Ég lifi fyrir Palestínu

Deilan fyrir botni Miðjarðarhafs snertir réttlætiskennd mína svo mikið að ég get ekki setið aðgerðalaus. Ég valdi námið til að læra leikreglurnar. Ég vil þekkja rétt minn og vera hæf til að meta málefnið faglega. Ég vil geta miðlað upplýsingum um þetta því ég tel að fjölmiðlar standi sig ekki í stykkinu. Það er ekki víst að ég fái að skrifa það sem ég vil, en ég vil gjarnan senda skilaboð um að ég er ekki palestínskur sjálfsmorðingi, heldur hef ég önnur úrræði.“

Þetta segir hin 23 ára gamla palestínskt ættaða Asta, nemandi á öðru ári í stjórnmálafræði við háskólann í Árósum. Hún er fædd og uppalin í Danmörku, á palestínskan föður, danska móður. Faðir hennar er fæddur í Palestínu en fjölskylda hans flúði til Líbanon þegar Ísraelsríki var stofnað. Land þeirra var tekið af þeim og þeim var lofað því að geta snúið aftur, en það hefur ekki enn verið uppfyllt. Foreldrarnir stóðu frammi fyrir þeirri ákvörðun að vera um kyrrt og berjast – eða flýja. Þau völdu að flýja, barna sinna vegna. Faðir Asta bjó í flóttamannbúðum til fullorðinsára, þegar hann flutti til Berlínar til að mennta sig. Þar hitti hann móður Asta. Foreldrar hans og fjölskylda búa ennþá í flóttamannabúðunum í Líbanon en eru ekki með ríkisborgararétt þar, og hluti af fjölskyldunni er búsett í Sýrlandi og er með sýrlenskan ríkisborgararétt. Flóttamannabúðirnar voru settar upp tímabundið en eru orðnar varanlegar, einskonar sjálfstæð samfélög. Þær eru eins og lítill bær með búðum og götum. Það er mikið atvinnuleysi og vinnan er öll utan búðanna. Palestínumönnum er mismunað, að sögn Asta eru þeir hin nýja undirstétt, líkt og nýbúarnir í Danmörku. Foreldrar föður Asta lögðu mikla áherslu á menntun hans og hann var sendur í menntaskóla, sem er ekki algengt. Lífið í flóttamannabúðunum var ekki létt, hann vann frá unga aldri og honum var strítt. Hann þurfti að þola mikið áreiti, verkefnin hans voru tekin af honum á leið í skólann og þau rifin í búta.

„Pabbi minn hefur mikið rætt um Palestínu við mig og systkini mín. Þetta snertir hann mikið. Ísrael hefur lokað landamærum sínum fyrir Palestínumönnum og fólki með palestínskar rætur. Svo pabbi kemst ekki inn í heimalandið sitt. Ég hef orðið vitni að því að hann bresti í grát þegar hann sér landið sitt. Ég skil hann vel, honum hefur alla tíð fundist vera gefinn skítur í sig. Ástandið hefur gersamlega brotið hann niður. Ég er ekki sammála honum í einu og öllu en ég skil hann vel. Ég hef aðrar forsendur en hann, er ekki brennimerkt þessu á eigin skinni og ég nálgast þessa baráttu á öðrum forsendum. Það er mikið lagt upp úr því í minni fjölskyldu að koma vel fram við aðra og ég vil leggja mitt af mörkum til að bæta stöðuna, ekki bara í Palestínu heldur líka almennt. Palestínudeilan er samt það málefni sem ég lifi fyrir.“

Mig langar til að biðja þig um að meta málefnið útfrá annars vega fræðilegu sjónarhorni og hins vegar út frá tilfinningum þínum sem Palestínumaður. Ef við byrjum á fræðilegum nótum, um hvað snýst deilan að mati þínu sem fræðimaður?

„Lýðræði. Sumum er hent út úr landinu sínu, öðrum leyft að vera. Þetta er líka spurning um siðferði. Staðan er í dag spurning um hvernig fáum við þetta til að hanga saman og virka. Sem stjórnmálafræðingur getur maður verið ósammála. Það hefur vissulega miklum tíma og kröftum verið varið í þetta málefni hjá Sameinuðu þjóðunum, sáttmálar samþykktir sem svo er ekki farið eftir. Hvað á að nota NATO í fyrst það er gengið fram hjá þessum sáttmálum? NATO er ótrúverðugt og heimurinn líka.“

Hvernig hefur heimurinn tekist á við þetta vandamál, hvernig er aðkoma hans að málefninu?

„Lausnin er pólitískur vilji en hann vantar frá öllum aðilum. Það hefur ekki verið tekið á þessu, þetta er svona „non-decision area“. Deilan er ekki rædd á réttum forsendum eins og hvar landamærin eigi að vera eða hvenær nákvæmlega þeir dragi sig til baka. Ég hef það á tilfinningunni að allir aðilar viti um hvað þetta snýst. Alþjóðlegir aðilar vita það sennilega betur en hinn venjulegi Dani eða Ísraeli, en þora ekki að taka skrefið til fulls og taka ákvarðanir. Þeir eru pólitískt bundnir, NATO er bundið Bandaríkjunum sem aftur er undir sterkum áhrifum gyðingalobbísins. Og þegar öllu er á botnin hvolft þá stjórna Bandaríkin þessu.“

Hver er ástæðan fyrir þessum ákvarðanatökum í deilunni?

„Þetta snýst um samviskubit gagnvart gyðingum, en líka um að standa vörð um hagsmuni. Frakkar og Bretar viðurkenna ekki mistök sín og eru að reyna að halda andlitinu yfir þessu. Það gerist ekkert raunverulegt fyrr en Bandaríkin hætta að styðja Ísrael, en þá kæmist líka skriður á hlutina.“

Er sagan að endurtaka sig?

„Já það er þversögnin í þessu. Palestínumenn verða fyrir kerfisbundu áreiti. Það voru nokkrir sem tóku upp á myndband þegar verið var að áreita þau og einn fulltrúi gyðinga sagði að þetta væri einmitt það sem gerðist í helförinni. En fólk vill ekki líkja þessu saman. Af því að það er ekki verið að setja Palestínumenn í eiginlegan gasklefa.“

Er þetta þjóðarmorð?

„Það er mjög róttækt að fullyrða það í stjórnmálafræðiheiminum, það má ekki segja það á þennan hátt. Það má hreinlega ekki hreyfa við helförinni.“

En það á að spyrja erfiðra spurninga í akademíunni og ef maður gerir það, er þá hægt að fullyrða að þetta sé þjóðarmorð?

„Já algerlega, það er ekki kerfisbundið verið að hreinsa eða þurrka út Palestínu en þeir eru neyddir til að flýja eða búa á vissum svæðum og áreittir þar sem þeir eru svo jú, það má segja að þetta sé þjóðarmorð. En reynsla mín er sú að ef maður fullyrðir það er maður ekki tekin alvarlega í akademíunni. Það virðist vera of róttækt og umdeilt að líkja þessu saman.“

Má ekki snerta þetta svæði í akademíunni?

„Nei. Og fólk virðist nefnilega ekki alveg gera sér grein fyrir hversu alvarlegt ástandið er. Það eru fáir sem hafa þetta sem sérgrein, þetta er kannski ekki spurning um að menn séu hræddir við að segja þetta, frekar snýst þetta meira um skort á vitneskju.“

Og hver er lausnin á deilunni, að mati þínu sem fræðimaður?

„Á raunsæisnótum þá er það tveggja ríkja lausn. Ég hef ekki trú á því að Palestínumenn og Ísraelar geti búið saman í einu ríki. Palestínumenn verða að fá viðurkenningu í einhverju formi, meiri lífsgæði, og að þeir finni fyrir því að þeir séu borgarar í eigin ríki. Þessar viðurkenningar verða að koma frá Ísrael. Ég tel 1948 stöðuna of bjartsýna, en það er erfitt að átta sig á hvar landamærin eiga að liggja. Ég átta mig ekki á hvað Ísrael væri til í að teygja sig langt, þeir eiga erfitt með viðurkenningar. Og það er of mikill kuldi og gagnkvæm óvild til að eitt ríki gæti orðið að veruleika. Kannski er líka erfitt fyrir Palestínumenn að greina milli Ísraelsríkis og Ísraela sjálfra, hvað ríkið hefur gert þótt einstaka gyðingur hafi ekki gert það. Bæði gyðingar og Palestínumenn eru reiðir hverjir út í aðra. Það er of mikil reiði í gangi. Of mikið persónulegt hatur. Og það vantar þessa gagnkvæmu skuldbindingu sem er nauðsynleg í ríkiskerfinu, ef um væri að ræða eins ríkis lausn.“

Mig langar núna til að spyrja þig sem Palestínumann, hvaða orð notarðu fyrir tilfinningar þínar gagnvart þessari deilu?

„Óréttlæti. Við höfum virkilega verið svikin. Allur heimurinn hefur snúið við okkur baki. Heiminum er skítasama um okkur, ólívutrén okkar, menningararf okkar . . . mér finnst við vera hunsuð. Það finnst mér erfitt. Að vera algerlega virt að vettugi.“

Hvað með tilfinningar eins og reiði og hatur?

„Hatur gagnast mér ekki og leiðir ekki til neins. Ég bý á Vesturlöndum en pabbi minn, sem er alin upp á þessu svæði, er hatursfullur. Hann sér ekki fram á veginn; eins og margir Palestínumenn er hann blindaður af hatri, enda verið innprentað það frá æsku. Það gerir aftur að verkum að mér finnst þeir ekki geta staðið saman um það sem raunverulega skiptir máli. Að upplýsa heiminn, það vantar ekki samúð gagnvart Palestínumönnum en þeir nýta það ekki til fullnustu sjálfir. Ég reyni að forðast hatur en það eru margir sem hafa þá tilfinningu.“

Hvað gerist inni í þér þegar þú heimsækir fjölskyldu þína í flóttamannabúðirnar í Líbanon eða hugsar til þeirra?

„Ég er ekki með samviskubit. Ég er vel sett í mínu lífi og það er vel. Við fjölskyldan hjálpum þeim eins og við getum, fjárhagslega og á annan hátt. En ástandið hefur mikil áhrif á mig, fátæktin og hvernig þetta líf er bara barátta og ekkert annað. Ég verð leið og finn til samúðar.“

Vonleysi?

„Já séstaklega utan Palestínu. En innan hennar er von. Flóttamennirnir koma aldrei tilbaka. Vonin um að snúa aftur fær fólk til að fara á fætur á morgnanna, vonin er þar en ég tel þessa von ekki raunsæja. Þessi von hindrar fólk t.d. í að sækja um ríkisborgararétt í þeim löndum sem þau eru í, Jórdaníu, Líbanon, því það er eins og að segja „Við förum aldrei til baka.“ En ríkisborgararétti fylgja jú réttindi sem þau hafa svo ekki fyrir vikið. Ég skil þau á vissan hátt en þetta er óraunsætt . . . Svo það er tekist á við þetta vandamál á röngum forsendum. Og það er einmitt það sem mér finnst vera einkenni á nálguninni að þessum hlutum, að beina orkunni í rangan farveg, eins og að einbeita sér að baráttuefni eins og afneitun helfararinnar. Þetta snýst jú um að Palestínumenn fái að hafa það betra, en fókusinn er mikið á röngum forsendum að mínu mati. Þetta er vörn, en í staðinn fyrir að bregðast alltaf bara við, þá ætti að taka frumkvæðið, snúa vörn í sókn. Arafat notaði þá strategíu í lokin og ég hef það á tilfinningunni að það hafi skapað meiri jákvæðni.“

Væri einhver fréttaflutningur ef þessi sjálfsvarnaruppreisn væri ekki í gangi? Hvernig telur þú að eigi að höndla þessa baráttu?

„Fólk kastar steinum eða gerir sjálfsmorðsárásir vegna þess að því finnst það ekki hafa neina aðra valkosti, val þess stendur milli þess að gera þetta eða liggja heima og gera ekkert… En mér finnst að við ættum að reyna að nota fjölmiðla öðruvísi, við Palestínumenn utan Palestínu til dæmis, upplýsa um ástandið, reyna að tala máli þeirra. Ein lausn væri til dæmis að skrásetja hvernig lífið er og þetta ofbeldi sem er í gangi gegn Palestínumönnum. Skrásetja eigin sögu, útvega sönnunargögn. Það er verið að hrækja á Palestínumenn í orðsins fyllstu merkingu. Og í augnablikinu hefur þú til dæmis bara mín orð fyrir því.“

Hvernig standa arabalöndin sig gagnvart Palestínu?

„Tilfinningin er að þau hafi svikið líka. Það hefur eiginlega enginn áhuga á að hreyfa við þessu málefni, það er of eldfimt pólitískt séð. Þetta er jafnvægisspil, af því að þeir vilja líka gott samband við Vesturlönd, sem þýðir líka við Ísrael. Löndin í kring vilja hjálpa Palestínu og þau standa með þeim en þetta er svo pólitískt og þau leggja ekki í þá baráttu.“

Er þetta eins og „við og þau“ eða er þetta eins og fjölskylda?

„Nei upplifunin er sú að maður stendur einn í baráttunni og að þetta sé ekki ein fjölskylda. Og maður er svikin frá öllum hliðum og það er erfiðara þegar það eru „manns eigin“. Þetta er svo mikið jafnvægisspil fyrir hina, eins og sýndi sig þegar Ísrael réðist á Líbanon, að ef maður færir sig upp á skaftið við Ísrael þá fær maður það margfalt aftur til baka. Það er kannski erfitt að álasa löndunum í kring fyrir að standa ekki nægilega með Palestínu þegar þeim er refsað fyrir það, en það er alla vega hægt að álasa þeim fyrir ómannúðlega meðhöndlun í flóttamannabúðunum.“

Finnurðu fyrir fordómum gagnvart Palestínu í fjölmiðlum eða hjá hinum venjulega Dana, eða einhverju sem þér finnst þú þurfa að réttlæta eða leiðrétta?

„Mér finnst samúðin liggja hjá Palestínu á Vesturlöndum en fjölmiðlar sýna mjög skerta mynd af ástandinu. Það er t.d. mikill munur á Al-Jazeera og dönsku sjónvarpsstöðinni TV2. Það vantar meiri blæbrigði hjá fjölmiðlum á Vesturlöndum, eins og þegar fjallað er um Hamas sem hryðjuverkasamtök af því að Bandaríkin og Evrópusambandið eru með þau á einhverjum lista, en það vantar að segja frá félagslegu hreyfingunni Hamas, sem hefur hjálpað samfélagslega séð sem einskonar hjálparstofnun og stutt mikið við bakið á Palestínumönnum. Það vantar líka að gagnrýna lýðræðisvinkillinn – við biðjum Palestínumenn um að taka þátt í lýðræðisferli, að kjósa, en svo velja þeir „rangan“ aðila og þá er allt fjármagn til Palestínu fryst. Þarna finnst mér vera upplýsingaskortur, að fjalla um hlutina frá fleiri hliðum og setja spurningamerki við það sem er að gerast. Ég held að Vesturlandabúar átti sig ekki á hversu alvarlega er verið að áreita Palestínumenn, konur þurfa að fæða við eftirlitshliðin af því þær fá ekki að fara í gegn! Það er heldur ekki fjallað um hvað fær lítinn dreng til að sprengja sig í loft upp. Fjölmiðlar hafa brugðist hlutverki sínu og ég álasa þeim eiginlega mest. Venjulegt fólk veit ekki hvað er í gangi, og þegar ég segi þeim frá því þá heyri ég iðulega: „Ertu nú alveg viss um að þetta sé svona alvarlegt?“ Ég held að við þurfum að gera okkur betur grein fyrir því hvaða kostnað það hefur haft í för með sér, að fólki hafi verið hent út úr landinu sínu. Og það myndi hjálpa ef fjölmiðlar stæðu sig betur. Skilninginn vantar og mér finnst ég endalaust þurfa að útskýra alvöru málsins, því fólk trúir því ekki að ástandið sé eins slæmt og það er. Ég þarf að réttlæta að ég sé Palestínumaður, á einhvern hátt þyki ég ekki eins trúverðug vegna þessa, sama hversu fagleg ég reyni að vera.“

Og þú hefur ákveðið að helga þig baráttu Palestínu?

„Já. Ég er fædd og uppalin í Danmörku. En ég er líka Palestínumaður. Þetta er einskonar missjón fyrir mig, og reyndar okkar systkinanna allra, mjög áleitið efni, verkefni sem ég ætla að helga mig. Við systkinin förum diplómatískar leiðir, við höfum efni á því en pabbi er sennilega of brennimerktur. Einn bróðir minn er núna í starfsþjálfun, tengdu stjórnmálafræðinámi hans, í sendiráði Dana í Ramallah. Og ég valdi stjórnmálafræðina til að geta notað hana sem faglegan grunn fyrir þessari missjón minni. Þannig tel ég að ég verði hæf til að meta ástandið faglega – og miðla því faglega, því eins og ég sagði, mér finnst vanta faglega umfjöllun um það sem er að gerast, meiri blæbrigði og út frá öðrum og fleiri hliðum og sjónarhorni. Ég vil að heimurinn átti sig á hvernig hið raunverulega ástand í Palestínu er, hversu alvarlegt það er, og þar ætla ég að beita mér.“

Um leið og við Asta kveðjumst segir hún og brosir til mín: „Það hefur verið áskorun fyrir mig að koma tilfinningum mínum um Palestínu í orð!“

Birtist í Frjáls Palestína.

Höfundur

Scroll to Top