Erfiðir tímar framundan í Palestínu

Hið svokallaða friðarferli hefur haft í för með sér að einu meginmarkmiði okkar félags og fleiri slíkra hefur verið náð, það er viðurkenningin á PLO, frelsissamtökum Palestínu. Því ber að fagna.

Enn eru þó mörg og stór mál óleyst. Þótt samkomulag hafi náðst til bráðabirgða um takmarkaða sjálfstjórn Palestínumanna er langt í land með að þeir njóti réttar síns sem sjálfstæð þjóð í eigin ríki. Sjálfstjórnin nær ekki til nema örlítils hluta landsins, e.t.v. um 5% – fimm prósenta þess lands sem Ísrael hafði hertekið. Hernámið drottnar enn á langstærstum hluta Vesturbakkans, þótt borgir og þéttbýliskjarnar hafi að mestu losnað við nærveru Ísraelshers. Ekki er herinn þó langt undan. Það er þó sannarlega fagnaðarefni að fólk skuli ekki hafa byssubranda yfir höfði sér hvert sem það fer. Nú geta börnin komist í skóla og út að leika sér, án þess að Ísraelskir hermenn séu á hverju horni miðandi vélbyssum að þeim.

Enn er Austur-Jerúsalem – höfuðborg Palestínu – hernumin, og Ísraelsstjórn sýnir engin merki um að ætla sér að skila henni aftur. Þvert á móti hefur verið aukið á þunga hernámsins með nýjum landnemabyggðum. Enn eru fleiri þúsundir pólitískra fanga í Ísraelskum fangelsum og fangabúðum. Enn hefur réttur palestínskra flóttamanna til að snúa aftur til sinna heimkynna ekki verið tryggður.

Það er því langt í land með að raunverulegu friðarsamkomulagi sé náð.

Fráfall Rabins forsætisráðherra, sem var myrtur af ofstækisfullum landa sínum, var reiðarslag fyrir Ísrael. Almenningur þar neyddist til að horfa í eigin barm og sjá með hryllingi það hatur og mannfyrirlitningu í garð nágranna, sem ríkjandi stjórnarstefna – zíonisminn – hefur alið af sér, og skiptir þá engu hvor meginflokkanna hefur verið við stjórnvölinn. Ekki er Ijóst hverjar afleiðingar dauði Rabins hefur í för með sér varðandi Palestínu. Hvort tveggja getur gerst, að bakfall verði í friðarferlinu og að ekki verði einu sinni staðið við þá takmörkuðu samninga sem þó hafa náðst. Hitt er líka mögulegt, að þau öfl í Ísrael styrkist sem rétta vilja fram sáttahönd svo ekki sé talað um að biðjast fyrirgefningar á glæpum og reyna að bæta fyrir brot sín gagnvart palestínsku þjóðinni.

Hvað sem þessum vangaveltum viðvíkur má Ijóst vera að Félagið Ísland-Palestína á sér hlutverk sem fyrr í að stuðla að réttlátri og friðsamlegri lausn á deilumálum í Austurlöndum nær.

Birtist í Frjáls Palestína.

  • Höfundur er læknir, formaður Félagsins Ísland Palestína (1991-2016) og heiðursborgari í Palestínu (frá 2015).

Scroll to Top