Vegvísirinn til friðar var kynntur af Bush fyrir nokkrum mánuðum eins og um einkaframtak hans væri að ræða, þótt hér væru á ferðinni sameiginlegar tillögur Rússlands, Evrópubandalagsins og Sameinuðu þjóðanna, auk Bandaríkjanna.Tillögurnar voru orðnar meira en ársgamlar þegar Bush dró þær upp úr vasanum eftir að hafa setið á þeim og tafið málin með alls kyns fyrirslætti og skilyrðum í þágu Ísraela. Eitt þeirra var að skipaður skyldi forætisráðherra palestínsku stjórnvaldanna sem var handvalinn af Ísraelsstjórn en ekki kosinn af Palestínumönnum. Mahmoud Abbas er virtur forystumaður, einn af stofnendum PLO, en nýtur ákaflega lítils fjöldafylgis sem fjaraði enn frekar út vegna tilkomu hans í embætti sem óskabarns Sharons og Bush.
Vegvísirinn byggir á ályktunum Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og er góðra gjalda verður, ef vilji er fyrir hendi til að fara eftir honum. Vegvísirinn felur í sér að binda endi á hernámið, en ísraelsk stjórnvöld sýna allt annað í verki. Friðartilburðir hefðu enda sýnt algera og ótrúverðuga hugafarsbreytingu að ræða af hálfu Sharons og þeirra herforingja sem stýrt hafa Ísraelsríki.
Alþjóðalög virt að vettugi
Sannleikurinn er sá, að grundvallarstefna zíonismans, sem er meira en hundrað ára gömul, er enn í fullu gildi. Landránið er í stöðugri framrás og „Oslóarárin, það er 1993-2000, voru engin undantekning. Landtökubyggðum fjölgaði og þær stækkuðu á sama tíma og Ísraelar þóttust vera að gera friðarsamninga sem heita átti að grundvölluðust á alþjóðalögum og ályktunum Öryggisráðsins, en samkvæmt þeim er öll landtaka ólögleg. Það á líka við um athæfi Ísraelsstjórnar og hernámsliðsins í heild gagnvart íbúum herteknu svæðanna og flóttafólki. Mannrán og morð, eyðilegging heimila, jöfnun ávaxta- og aldingarða við jörðu, alls slags hindranir á ferðafrelsi, hvers kyns hóprefsingar; allt eru þetta gróf brot á Fjórða Genfarsáttmálanum og öðrum alþjóðalögum um mannréttindi og mannúð. Eftir að Vegvísirinn var kynntur samþykktu Palestínumenn hann án fyrirvara en Ísraelar settu hundrað fyrirvara. Heita átti þó að þeir hefðu fallist á tillögurnar í stórum dráttum. Í ljós hefur komið að Sharon var engin alvara. Hann hefur líka stuðning stórs meirihluta Bandaríkjaþings í að virða friðartillögur að vettugi og halda áfram stríðinu gegn palestínsku þjóðinni.
76 felldir á tveim mánuðum í Hudna (vopnahléi)
Á tveim mánuðum frá því að Abbas, Bush og Sharon innsigluðu Vegvísinn í Aqaba í Jórdaníu í júní síðastliðnum og eftir að vopnaðar andspyrnuhreyfingar á herteknu svæðunum lýstu yfir einliða vopnahléi, Hudna, þann 29. júní, myrti Ísraelsher 76 manns. Flestir voru óbreyttir borgarar, þar á meðal sjö börn og fjórar konur. Á annað hundrað heimila hafa verið eyðilögð í tillitslausum sprengju- og skotárásum. Um 500 manns hefur verið rænt af Ísraelsher á sama tíma og ísraelsk yfirvöld hafa í sýndarmennsku látið lausa fanga sem flestir höfðu hvort sem var afplánað sinn dóm að mestu leyti. Sjá heimsíðu mannréttindasamtakanna www.miftah.org.
Aðskilnaðarmúrinn

Ef til vill er það vegna þess hve Vegvísirinn lá lengi í rassvasa Bush að í hann vantaði umfjöllun um þá ógn sem steðjar hvað mest að Palestínumönnum nú og gerir að engu möguleika á sjálfstæðu ríki Palestínumanna, en það er Aðskilnaðarmúrinn sem hefur verið í byggingu í rúmt ár. Ísraelar kalla hann öryggisgirðingu, en múrinn er tvisvar sinnum hærri en Berlínarmúrinn var nokkru sinni og verður þrisvar sinnum lengri, ef fram fer sem horfir. Múrinn og girðingarnar ná langt inn á Vesturbakkann, bæði vestan megin sem snýr að Ísrael og enn frekar austan megin sem snýr að Jórdaníu. Með múrnum eru Palestínumenn lokaðir af í nokkrum gettóum, sem eru sundurslitin hvert frá öðru. Það er jafnframt verið að ræna til viðbótar meira en helmingi alls lands Vesturbakkans, þá fyrst og fremst þeim svæðum sem eru gróðursælust og ríkust af vatni. Ef áætlanir Ísraelsstjórnar ganga eftir hafa Ísraelar endanlega lagt undir sig um 90% upphaflegs lands Palestínu. Þegar fram í sækir ætla þeir sér allt landið, því að í þessum aðgerðum felst þjóðernishreinsun, þótt hægar fari en í sumum öðrum tilvikum.
Ekki er öll von úti
Það er eins gott að horfast í augu við þann veruleika sem blasir við Palestínumönnum. Hann er sá að ekki er von á neinum raunhæfum friðarsamningum meðan Bush og Sharon eru við völd og stefna þeirra er ráðandi. Það er nánast útilokað að ríkisleiðtogar sem telja sig ofar lögum og sjá enga ástæðu til að virða ályktanir Sameinuðu þjóðanna setjist allt í einu að samingaborði og vinni að lausn mála sem byggir á alþjóðalögum, réttlæti og þar með varanlegum friði.
Öll von er þó ekki úti. Palestínska þjóðin hefur sýnt ótrúlega seiglu og úthald við ómennskar aðstæður. Sérhver ný uppfinning hjá hernámsliðinu til að brjóta andlegt þrek þjóðarinnar og kúga þá til uppgjafar hefur mistekist. Í stríði sem þessu er það úthaldið sem ræður úrslitum. Þrátt fyrir sívaxandi grimmd af hálfu Ísraelshers og landtökuliðsins er engan bilbug að finna á Palestínumönnum. Þeir vita að þeir hafa lögin og réttinn sín megin og þótt ofurvald Ísraelshers sé yfirgnæfandi þá mun réttlætið sigra að lokum.
Birtist fyrst í Frjáls Palestína.