Félagið Ísland-Palestína – Starf félagsins 2024 og 2025

Árið 2024 var þrítugasta og sjöunda starfsár félagsins og það ár ásamt því ári sem nú er að ljúka eru umfangsmestu starfsár félagsins frá upphafi. Í október 2023 gjörbreyttist heimur okkar og félagsins. Við höfum fylgst með yfirgangi og ofbeldi Ísraelsstjórna í áratugi og jafnan gert okkur grein fyrir því að lokamarkmið síonista er að ræna gjörvallri Palestínu eftir að hafa hrakið burt með ofbeldi og drápum eins marga Palestínumenn og mögulegt er.

Nú hefur umheimurinn séð þessi áform raungerast með öllum þeim hryllingi sem fylgir þjóðernishreinsun og þjóðarmorði.

Viðbrögð okkar voru þau að stórefla starf félagsins til stuðnings Palestínu.

Við höfum skipulagt óteljandi mótmælagöngur, útifundi og fjölsótta fundi í Háskólabíói. Það hafa verið tónleikar, uppákomur og áheit í Maraþonhlaupi. Á Akureyri, á Egilsstöðum, á Ísafirði og víðar hafa verið göngur og fundir. Við höfum haldið ræður, fleytt kertum, sungið fyrir ráðuneytisfólk og ráðherra, við höfum sent ráðherrum og þingflokkum bréf, við höfum átt fundi með ráðherrum, við héldum fjöldafund með fulltrúum flokkanna sem buðu fram í síðustu Alþingiskosningum, við höfum farið á fund útvarpsstjóra, við höfum skorað á forystu íþróttahreyfingarinnar að hætta samskiptum við ísraelskar íþróttahreyfingar. Við höfum staðið fyrir auglýsingaherferðum og látið gera skoðanakannanir til að kanna hug þjóðarinnar. Niðurstöður tveggja kannana sýna ótvíræðan stuðning almennings við málstað Palestínumanna. Þessar niðurstöður sýna að starf okkar hefur skilað árangri.

FP Starf Felagsins Thjod gegn thjodarmordi
Fjölmennur samstöðufundur á Austurvelli 6. september 2025 undir kjöroðinu „Þjóð gegn þjóðarmorði“ © Frjáls Palestína

Hæst ber stórfund á Austurvelli 6. september 2025 þar sem um tíuþúsund mættu til stuðnings Palestínu. Yfir 185 félög, verkalýðsfélög, fagfélög, mannúðarfélög, samtök listamanna, stofnanir og ýmsir hópar sameinuðust undir kjörorðinu Þjóð gegn þjóðarmorði

Við höfum fært fram sömu kröfurnar aftur og aftur: Vopnahlé strax! Stöðvið þjóðarmorðið! Refsiaðgerðir gegn Ísrael! Viðskiptaþvinganir, sniðgöngu og slit á stjórnmálasambandi við ríki þjóðarmorðingja.

Félagið Ísland-Palestína hefur safnað fé til stuðnings Palestínumönnum í áraraðir. Á síðstu misserum höfum við safnað á fundum og samkomum auk þess sem einstaklingar og samtök hafa lagt fé í neyðarsöfnun félagsins. Nemendur Hagaskóla söfnuðu einni og hálfri milljón til barnanna á Gaza, hópurinn List fyrir Palestínu seldi listaverk fyrir rúmar átta milljónir sem runnu í söfnun félagsins.

Samtök í Palestínu sem við höfum stutt eru Not to Forget Society í Jenin, AISHA, Womens Affair Center. Einnig höfum við stutt UNRWA, flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna fyrir Palestínu og PCRF, Palestinian Children Relief Fund.

Við höfum sent um 30 milljónir til þessara samtaka og erum að ræða næstu skref varðandi það fé sem hefur ekki verið ráðstafað.

Í maí 2024 kom Mads Gilbert til landsins á vegum félagsins. Hann hélt fjölmarga fundi og mætti í viðtöl á RÚV og stöð 2 auk þessa að ræða málin í Hlaðvarpi. Mads fór til Akureyrar og ræddi mál Palestínu á fjölsóttum fundi í Hofi. Í Reykjavík var stórfundur í Háskólabíói, í Háskólanum og hjá samtökum lækna.

Félagið hélt samkomuna Matur & menning sem var fjölsótt og einnig hinn hefðbundna sölubás á Þorláksmessu. Við gáfum út málgagn okkar Frjáls Palestína í nóvember 2024 í tuttugasta og sjöunda sinn og var veglegt að vanda og innihélt fjölda fróðlegra greina.

Félagið Ísland-Palestína hefur vaxið og eflst á undanförnu ári. Félagatala hefur tvöfaldast og nú rekum við skrifstofu og verslun í Hafnarstræti. Skipulagning mótmælaaðgerða og annarra atburða á vegum félagsins hefur krafist mikillar vinnu hjá stjórnarfólki félagsins. Til aðstoðar hafa tímabundið verið ráðnir starfskraftar, en megin þungi starfseminnar hefur verið borin uppi af fáum einstaklingum í stjórn félagsins.

Á heimasíðu FÍP, www.palestina.is, eru upplýsingar um félagið og starfsemina.

Hjálmtýr Heiðdal
formaður FÍP

Birtist í Frjáls Palestína.

Scroll to Top