Fida Abu Libdeh hélt eftirfarandi ræðu á fjöldafundinum „Þjóð gegn þjóðarmorði“, laugardaginn 6. september 2025.
Í dag stöndum við hér saman, á Austurvelli, sem Þjóð gegn þjóðarmorði sem hefur staðið yfir í 699 daga. En fyrir Palestínumenn er þetta aðeins nýjasti kaflinn í áratuga langri sögu kúgunar og hernáms. Við stöndum gegn því að fólk sé svelt og svipt þeim grundvallarmannréttindum sem öll börn, konur og karlar eiga rétt á einfaldlega vegna þess að þau eru manneskjur.
Sem Palestínsk kona, fædd og uppalin í Palestínu, finn ég þessa þjáningu djúpt í hjarta mínu.
Þetta eru ekki bara tölur á blaði, þetta eru fjölskyldur, börn og líf sem hafa verið tekin. Ísrael hefur drepið meira en 68.000 Palestínumenn, þar á meðal um 17.000 börn, nær 1.000 þeirra voru ekki einu sinni orðin eins árs. Meira en 145.000 hafa særst, flest þeirra bera ör sem aldrei gróa. Þúsundir fjölskyldna hafa verið algerlega þurrkaðar út. Þetta eru ekki bara staðreyndir, þetta eru sögur, nöfn, manneskjur.
Ísrael hefur fangelsað þúsundir, án ákæru, án réttlætis, þar sem þeir búa við pyntingar og niðurlægingu á hverjum degi. Blaðamenn hafa verið drepnir, læknar, kennarar, íþróttamenn allt fólk sem stendur fyrir líf, þekkingu og framtíð. Á sama tíma hefur skólum, háskólum, sjúkrahúsum og leikskólum, sjálfum grunnstoðum samfélagsins verið eytt. Yfir tvær milljónir Palestínumanna hafa verið hraktir frá heimilum sínum, innviðir hafa verið lagðir í rúst, og fólk lifir nú við stöðuga fátækt og hungur.
Í dag stöndum við hér sem kennarar, fræðafólk, læknar, blaðamenn og baráttufólk fyrir mannréttindum. Við erum hér vegna þess að ábyrgð okkar á mannúð og réttlæti er sameiginleg. Með þögninni verðum við samsek. Þögnin þvær ekki hendur okkar, hún óhreinkar þær.
Við verðum að krefjast aðgerða að mannúðaraðstoð fái að berast, að hungrið verði stöðvað, að hernáminu verði lokið, og að Ísrael verði dregið til ábyrgðar fyrir þessi brot. Við verðum að halda áfram að fræða, að þrýsta, að tala. Við getum ekki horft á þetta gerast í beinni útsendingu án þess að rísa upp.
Ég stend hér í dag ekki aðeins sem Palestínsk kona, heldur sem manneskja sem trúir á réttlæti, frelsi og líf. Og ég segi: Þetta þjóðarmorð verður að stöðva. Hernámið verður að enda. Palestína á að lifa.
Lifi frjáls Palestína! Lifi frjáls Palestína! ✌🏽🇵🇸🕊
Birtist á Facebook.