Fleigur í síðu friðar

Þeir standa vörð um eyðilegginguna; ísraelskir hermenn bera saman bækur sínar.

Það þyrmir eiginlega yfir mann að þurfa að fjalla um ástandið í Palestínu, – svo skelfilegt er það orðið. Hér situr maður ráðþrota við lyklaborðið, uppi á ísaköldu landi og hamrar inn enn einn vonlausan lesturinn um þennan hrylling sem menn af holdi og blóði hafa bakað sjálfum sér og öðrum fyrir botni Miðjarðarhafs. Þetta er sannast sagna orðið ansi frústrerandi verð ég að viðurkenna. En hvernig ætli þetta sé þá fyrir Palestínumenn sjálfa? Hvernig ætli þeim líði? Það er erfitt að gera sér það í hugarlund hér í friðsemdinni og dasandi værukærum allsnægtunum.

Eftir hryllingsverkin í síðari heimsstyrjöldinni áttu gyðingar samúð heimsbyggðarinnar óskipta. En með framferði sínu í Palestínu hefur Ísraelsstjórn nú svo gott sem tekist að snúa samúðinni upp í hreina og klára andstyggð. Manni liggur við að segja að aðferðir stjórnarinnar við að losa Palestínumenn af eigin landsvæði séu litlu skárri en þær sem nasistar beittu gegn gyðingum í síðari heimsstyrjöldinni. Best að viðurkenna það bara strax þótt maður megi auðvitað ekki segja það. Hersveitir Ísraelstjórnar hafa markvisst unnið að því undanfarna áratugi að sölsa undir sig landsvæði Palestínumanna með ólögmætum hætti og hrekja þá á örvæntingarfullan flótta. Og allri andspyrnu við innrásarherinn er svo mætt með takmarkalausri og grimmilegri hörku. Drengjum sem kasta steinum í hernámsliðið – af því að þeir hafa ekki annað milli handanna – er svarað með vélbyssum og jafnvel Apache árásarþyrlum ef svo ber undir. Geltið í vélbyssunum vélarþyturinn í þyrluspöðunum eru orðin hversdagsleg umhverfishljóð sem ungu drengirnir sem nú malla sér mólótovkokteil í sundurskotnum kjallara á Vesturbakkanna hafa alist upp við frá blautu barnsbeini. En lítið er spáð í hverjir verða fyrir kúlnaregni Ísraelshers, – skiptir engu hvort saklausir vegfarendur falli í valinn. Eru hvort eð er allt hugsanlegir hryðjuverkamenn segir Ísraelsstjórn og getur með þeim hætti réttlætt hvaða voðaverk sem er. Enginn þarf að svara til saka þótt móðir gráti í hljóði og þjóðinni blæði.

Fimmtán árum eftir að Berlínarmúrinn var rifinn niður af friðelskandi fólki beggja vegna járntjaldsins er hryllingsstjórnin í Ísrael nú að reisa aðskilnaðarmúr langt inni í miðri Palestínu. Rétt eins og nasistar sem lokuðu gyðinga inn í gettóum undir miðja síðustu öld ætlar stjórnin í Tel Aviv nú að beita sömu aðferðum og fangelsa Palestínumenn innan allsvipaðra gettómúra. En það má auðvitað heldur ekki segja upphátt samkvæmt gildandi rétttrúnaði í stjórnmálaumræðu dagsins. Og allt er þetta gert í skjóli hinna almáttugu Bandaríkja sem nýlega hafa ráðist inn í tvö önnur múslimaríki með allt of fyrirsjáanlegum hörmungum. Bandaríkjastjórn styður nefnilega leynt og ljóst við ríkishryðjuverk Ísraela gagnvart Palestínumönnum sem eru framin með bandarískum vígtólum og niðurgreidd með blóðugum bandarískum dollurum. Getur virkilega verið að menn séu svo fullkomlega skyni skroppnir að halda að lausnin á Palestínuvandanum sé að fangelsa bara allt þetta fólk bak við aðskilnaðarmúrinn hans Sharons? Ég á allaveganna bágt með að trúa því. Ætli stappi ekki nærri að þetta sé einhver heimskulegasta aðgerð sem mögulega var hægt að kokka upp, þótt ýmsar aðrar ansi vitlausar hafi þegar verið reyndar, og mun ekki verða til annars en að hella olíu á eldinn sem þegar logar glatt.

Ljóst er að heiminum öllum stendur ógn af hryðjuverkum öfgatrúarmanna, hvaða sið sem þeir kunna að fylgja. Um það er ekki deilt. En jafnljóst má vera að enginn árangur mun nást í baráttunni gegn hryðjuverkum íslamskra voðaverkahópa fyrr en lausn finnst í deilum Ísraela og Palestínumanna. Um leið er flestum skyni bornum mönnum nú orðið morgunljóst að forsenda farsællar lausnar er að Ísraelar láti af ólögmætu hernámi sínu á landsvæðum Palestínumanna. Þetta liggur fyrir og fáir deila um. En eins og sakir standa bendir ekkert til að það muni gerast án utanaðkomandi þrýstings. Og slíkt er aðeins á færi Bandaríkjamanna. Með öðrum orðum þá mun ekki verða friðvænlegt fyrir botni Miðjarðarhafs fyrr en Bandaríkjastjórn hreinlega neyðir Ísraela til að láta af hernáminu. Enda er það kostað af Bandaríkjamönnum. Án fjárhagsaðstoðar Bandaríkjamanna væri Ísrael gjaldþrota ríki. Bandaríkjamenn hafa því í hendi sér að stöðva voðalegt framferði Ísraela. Þeir geta einfaldlega skrúfað fyrir frekari fjárveitingar og látið af staurblindum stuðningi sínum. En því miður bendir ekkert til að núverandi stjórnvöld með kúrekann keika George W. Bush í broddi fylkingar hafi nokkurn einasta áhuga á því.

Að lokum þetta: Menn skildu hafa hugfast að kristin bókstafstrú er engu betri en íslömsk bókstafstrú.

Birtist í Frjáls Palestína.

Scroll to Top