Fordæmum tvöfeldni Bandaríkjastjórnar

Ályktun aðalfundar 13. janúar 1991:

Aðalfundur Félagsins Ísland-Palestína er haldinn í skugga yfirvofandi styrjaldar sem stofnar tilvist palestínsku þjóðarinnar í voða.

Styrjöld við Persaflóa mun ekki aðeins leggja Írak í rúst heldur Iíka landið sem sagt er að frelsa eigi undan hernámi. Þá er ófyrirséð hvaða eyðileggingu og dauða megi vænta af Íraksher, sem m.a. er stefnt gegn Ísrael. Ísraelsstjórn hefur á móti hótað hörðu og vitað er að þar er um að ræða kjarnorkuvopn.

Ísraelstjórn hefur frá upphafi Persaflóadeilunnar hvatt til árásar á Írak. Hvort sem Ísrael verður til þess að hefja stríðið eða dregst inn í það, má vænta þess að afleiðingarnar verði þær, að Palestínumenn verði að fullu og öllu hraktir frá landi sínu með hervaldi.

Félagið Ísland-Palestína tekur undir með þeim þúsundum Íslendinga sem gera þær kröfur til ríkisstjórnar Íslands, að hún lýsi því ótvírætt yfir að Ísland verði ekki aðili að hernaðaraðgerðum gegn neinni þjóð í Austurlöndum nær. Ríkisstjórn Íslands og Alþingi geta enn skorað á Bandaríkjastjórn og Sameinaða heraflann að nota ekki heimild Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna frá 29. nóvember til að hefja stríð gegn Írak. Finna verður aðrar leiðir til að aflétta hernámi Kúvæts en að efna til allsherjar blóðbaðs.

Aðalfundurinn fordæmir þá tvöfeldni sem einkennir afstöðu Bandaríkjastjórnar sem tekið hefur sér forystuhlutverk í baráttunni gegn hernámi Íraka í Kúvæt, en styður á sama tíma hernám og kúgun Ísraelsstjórnar gagnvart palestínsku þjóðinni. Palestínumenn hafa mátt búa við hernám áratugum saman, og Bandaríkjastjórn hefur komið í veg fyrir að sjálfsákvörðunarréttur palestínsku þjóðarinnar sé virtur í reynd.

Bandaríkjastjórn hefur komið í veg fyrir að Öryggisráðið kalli saman alþjóðlega ráðstefnu um frið í Austurlöndum nær í samræmi við ályktanir Sameinuðu þjóðanna, enda þótt nær öll aðildarríkin styðji þá hugmynd. Ísland er eitt þeirra og Alþingi Íslands hefur einnig ályktað samhljóma um stuðning við baráttu Palestínumanna. Vara ber við ummælum utanríkisráðherra um „sjálfstjórn“ þeim til handa, þ.e. innan Ísraelsríkis. Þetta hugtak er komið frá Ísraelsstjórn og er til þess fallið að grafa undan samþykktum Sameinuðu þjóðanna um sjálfsákvörðunarrétt Palestínumanna, sem Ísland á hlut að.

Að lokum áréttar aðalfundurinn önnur ákvæði í ályktun Alþingis frá 18. maí 1989, þar á meðal um vinsamleg samskipti íslenskra stjórnvalda við Frelsissamtök Palestínu, PLO. Á einu og hálfu ári sem liðið er frá samþykkt þessari, sem um var alger samstaða á þingi, er ekki að sjá að utanríkisráðuneytið hafi í einu né neinu fylgt þessari stefnu eftir.

Birtist í Frjáls Palestína.

  • Höfundur er læknir, formaður Félagsins Ísland Palestína (1991-2016) og heiðursborgari í Palestínu (frá 2015).

Félagið Ísland-Palestína boðar til samstöðufundar "Hvílum Júróvisjón" n.k. miðvikudag 10. desember 2025, kl. 14:30 hjá RÚV í Efstaleiti 1, sjá nánar.

Scroll to Top