótmælagöngum og fjöldasamkomum. Árásir Hamas-liða á óbreytta borgara í Ísrael heyra til undantekninga, en eru ekki uppistaðan í baráttunni eins og fjölmiðlaumfjöllun á Vesturlöndum gefur til kynna. Íslandsvinurinn dr. Mustafa Barghouthi skipuleggur á hverjum degi friðsamar mótmælaaðgerðir í nafni óháðra félagasamtaka, og er starf hans mun frekar lýsandi fyrir viðleitini Palestínumanna en árásir Hamas. En sá munur er aukaatriði í augum hermámsliðsins, því Dr. Barghouthi er handtekinn og beittur ofbeldi eins og hver annar glæpamaður.

Möguleikar á friði

Sé getuleysi mitt við að fordæma vopnaða andspyrnu Palestínumanna mótsögn, þá truflar sú mótsögn mig ekki, því einungis friðsöm barátta er ekki möguleg við þær aðstæður sem nú eru fyrir hendi á hernumdu svæðunum, og friður mun ekki komast á fyrr en Palestínumenn hafa sýnt að þeir láta ekki beygja sig. Ríkisstjórn Ísraels verður að skilja að það er ekki hægt að bjóða Palestínumönnum upp á hálfkaraða friðarsamninga sem tryggja ekki raunhæfar forsendur fyrir friðsælli sambúð. Baráttan heldur áfram, og friður kemst ekki á fyrr en henni hefur lokið með sigri Palestínu.

Alþjóðalög kveða skýrt á um rétt Palestínumanna. Hver ein og einasta krafa sem Palestínumenn setja fram er studd annað hvort af ályktunum Sameinuðu þjóðanna eða grundvallaralþjóðasáttmálum. Framhjá því verður ekki horft að Ísrael hefur nú látið Palestínumenn sitja undir hernámi í þrjá og hálfan áratug á fimmtungi sinnar upprunalegu ættjarðar. Þeir samningar sem þegar hafa verið gerðir hafa einungis dregið þjáningar Palestínumanna á langinn og ekki sett framferði Ísraels neinar skorður. Á meðan Ísrael getur ekki mætt kröfum Palestínumanna á samningaborðinu með öðru en hálfkáki og refskákum þá hljóta Palestínumenn að hafa rétt til þess að framfylgja alþjóðalögum í eigin landi með andspyrnuna að vopni.

Við getum ekki sætt okkur við að sjálfsögðustu mannréttindi séu ofurseld samningaviðræðum og pólitísku þjarki; við hljótum að taka undir baráttu Palestínumanna fyrir lífi sínu og réttindum, – það er eina leiðin að friði.

Höfundur er háskólanemi og ritari Félagsins Ísland-Palestína

Birtist fyrst í Frjáls Palestína.

Höfundur

  • Viðar Þorsteinsson

    Höfundur er heimspekingur og meðstjórnandi Félagsins Ísland-Palestína. .

Stöðvið helför Ísraels á Gaza - Mótmæli.
Mótmæli við ríkistjórnarfund Hverfisgötu 4, föstudaginn 22. ágúst klukkan 8:45, nánar.

Scroll to Top