Ferðasaga frá Palestínu í máli og myndum

Formaður félagsins, Sveinn Rúnar Hauksson ferðaðist um Palestínu frá 19. september til 3. nóvember 2010. Fyrstu 10 dagana var hann á Vesturbakkanum að meðtalinni Austur-Jerúsalem en 1. október auðnaðist honum að komast inn á Gazasvæðið eftir nokkrar tafir, en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir að stoðtækjasmiðir á vegum Össurar Kristinssonar (OK Prosthetics) ásamt Hauki Sveinssyni ritara hópsins og SRH færu inn á svæðið 22. september. Eftir vikubið urðu þeir frá að hverfa. Óskar Lárusson kom svo einum mánuði síðar og smíðaði 21 gervifót á 18 einstaklinga, yngst var sjö ára stúlka. Sveini hafði þá tekist að koma efninu inn á svæðið frá Jaffa þar sem það var í geymslu.

Aðkoma að Gaza við Erez: Leigubílastöðin er í um tveggja km. fjarlægð frá afgreiðslu ísraelsku landamæravarðanna.

Hár múr umlykur stöðina og liggur í báðar áttir frá henni. Lægri múrveggur umlykur gangveginn frá landamærunum.

Fyrri hluta ferðarinnar var að mestu varið á sjúkrahúsum í Austur-Jerúsalem og Hebron. Einnig átti formaður ásamt Hauki Sveins fund með dr. Mustafa Barghouthi og var tekið viðtal við hann. Lagt var á ráðin um næstu heimsókn dr. Mustafa til Íslands, en utanríkisráðherra stendur að því heimboði. Dvölinni á Gazasvæðinu frá 1.-24. október lauk óvænt með því að landamærum Egyptalands var lokað fyrir Sveini. Hann var bundinn á fundi hjá Aisha en fór í fljótheitum suður til Rafah til að kveðja félagana frá Írlandi og aðra sem komið höfðu í Viva Palestina bílalestinni. Leyfi fékkst með vegabréfsáritun til að fara inn í Egyptaland en þegar Sveinn ætlaði að snúa til baka á Gazasvæðið sama kvöld var lokað. Snemma næsta morgun var hann beðinn um að bíða í 5 mínútur sem urðu nærri fimm klukkustundir á landamærunum Egyptalandsmegin en þá var honum tilkynnt að hann fengi ekki að fara inn á Gaza. Egypsk stjórnvöld leyfðu það ekki og engin skýring fékkst.

SRH með Mahmoud Zahar, einum helsta leiðtoga Hamas-samtakanna í garðveislu til heiðurs Viva Palestina á Gaza 22. okt. 2010.
Heimsókn í SOS barnaþorpið í Aqaba, Jórdaníu Stefanía Khaliefeh, heiðurskonsúll Íslands í Jórdaníu, er önnur frá hægri.

Al Awda sjúkrahúsið: Al Awda (= rétturinn til heimkomu) sjúkrahúsið í Jabaliya flóttamannabúðunum er rekið af Heilsustarfsnefndunum, UHWC, sem er einn helsti samstarfsaðili FÍP á Gaza.

Al Awda er mikilvægasta sjúkrahús norðursvæðisins þótt ekki sé það í stærri kantinum. Þar er meðal annars eina kvensjúkdóma- og fæðingardeild norðurhluta Gaza og sinnir það um 360 þúsund manna byggð, þar af eru 150 þúsund manns í flóttamannabúðunum.

Geysilegt álag var á sjúkrahúsinu í árásarstríðinu sem hófst þriðja í jólum 2008 og stóð í þrjár vikur með látlausum sprengjuárásum úr lofti, af landi og sjó.

Morgunfundur á Al Mezan: Al Mezan sérgreinasjúkrahúsinu er rekið af hjónunum dr. Hazim Shelaldeh, konu hans Sahar Qawasmi kvensjúkdómalæknis og þingmanns Fatah samtakanna og tíu samstarfslækna þeirra, Sahar situr fyir enda borðsins. Auðvelt er að ganga beint inn á læknafundi því að allt fer fram á ensku og sjúkraskýrslur er á ensku.
Gervifætur til Gaza; Hér sést allur hópurinn sem flutti gervifætur til Gaza í september síðastliðnum, en varð frá að hverfa. Hópurinn er í heimsókn hjá dr. Hazim bæklunarskurðlækni og lækningaforstjóra Al Mezan sjúkrahússins í Hebron. Frá vinstri: Óskar Þór Lárusson, Johan Snyder frá Suður-Afríku, Sveinn Rúnar Hauksson, dr. Anton Jóhannesson frá Svíþjóð, Hazim Shelaldeh yfirlæknir og Haukur Sveinsson.
Með Maurice Jacobsen, bandarískum kvikmyndagerðarmanni á Gaza. Maurice Jacosen er nú að leggja lokahönd á heimildarmyndina Inshallah Insallah, en hún verður sýnd í Bíó Paradís 9. desember nk. Maurice dvaldi um 13 mánaða skeið á Gaza við gerð myndarinnar. Hann er væntanlegur til landsins til að vera viðstaddur sýningu myndarinnar. Gert er ráð fyrir umræðum um efni hennar að sýningu lokinni. Stefnt er að því að lokahönd verði lögð á gerð myndarinnar hér á Íslandi.
Vinafundir. Með dr. Sakaria Agha, leiðtoga Fatah og PLO á Gazasvæðinu: Dr Zakaria tók upphaflega á móti mér í maí 1990 og fór með mig um Gazsvæðið.

Formaðurinn stóð uppi nær auralaus og vantaði alla hluti til daglegs brúks nema myndavélar og tölvu sem voru í bakpokanum. Hann kom sér fyrir á ódýru hóteli í El Ariesh en peningar bárust ekki fyrr en tveimur vikum frá Íslandi, en talað hafði verið um í bankanum að það tæki tvo daga. Þá var Sveinn löngu farinn norður á bóginn fyrir peninga sem bárust frá Gaza og tók það minna en klukkustund þrátt fyrir 50 km akstsur frá Rafah til El Ariesh. Hann átti síðan eftir að aka yfir 1000 km leið til að komast út úr Egyptalandi um Taba og inn í Eilat í Ísrael, algerlega athugasemdalaust. Síðan inn í Jórdaníu til Aqaba og þaðan til Amman. Frá Amman var svo farið yfir Allenby/King Husseini-brúna 1. nóvember. Þá lenti Sveinn í 10 klst yfirheyrslu hjá leyniþjónustunni sem lauk með þeim úrskurði að honum væri heimilt að vera í Ísrael næstu þrjá mánuði en mætti ekki fara inn á Gaza. Undarlegur úrskurður ef um var að ræða mann sem á einhvern hátt stofnaði Ísrael í hættu! Auðvitað var ekki um það að ræða, heldur refsingu fyrir að eiga fundi með forystumönnum stjórnvalda á Gaza, forsætisráðherra og öðrum sem tilheyra Hamas. Amitai kapteinn í þeirri deild Ísraelshers sem sér um alþjóðasamtöl og erlenda ferðamenn til Gaza fékk ekki skýringu á banninu sem hernum fannst ástæðulaust og hafði veitt Sveini leyfi. En Amitai kapteinn taldi bannið komið til af því að Sveinn hefði verið að hitta leiðinlegt fólk á Gaza, einsog hann orðaði það.

Á Al Awda, sjúkrahúsi UHWC í Jaballya flóttamannabúðunum.
Augusta Victoria Hospital. Birna Jónsdóttir, röntgenlæknir, í heimsókn hjá yfirlækni geislameðferðar. Augusta Victoria sjúkrahúsið er eina sjúkrahúsið í Palestínu, sem veitt getur geislameðferð við krabameini.

Það var heilmikið áfall að komast ekki aftir inn á Gaza. Sveinn var þar mitt í mörgum verkum. Eitt var Maríusjóðurinn, en ekki var búið að fullskipa stjórn hans og halda fyrsta fund til að ákveða hvert fyrsta styrktarverkefnið yrði. Þá var Sveinn að vinna á fullu með samstarfsaðila okkar í Heilsustarfsnefndunum (UHWC) og var vart byrjaður í verkefnum með öðrum slíkum, það er Geðhjálparsamtökunum. Sveinn var nýkominn í samband við læknadeild Íslamska háskólans sem er stærsti háskólinn á Gaza. Hann hafði verið þar í heimsókn í vikunni áður og hitt rektor háskólans að máli, framkvæmdastjóra alþjóðlegrar samvinnu, en fyrst og fremst forseta læknadeildar og samverkamenn hans. Samvinnuverkefni voru að komast á dagskrá. Háskólinn er mjög fallegur og vel útbúinn. Nánast allir prófessorar eru doktorar úr frægustu háskólum Bandaríkjanna og Bretlands og öll kennsla fer fram á ensku.

Með Hosni Talal Botch, sem fékk tvo gervifætur í fyrra og allt gengur vel.
Hjá dr. Mustafa Abdul Shafi á Gaza. Hann er einn þekktasti skurðlæknir síðustu aldar í Palestínu.

Þannig mætti áfram telja og ekki síst var Sveinn hálfnaður við að eiga viðtöl við – og skoða alla þá sem fengið hafa gervifætur frá okkur og meta árangurinn. Stefnt er að áframhaldi á verkefninu, en Óskari tókst ekki einungis að smíða gervifætur á 18 einstaklinga heldur kenndi hann tveimur fagkonum á Gervilimastöðinni að smíða gervifætur með íslensku aðferðinni, aðferð Össurar. Hann skildi tækin eftir þannig að nú þarf einungis að koma efni til smíðanna á áfangastað.

Birtist í Frjáls Palestína.

  • Höfundur er læknir, formaður Félagsins Ísland Palestína (1991-2016) og heiðursborgari í Palestínu (frá 2015).

Félagið Ísland-Palestína boðar til samstöðufundar "Hvílum Júróvisjón" n.k. miðvikudag 10. desember 2025, kl. 14:30 hjá RÚV í Efstaleiti 1, sjá nánar.

Scroll to Top