Eva Líf Einarsdóttir starfaði sem sjálfboðaliði á vegum Félagsins Íslands-Palestínu við ungmennamiðstöð Union of Palestinian Medical Relief Committies (UPMRC) í janúar og febrúar árið 2003. Alls dvaldist Eva einn mánuð í Palestínu og auk þess að starfa í Ramallah kynnti hún sér ástand mála á öðrum stöðum á Vesturbakkanum. Varð hún m.a. vitni að einni stærstu eyðingarherferð Ísraelshers í þorpinu Nazlat Issa þegar hernámsliðið eyddi þar yfir 60 verslunum og íbúðarhúsum. Hún tók þátt í uppbyggingarstarfi í Jenin flóttamannabúðunum og heimsótti þorpin Anin og Barta’ah þar sem þúsundir manna eru að missa lífsviðurværi sitt vegna byggingar Aðskilnaðarmúrsins sem skilur þorpsbúa frá bújörðum sínum. Hér grípum við niður í tölvupóstsendingar Evu frá Palestínu.
Miðvikudagurinn 15. janúar

Ég hef verið að vinna að ýmsum verkefnum í ungmennamiðstöð UPRMC hér í Ramallah. Í gær sat ég fund með ýmsum aðilum sem koma að rekstri ungmennamiðstöðvarinnar og hitti meðal annars Dr. Mustafa Barghouthi, forseta UPMRC og stjórnanda Health, Development, Information and Policy institute (HDIP). Síðan átti ég fund með ungmennum sem töluðu við mig um ástandið í Ramallah og það sem þau höfðu gengið í gegnum … og það er sko ekkert lítið! Síðan ég kom hingað til Palestínu á sunnudaginn hafa 15 Palestínumenn verið drepnir og tugir fangelsaðir.
Í dag fór ég til Kober, sem er lítið þorp fyrir utan Ramallah, og fór í gegnum sömu eftirliststöðvar Ísraela og palestínskir stúdentar Birzeit háskóla þurfa að fara í gegnum til að sækja nám sitt. Er núna að vinna að enskunámskeiðum fyrir unga palestínska sjálfboðaliða sem starfa fyrir UPRMC. Megintilgangur kennslunar er auðvelda þeim samskipti við erlenda sjálfboðaliða. Ég gisti hjá Hadeel, sem er stúdent við Birzeit háksólann og vinnur sem sjálfboðaliði fyrir UPRMC, og býr með tveimur systrum sínum og bróður.
Föstudagur 17. janúar
Það er komið miðnætti í Palestínu…
Því lengri tíma sem ég dvel hér, því meira kynnast ég fólkinu hér. Fólki sem er búið að upplifa hluti sem eru okkur svo fjarlægir … maður hefur fylgst með atburðum í fjölmiðlum, en þegar maður er staddur hér þá finnst mér eins og ég sé virkilega farin að skilja (þó þær séu í raun óskiljanlegar) hörmungarnar sem hér eru í gangi.
Þegar ég er spurð hvernig ástandið er hérna þá verða sumir hálf hissa (sérstaklega fjölmiðlar) þegar ég segi að ástandið hér í Ramallah sé betra en annars staðar í Palestínu. Það eru ekki hermenn á skriðdrekum úti um alla borg o.s.frv. En þegar ég segi betra er ég ekki að meina að ástandið sé í lagi. Ímyndaðu þér að í kringum alla Reykjavík séu eftirlitsstöðvar hermanna, að þú sem býrð í Kópavogi megir ekki fara að heimsækja ættingja þína í Reykjavík. (…) Að þegar þú ferð í háskólann þurfir þú að fara í gegnum eftirlitsstöðvar þar sem byssum er beint að þér á meðan þú sýnir skilríki um hver þú ert og þú getir verið auðmýkt/ur á allan hátt af hermönnunum. (…) Að hermenn ráðist inn á heimili þar sem móðir og börn eru heima, taka níu ára gamalt barn inn á klósett, setja það ofan í baðkarið, sprauta köldu vatni yfir það og beina byssum að höfði barnsins. Þeir vilja vita hvar faðirinn er, sem barnið veit ekki. Hermennirnir segjast koma fljótlega aftur og barnið getur ekki talað eða gert klósettþarfir sínar lengi eftir atburðinn.
Það er margt, sem á beinan eða óbeinan hátt hefur komið fyrir fókið sem ég bý hjá hér í Ramallah. Þetta sjáum við kannski ekki í sjónvarpinu, en þetta er hræðilegt! Ástandið er ekki gott …. ekki neins staðar í Palestínu … og það verður það ekki fyrr en að þessum mannréttindabrotum, drápum og viðbjóði linnir!
Þótt ótrúlegt sé þá getur ein venjuleg manneskja eins og gert mikið fyrir palestínska fólkið, það finn ég. Við úti í heimi gefum þeim von með okkar stuðningi og hann er hægt að sýna með ýmsu móti. Ég geri mér grein fyrir því að þetta bréf er kannski dramatískt, en þetta er bara raunveruleikinn og að skrifa er það eina sem ég get núna til að létta af mér. Því sorgin náði mér í kvöld.
Sunnudagur 19. janúar

Er á Internet kaffihúsi í Jenin. Ferðin hingað gekk bara vel, lögðum af stað frá Ramallah um klukkan átta í morgun, fórum á Kalandia varðstöðina og þar var lokað í hálftíma af „ókunnum ástæðum“ og síðan tók tvo tíma að komast hingað til Jenin sem þykir mjög góður tíma þar sem fimm eftirlitsstöðvar eru á leiðinni. Við sögðumst vera á leiðinni til Ameríska háskólans í Nazareth (sem er Ísraelsmegin landamæranna), fórum og hittum dr. Jamil og síðan til Anin sem liggur hér fyrir utan og er alveg upp við Aðskilnaðarmúrinn. Sátum og töluðum við þorpsráðið og fórum þar sem þeir eru að byggja vegginn. Þetta er rosalegt!
Laugardagur 25. janúar
Halló kæru vinir!
Er nú í Nablus, nánar tiltekið í Balata flóttamannabúðunum. Hér búa um 18.000 manns í niðursprengdum húsum, hér eru þrengsli og hreinlæti ekki upp á sitt besta. Það ríkir útgöngubann, en fólk er samt á ferli … það er búið að búa við þetta ástand svo lengi. En þegar herjepparnir og skriðdrekarnir koma inn í búðirnar hlaupa allir í skjól.
Í gær drápu hermennirnir konu um sextugt og 22 ára ungan mann, en þau voru í bíl að fara á milli þorpa hérna í kring. (…) Jæja, ætla að fara lesa og búa um mig hér á annari hæð í svokölluðu Titi-húsi. Fjölskyldan á fyrstu hæðinni heitir Titi og þar sem herinn er með húsið á lista yfir hús sem á að eyðileggja sjá International Solidarity Movement (ISM) samtökin um að fá erlenda sjálfboðaliða til að gista í húsinu. Það minnkar líkurnar á að herinn láti til skarar skríða.
Góða nótt og njótið friðarins í kringum ykkur!
Fimmtudagur 30. janúar
Í dag átti ég mjög yndislegan dag!
Ég fór til Jerúsalem snemma í morgun og þaðan til Betlehem. Ég byrjaði á því að fara í Fæðingarkirkjuna, sem er mjög falleg kirkja frá 5. öld, og fór niður í kjallarann þar sem upphaflega hlaðan sem Jesú á að hafa fæðst í er. Ég er nú ekki trúuð, en verð að viðurkenna að þarna var trúin sem næst mér. Það var mjög sérstök tilfinning að vera þarna. Þar sem Ísraelarnir sitja um borgina voru ekki margir ferli og fáir túristar á svæðinu.
Eftir heimsókn í kirkjuna var ferð minni heitið í barnaþorp SOS í Betlehem. Þar býr Rajiha, tæplega fimm ára yndisleg stúlka sem ég og Eldar höfum styrkt í tæp 3 ár. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað ég var spennt að hitta hana eftir að hafa séð af henni myndir og lesið um hana í bréfum. Hún var rosalega ánægð að sjá mig og sat í fanginu á mér og spjallaði alveg heilmikið við við mig (á arabísku auðvitað). Ég skildi nú ekki mikið af því sem hún var að segja, en SOS „mömmurnar“ þýddu eitthvað af því sem okkur fór á milli.
Í þessu þorpi búa um 80 börn. Þarna eru nokkur hús og í hverju þeirra búa 6–9 börn ásamt einni „mömmu“ . Þessar „mömmur“ eru allar menntaðar og þurfa þar að auki að búa sem „frænkur“ í tvö ár í þorpinu áður en þær geta orðið „mömmur“ . Þær sjá um börnin í sínu húsi, og það er reynt að hafa þetta persónulegt. Mér fannst aðbúnaðurinn þorpinu mjög góður og það gladdi mig að vita af Ruru (eins og Rajiha vill láta kalla sig, hún er mjög sjálfstæð) í góðum höndum. Mér var boðið að borða með börnunum, Ruru sýndi mér kort og smágjafir sem við höfum sent henni og það er greinilegt að lítið þarf til að gleðja. Hún sagði mér svo að endilega koma aftur þegar hermennirnir væru farnir frá Betlehem, mjög meðvituð um ástandið semsagt. (…) Það er sorglegt að hugsa til þess að rétt fyrir ofan SOS þorpið liggur ólögleg landsetubyggð gyðinga, og þaðan er reglulega skotið á þorpið og aðrar byggðir Palestínumanna í grenndinni.
Þessi heimsókn var svo sannarlega einn af hápunktum dvalar minnar hérna í Palestínu. Frekari upplýsingar um starf SOS barnaþorpanna, sem eru með starfsemi um allan heim, má finna á vefsíðunni www.sos.is og ég vil hvetja ykkur sem getið séð af tvö þúsund kalli á mánuði til að kíkja á þetta (ein alltaf að markaðsetja 😉
Hafið það rosalega gott!
Þriðjudagur 11. febrúar
Jæja, þá er maður komin „heim“ til Svíþjóðar…
Þetta er búin að vera löng og mikil ferð og sannkölluð lífsreynsla. Síðustu vikuna mína fór ég í heimsókn í nokkur þorp þar sem fátækt er fremur mikil. Ég var á ferð með Alberto, ítölskum vini mínum sem er trúður og heldur sýningar fyrir börn víðsvegar um Palestínu. Ég fór með honum í skóla í þessum þorpum og á meðan hann hélt sýningu fyrir yngri börnin fór ég inn í eldri bekkina og ræddi við nemendurnar og svaraði spurningum þeirra með hjálp túlks. Alberto er alveg frábær og það er gaman að sjá hversu glöð og kát börnin urðu á sýningum hans.
(…)
En að heimkomunni. Ég var frekar stressuð á heimfarardaginn yfir „yfirheyrslunum“ sem biðu á flugvellinum. Ég kom tímanlega á völlinn, beið í röð til að komast í innritun. Þá kemur ung kona og maður til mín og biðja mig um að koma með sér. Þau byrja svo spurningaflóðið. … og úps, komu dálítið mikið af lygum út úr mér….en það er nauðsynlegt við og við 🙂 Hvar hefur þú verið, hefur þú hitt einhvern, hvenær pakkaðirðu, hvar bjóstu, hvert fórstu, hvar bjóstu … spyrja sumra spurninga aftur og aftur (…) Ég komst hins vegar í gegnum þetta og eftir millilendingu í Frankfurt komst ég loksins til Gautaborgar.
Birtist í Frjáls Palestína.