Fangabúðirnar Nablus

Það var í nóvember 2002 sem ég lét loks verða af því að heimsækja Palestínu. Þrátt fyrir að hafa lengi verið virkur í stuðningi við mannréttindabaráttu Palestínumanna og lesið mér mikið til um ástandið á svæðinu var ekkert sem gat undirbúið mig undir það sem ég átti eftir að upplifa þá daga sem ég dvaldi á Vesturbakkanum. Hið hrikalega óréttlæti sem þar viðgengst í skugga ísraelsks hernáms er nánast ólýsanlegt. Að sjá fólkið halda reisn sinni, reyna halda skólastarfi gangandi fyrir börn sín og viðhalda sem flestum þáttum af sínu eðlilega lífi andspænis einni öflugustu hernaðarmaskínu heims er nokkuð sem ég mun aldrei gleyma.

Ólíkt mörgum öðrum sjálfboðaliðum sem farið hafa á vegum Félagsins Ísland-Palestína til hernumdu svæðanna starfaði ég hvorki fyrir Union of Palestinian Medical Relief Committies (UPRMC) né tók þátt í verkefnum Grassroot International for the Protection of the Palestinian People (GIPP). Ég hafði verið í sambandi við An-Najah háskólann í Nablus í nokkra mánuði áður en ég lagði af stað og ákvað að taka þátt í Zajel-sjálfboðaliðaverkefni skólans. Zajel þýðir bréfdúfa á arabísku og á nafnið að tákna að þátttakakendur verkefnisins miðli skilaboðum um frið og samstöðu með Palestínumönnum til heimsbyggðarinnar. Þar sem háskólinn var hins vegar að mestu lokaður vegna útgöngubanns þá daga sem ég var í Nablus, og ekkert fjölþjóðlegt Zajel-sjálfboliðaátak í gangi eins og verið hafði mánuðina á undan, starfaði ég mest með samtökunum International Solidarity Movement (ISM). Einnig kynnti ég mér starfsemi UPRMC í bæði Nablus og Ramallah.

Í Jerúsalem

Fyrsti viðkomustaður minn í Palestínu var sá sami og hjá mörgum öðrum íslenskum sjálfboðaliðum; gistiheimilið Augusta Victoria Hospital á Ólífufjallinu (Mount of Olives) í austurhluta Jerúsalem. Eftir grannskoðun og yfirheyrslur á Tel Aviv- flugvelli, rútuferð til vesturhluta Jerúsalem og mikla leit eftir arabískum leigubíl sem gæti ekið mér til austurhlutans (ísraelskir leigubílstjórar af gyðingatrú aka sjaldan inn í palestínska hluta borgarinnar) komst ég loks inn um hliðið á Augusta Victoria. Það var komið kvöld. Þreyttur og hálfringlaður eftir atburði dagsins var ég ekki alveg viss um hvort ég ætti að fara eftir ráðleggingunum sem ég hafði fengið og fara niður á Faisal-Hostelið við Damaskus-hliðið í gömlu borginni. Þar átti ég að geta fengið fá upplýsingar frá sjálfboðaliðunum sem þar gistu um hvort og hvernig hægt væri að komast til Nablus næsta dag.

Þar sem ég ætlaði aðeins að vera 12 daga í Palestínu mátti ég hins vegar engan tíma missa. Vegna vegatálma Ísraelsmanna sem skera á allar samgönguæðar Vesturbakkans gæti ferðalag sem aðeins átti að taka klukkutíma tekið heilan sólahring. Ég yrði að leggja af stað snemma næsta morgun. Það var því einstaklega óvænt tilviljun að hitta á Hallgerði Thorlacius, sem þá hafði verið í meira en þrjár vikur í Palestínu, eftir að hafa staðið við hliðið í aðeins örfáar mínútur.

Hallgerður var að koma frá Hebron og hafði í sjálfboðastarfi sínu ferðast um allan Vesturbakkann. Yfir rótsterku arabísku kaffi í spítalagarðinum setti hún mig inn í ástandið, lét mig fá nöfn og símanúmer og gaf mér alls kyns ráðleggingar. Hvernig best væri að koma sér til Nablus eins og ástandið var þessa daganna, hvað best væri að segja við hermennina við vegatálmana, hvernig best væri að haga sér yfir Ramadan hátíðina (ég hafði ekkert hugsað út í að þá daga sem ég yrði í Palestínu stæði yfir föstumánuður múslima) o.s.frv. Strax næsta morgun hélt ég til Nablus og Hallgerður til Gaza, þar sem hún ætlaði að verja sínum síðustu dögum í Palestínu. Síðar komst ég hins vegar að því að hún framlengdi dvöl sína um hálfan mánuð og hélt að nýju inn á Vesturbakkann.

Haldið til Nablus

Frá Jerúsalem fór ég til varðstöðvarinnar Qalandia, sem aðskilur borgina frá Ramallah og dregur nafn sitt af flóttamannabúðum sem standa á svæðinu. Um er að ræða einn fjölfarnasta vegatálma Palestínu og eftir að hafa þokast áfram í bílaröðinni kvaddi ég félaga Hallgerðar sem gaf mér far og hélt áleiðis til Nablus með leigubíl. Þar sem leigubílstjórinn bjó í Austur-Jerúsalem (sem hefur formlega verið innlimuð í Ísrael, ólíkt öðrum svæðum Vesturbakkans eða Gaza) hafði hann ísraelskar númeraplötur og gat ekið um bestu og greiðförnustu vegi Vesturbakkas. Þessir vegir eru opnir fyrir landtökumönnum, hermönnum og öðrum ísraelskum ríkisborgurum, en lokaðir Palestínumönnum. Ferðalagið var vandræðalaust og tók aðeins rúma klukkustund. Leigubílstjórinn ók hins vegar ekki inn um Huwarra vegatálmann fyrir utan Nablus. Sem arabi var engin möguleiki á að hermennirnir hleyptu honum inn. Útlendingurinn ég, í þeim skálduðu erindagjörðum að kíkja á sögufræga staði en auðvitað ekki að hjálpa íbúum borgarinnar, átti hins vegar ekki í neinum vandræðum með að komast inn í Nablus.

Þrátt fyrir að Nablus sé næst-fjölmennasta borg Palestínu (Austur-Jerúsalem er talin fjölmennasta) finnst hún hvergi á ísraelskum landakortum. Með því að líta á ísraelsk landakort, sem samkvæmt ísraelskri löggjöf mega ekki sýna landamæri Vesturbakkans og Gaza (grænu línuna), komst ég að því að Ísraelar vilja kalla heimaborg um 180.000 Palestínumanna Shekem, sem samkvæmt Biblíunni var um 2 km norður af núverandi Nablus. Á meðan Shekem, sem samanstendur í dag af fornum rústum og ólívutrjám, var stofnuð fjögur þúsund fyrir krist er Nablus „aðeins“ tvö þúsund ára gömul.

Nablus hefur lengi verið öflug miðstöð palestínskrar andspyrnu gegn erlendum yfirráðum. Íbúar borgarinnar voru í fararbroddi gegn nýlendustjórn Breta í Palestínu og í baráttunni gegn innflytjendastraumi gyðinga sem höfðu í hyggju að stofna sérríki í landinu. Árið 1936 var þar stofnuð fyrsta palestínska Þjóðarnefndin (National Committee), en hún var skömmu síðar sett upp í öðrum borgum landsins til að stjórna verkföllum og mótmælum gegn nýlendustjórninni. Jórdanir, sem stjórnuðu Vesturbakkanum 1948–67, höfðu aldrei fulla stjórn í Nablus og þegar landsvæðið féll í hendur Ísraelum skipulagði Yassir Arafat starfsemi uppreisnarhópa í gömlu borginni. Stúdentar í Al-Najah National University, sem og aðrir íbúar borgarinnar, voru margir hverjir leiðandi afl í fyrri Intifada-uppreisn Palestínumanna sem stóð yfir 1987–1993. Í dag er borgin umkringd landsetubyggðum gyðinga og varðstöðvum ísraelska hersins.

Innrásir og útgöngubönn

Þegar ég kom til Nablus höfðu íbúar borgarinnar mátt þola fimm innrásir síðustu átta mánuði. Innrásirnar skildu eftir sig skelfingu, eyðileggingu og mikið manntjón meðal óbreyttra borgara. Ofan á það höfðu Nablusbúar mátt þola nánast stöðugt útgöngubann í 156 daga daginn sem ég kom til borgarinnar, 23. nóvember 2002. Í yfir fimm mánuði höfðu borgarbúar neyðst til að vera innilokaðir á heimilum sínum og ekki getað sótt vinnu, skóla eða heimsótt vini og vandamenn. Ég man raunar aðeins eftir einum degi þar sem hersetuliðið aflétti útgöngubanninu, og þá aðeins í nokkrar klukkustundir til að fólk gæti náð í mat og aðrar ítrustu nauðsynjar. Þá fylltist miðborgin af lífi og látum. Í íbúðarhverfunum í hæðum borgarinnar, þar sem maður var vanur að sjá aðeins skriðdreka og herjeppa, blöstu nú við manni vöru- og fólksbifreiðar. Skyndilega var táragasi skotið inn á markaðsgöturnar. Herinn hafði gefið til kynna að útgöngubann væri aftur komið á og Nablus líktist aftur einum stórum fangabúðum, en ekki blómlegri verslunar- og þjónustuborg.

Hernámsliðið reynir að viðhalda útgöngubanninu með eftirlitsferðum herflokka, vegatálmum og staðsetningu leyniskytta á háum húsum og í hæðunum kringum borgina. Þótt flestir borgarbúar séu of berskjaldaðir til að vera utandyra voru íbúar gömlu borgarinnar og Balata-flóttamannabúðanna, sem liggja við hlið Nablus, óhræddir við að brjóta útgöngubannið. Fólkið var hreinlega komið með nóg af innilokuninni. Einn verslunareigandi í gömlu borginni, sem ég keypti reglulega morgunmat af, sagði að honum þætti betra að að taka áhættuna og vera nokkra tíma úti við á hverjum degi, en að lifa í fangelsi. Áhættan er hins vegar mikil og nánast daglega bárust fréttir af fólki, þar með talið konum og börnum, sem hafði verið sært eða drepið í skotárásum fyrir það eitt að brjóta útgöngubannið.

Þar sem stræti gömlu borgarinnar og Balata eru þröng á hernámsliðið erfiðara um vik við að halda fólkinu þar í skefjum. Þar verður að beita skyndiárásum, þá oft án hjálpar skridreka, til að þröngva útgöngubanni á hverfin og flóttamannabúðirnar. Í Balata eru enn virkir vopnaðir andspyrnuhópar og vígamenn sem sýna innrásarliði í búðirnar jafnan nokkra mótspyrnu. Það kom oftar en einu sinni fyrir að maður hljóp í skjól þegar herjepparnir komu æðandi inn í götur gömlu borgar Nablus og skutu táragasi og gúmmíkúlum á mannfjöldan. En alltaf sýndu einhver börn og ungmenni andspyrnu sína með því að kasta grjóti að hernámsliðinu og búa til vegatálma til að verjast jeppunum, og skriðdrekum við stærri götur. Herinn svarar slíku andófi jafnan með skothríð, sem kostaði nokkur mannslíf meðan ég var í borginni.

Sjálfboðaliðastarf

Íbúar Nablus reyna, þrátt fyrir hernám og útgöngubann, að halda sem flestum þáttum eðlilegs lífs gangandi. Fyrir þeim er það ekki bara nauðsynlegt til að viðhalda mannsæmandi lífi, heldur líka eitt helsta vopnið í andspyrnunni gegn hernámsliðinu. Þegar ég var í Nablus var nýhafið átak meðal borgarbúa til að opna aftur barnaskóla borgarinnar. Sömu viku og átakið fór í gang hafði UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, ásakað Ísraela um að neita heilli kynslóð palestínskra barna um rétt þeirra til menntunar. Menntun er augljóslega mikilvæg fyrir palestínsku þjóðina, sem hefur mátt þola lokanir á menntastofnunum af hendi hernámsliðsins heilu skólaárin frá því fyrri Intifada uppreisn þeirra braust út. Þegar Ísraelsmenn lokuðu barnaskólunum enn einu sinni í apríl 2002 voru kennslustofur settar upp í íbúðarhúsum og moskum. Þegar í ljós kom að skólunum yrði haldið lokuðum til lengri tíma var ljóst að kennsla án menntaðra kennara gæti haft alvarleg áhrif á framtíðarmöguleika þúsunda skólabarna.

Börnin héldu því til skóla sinna að nýju, framhjá skriðdrekum vegatálmum hersins, í trássi við útgöngubannið. Reynt var með ýmsum leiðum að koma í veg fyrir að börnin sýndu andúð á hernámsliðinu með grjótkasti. Þeirra barátta yrði að komast í og úr skólanum. Þeir sem skipulögðu átakið bundu vornir við að liðsmenn hernámsliðsins gætu sýnt sýnar mannlegu hliðar og veigrað sér við að skjóta börn á leið í skólann. Raunin varð hins vegar sú að skotárásir á skólabörnin og lokanir á vegum sem þeim voru nauðsynlegir til að komast í skólann voru daglegt brauð. Eitt helsta verkefni okkar erlendu sjálfboðaliðanna var að fylgja börnunum í og úr skólanum. Með nærveru okkar voru minni líkur á að skotið yrði á þau og einnig gátum við stuðlað að því að hermennirnir hleyptu börnunum í gegnum vegatálmana.

Því miður var mikill skortur á erlendum sjálfboðaliðum í Nablus á meðan ég var þar. Margir höfðu farið til þorpanna í kringum borgina, sem hafði mátt þola stanslausar árásir og skemmdarvek af hendi landsetumanna. Þótt ég hafi aðeins verið níu daga í borginni tók ég þátt í margs konar verkefnum með á bilinu sex til átta öðrum sjálfboðaliðum frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Svíþjóð og Japan. Auk þess að fylgja börnum í og úr skólann skráðum við niður mannréttindabrot og húsaeyðileggingar af völdum hersins og reyndum að fá upplýsingar um afdrif manna sem herinn hafði handtekið án þess að gefa fjölskyldu þeirra upplýsingar um sakargiftir eða hvar þeir væru í haldi. Við gerðum okkar besta til að vera sjáanleg þegar herinn lét til skarar skríða gegn grunuðum hryðjuverkamönnum í von um að koma í veg fyrir að óbreyttum borgurum yrði gert mein og heimsóttum nokkur af þeim húsum sem herinn hafði tekið undir bækistöðvar sínar og hélt einni, eða fleiri fjölskyldum sem þar bjuggu, innilokuðum í einu af herbergjum hússins.

Á nóttunni skiptum við okkur niður á þau íbúðarhús sem herinn hafði í hyggju að eyðileggja. Ég svaf því nokkrar nætur heima hjá tveim fjölskyldum í Balata- flóttamannabúðunum. Auk þess heimsótti ég Askar flóttamannabúðirnar, An-Najah háskólann, sem var lokaður mestallan tíman sem ég var í Nablus, og merkileg samtök sem kallast Arab Women Union Society sem stofnuð voru árið 1929 og reka m.a. sjúkrahús, munaðarleysingjahæli og starfsemi fyrir blinda.

Haldið til Ramallah

Ég ákvað að eyða síðustu tveimur dögunum mínum í Palestínu í Ramallah. Þrátt fyrir að íbúar Nablus séu innilokaðir í heimaborg sinni gat ég sem útlendingur komist gegnum vegatálma hersins á leið út úr borginni án teljandi vandræða. En þar sem ég og breskur ferðafélagi minn sem einnig hafði starfað sem sjálfboðaliði ferðuðumst með palestínskum leigubílstjórum þurftum við nokkrum sinnum að skipta um bíl og aka torfærar krókaleiðir. Síðdegis komum við til Ramallah. Ástandið í borginni var allt annað en í Nablus. Engir skriðdrekar á götunum, engar sprengingjar eða skothríðir og ekkert útgöngubann!

Ég heimsótti aðalmiðstöð UPRMC í borginni og var virkilega vel tekið. Hérna eru Íslendingar greinilega vinsælir. Daginn eftir hélt ég með færanlegri heilsugæslustöð (mobile clinic) samtakanna til þorpanna í kringum Ramallah. Sum þeirra liggja alveg upp við landsetubyggðir Ísraela og misskipting lífsgæða milli Palestínumanna og landsetuliðsins er sláandi. Á meðan landsetumennirnir, sem búa þarna þvert á samþykktir S.þ. og alþjóðalög á borð við Genfarsáttmálann (sem Ísraelar hafa skrifað undir), hafa ísraelskan ríkisborgararétt, gnægð af vatni og geta ferðast óáreittir, lifa Palestínumenn innilokaðir og réttindalausir í eigin heimalandi.

Frá Ramallah hélt ég síðan í gengum Jerúsalem til Tel Aviv. Áður en ég fór inn í flugstöðina fór ég vel yfir allan farangur minn. Var eitthvað í honum sem öryggisverðir flugvallarins gætu tengt við dvöl mína á Vesturbakkanum? Ég hafði þurkað öll símanúmer úr farsímanum og sent myndir og bæklinga með pósti frá Jerúsalem. Öryggisverðirnir fóru gaumgæfilega gegnum allan farangurinn en fundu ekki neitt. Öryggiskoðunin tók því „aðeins“ um tvær klukkustundir.

Á leiðinni heim ákvað ég að fara sem fyrst aftur til Palestínu, og við þá ákvörðun ætla ég að standa. Ég get staðfest af eigin reynslu að sjálfboðaliðar geta gert heilmikið gang við að auðvelda Palestínumönnum lífið undir grimmilega hernámi Ísraela, sem í nú hefur staðið í heil 36 ár. Þessu hernámi verður hins vegar að linna strax … og við verðum öll að sameinast í baráttunni gegn því! Lifi frjáls Palestína!!

The Union of Palestinan Medical Relief Commities (UPMRC)

Samtökin voru stofnuð árið 1979 af palestínskum læknum til að efla heilsugæslu á herteknum svæðunum. Þau eru óháð yfirvöldum og ekki rekin í gróðaskyni. Hafa fengið margar alþjóðlegar viðurkenningar fyrir störf sín í hertekinni Palestínu, m.a. frá Alþjóðaheilbrigðisstofnun S.þ.

Vefsíða: upmrc.org

The International Solidarity Movement (ISM)

Alþjóðleg grasrótarsamtök sem hafa það markmið að vekja fólk til umhugsunar um frelsisbaráttu Palestínumanna og berjast gegn ísraelsku hernámi með friðsamlegum aðgerðum. ISM vinna að því að fá fólk víða að úr veröldinni til að heimsækja herteknu svæðin og starfa með palestínskum sjálboðaliðum.

Vefsíða: palsolidarity.org

Grassroot International for the Protection of the Palestinian People (GIPP)

Regnhlífasamtök ýmissa félagasamtaka sem vinna að því að fá erlenda sjálfboðaliða til starfa í Palestínu. Hafa starfað mikið með UPRMC og standa fyrir ýmsum námskeiðum og hjálparátökum til verndar palestínsku þjóðinni.

Vefsíða: www.pngo.net/en

An-Najah National University / Zajel Youth Exchange Program

Einn stærsti háskólinn á Vesturbakkanum. Rekur sögu sína sem menntastofnun allt aftur til ársins 1918, en varð að háskóla 1971. Þar eru um tíu þúsund nemendur.

Vefsíða: www.najah.edu (veljið „ Youth Exchange“ á forsíðunni til að fá upplýsingar um Zajel verkefnið)

Birtist í Frjáls Palestína.

Scroll to Top