Mánudagsins 8. október 1990 verður minnst í sögu Palestínumanna sem Haram al-Sharrf blóðbaðsins, þegar ísraelskir hermenn skutu til bana a.m.k. 21 Palestínumenn og særðu um 900 manns í Jerúsalem við eitt af helgustu véum íslams. Þetta var skæðasta staka ofbeldisaðgerð Ísraelsmanna á herteknu svæðunum frá byrjun hernámsins, þ.e. á 23 árum.

Þetta blóðbað verður skráð í svörtu bók annarra álíka hryðjuverka gegn palestínsku þjóðinni ásamt atburðunum í Deir Jassin, Kufr Qassem, Qibije, Sabra og Shatila, Rishon Lezion og mörgum fleirum. Þegar haft er í huga hvers konar ríkisstjórn er við völd í Ísrael og miðað við reynslu af grimmd ísraelskra hernámsliðsins, er líklegt að þetta verði ekki síðasta blóðbaðið.
Viðbrögð bandarískra yfirvalda við blóðbaðinu hafa verið skammarleg. Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, James Baker, talaði um „harmleik“ eins og náttúruhamfarir hefðu valdið dauða Palestínumannanna. Forseti Bandaríkjanna, Bush, sagðist vera „hryggur“ vegna drápanna og skoraði á Ísrael „að beita sér fyrir auknu aðhaldi“ og „vera betur viðbúið“. Betur viðbúið til hvers? Til að ráða betur við Palestínumenn? Viðbrögð þessi eru í augljósu misræmi við hörkuleg viðbrögð Bandaríkjanna gegn Iraq. Sama misræmis gætti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Þar unnu Bandaríkin hratt og fengu samþykktar innan fárra daga frá innrásinni harðar ályktanir sem fordæma Iraq og heimila viðskipta og hafnbann á Iraq. Þegar blóðbaðið í Jerúsalem var lagt fyrir Öryggisráðið, lögðu fulltrúar Bandaríkjanna sig í líma við að tefja afgreiðslu mála í fimm daga til að koma í veg fyrir ályktun sem kallað hefði á aðgerðir til verndar Palestínumönnum undir hernámi.
Bandaríkin studdu að lokum ályktun sem fordæmir „ofbeldisverk sem ísraelskir hermenn höfðu framið“. En ályktun nr. 672 gerir aðeins ráð fyrir að kanna atburðina. Hún gerir hvorki ráð fyrir refsiaðgerðum né fyrir því að Sameinuðu þjóðirnar fái umboð til að vernda Palestínumenn fyrir árásum ísraelskra dáta. Gert var ráð fyrir að aðalritari Sameinuðu þjóðanna fái að senda rannsóknarnefnd til Jerúsalem. Reynsla undanfarinna áratuga sýnir að árangur af slíkum rannsóknum er enginn.
Fjórði Genfarsáttmálinn um vernd óbreyttra borgara á stríðstímum (1949) krefst þess af hernámsyfirvöldum að þau meðhöndli íbúana manneskjulega. Yfirgnæfandi meirihluti aðildarríkja, þ.m.t. Bandaríkin, telja að Genfarsáttmálinn gildi á herteknu svæðunum í Palestínu. Eina ríkið sem neitar að viðurkenna gildi sáttmálans og framfylgja ákvæðum hans þar, er Ísrael.

Meðal þeirra mannréttindabrota sem sáttmálinn bannar, eru brot sem skilgreind eru sem „alvarleg brot“. Þeir sem fremja slík brot eða gefa skipanir um að fremja þau eru skilgreindir sem „stríðsglæpamenn“ og þá ber að lögsækja.
Alvarleg brot samkvæmt Genfarsáttmálanum eru t.d.: Brottrekstur íbúa frá herteknum svæðum, eyðilegging húsa og annarra fasteigna, pyntingar og önnur grimmdarverk á fólki, varðhald án dóms og laga, hóprefsingar. Ísraelsk yfirvöld eru sek um að hafa skipað hermönnum aftur og aftur að fremja öll þessi brot síðan hernámið hófst fyrir 23 árum. Frá byrjun Intifada (uppreisnarinnar), 9. des. 1989, hefur brotunum fjölgað verulega.
Ísraelskir hermenn, stjórnmálamenn eða óbreyttir borgarar sem hafa framið eða heimilað alvarleg brot á Genfarsáttmálanum eru stríðsglæpamenn. Það er skylda allra ríkja samkvæmt alþjóðalögum að beita sér gegn þeim. Stórblaðið The Sunday Times sem gefið er út í London sagði 14. okt. s.l.: „Lögmenn á Vesturlöndum sem vinna fyrir Alþjóða samtök lögmanna (Genf), eru að safna sönnunargögnum gegn lögregluforingjum sem tóku þátt í blóðbaðinu í Jerúsalem, með það fyrir augum að lögsækja þá í samræmi við Genfarsáttmálann“.
Slík lögsókn er ekki aðeins æskileg í sjálfu sér sem eðlilegt réttlætismál og í samræmi við lög; hún myndi auk þess veita aukna vernd, sem Palestínumenn sárvantar. Ísraelskir hermenn myndu hika við að beita kylfum gegn börnum, kasta táragasi inn í heilsugæslustöðvar eða skjóta unglinga í bakið, ef þeir vissu að þeir gætu átt yfir höfði sér alþjóðleg réttarhöld fyrir stríðsglæpi.
Það sem er hins vegar enn meira aðkallandi nú, er að senda alþjóðlegar friðargæslusveitir til herteknu svæðanna með það fyrir augum að vernda óbreytta Palestínumenn sem þar búa gegn ísraelskum lögreglu- og hermönnum. Vestræn ríki verða að finna leið til að sniðganga bandarískt neitunarvald gegn friðsamlegri vernd handa Palestínumönnum. Stefna Bandaríkjanna virðist háð þrýstihópum bandarískra gyðinga, sem halda bandarískri utanríkisstefnu í gíslingu. Evrópuþjóðir verða þá að huga að vernd handa Palestínumönnum til að koma í veg fyrir áframhaldandi ofbeldisverk og til þess að Palestínumenn fái notið réttar síns til sjálfsákvörðunar og til eigin ríkis í sínu eigin landi.
Birtist í Frjáls Palestína.
