BDS

Landránsbyggðir Ísraelsmanna á Vesturbakkanum og í Gólanhæðunum eru ólög­legar samkvæmt fjórða Genfarsáttmálanum og alþjóðlegum mannúðarlögum

Landránsbyggðirnar eru hluti af kerfisbundinni aðför Ísraelsríkis að palestínsku þjóðinni sem hefur mátt þola hernám og aðskilnaðarstefnu í meira en sjötíu ár. Genfarsáttmálinn kveður á um að hernámsveldi sé óheimilt að nýta auðlindir hinnar hernumdu þjóðar og einnig að flytja eigin þegna til búsetu á hernumdu landi. Ísrael viðurkennir í engu rétt Palestínumanna til að starfa eða búa í eigin landi, og gengur sífellt lengra í þjófnaði á landi og brottrekstri hinna löglegu eigenda.

Liður í baráttunni gegn hernámi og arðráni Ísraels á eignum og landi Palestínu er að hindra eða banna viðskipti með vörur frá landránsbyggðunum. Sú barátta fer fram undir merkjum BDS-hreyfingarinnar, sem miðar að sniðgöngu, fjárfestingabanni og efnahagsþvingunum gegn Ísrael, Boycott, Divestment, Sanctions. Finnska þingið hefur rætt slíkt bann og Öldungadeild írska þingsins samþykkti viðskiptabann en efri deildin hefur ekki afgreitt málið. Ekkert ríki í Evrópu hefur enn samþykkt viðskiptabann en þrettán ESB-ríki ásamt Noregi hafa sam­þykkt að landránsvörur skuli merktar sem slíkar og níu önnur bandalags­ríki eru að vega og meta slíka aðgerð.

Í Evrópu starfa samtökin Stop the Settlements sem stefna að því að ESB banni öll viðskipti með vörur frá ólöglegum landráns­byggðum Ísraela. Í lögum ESB segir að ef ein milljón íbúa í bandalaginu undir­riti áskorun um aðgerð þá beri framkvæmdaráði ESB að skoða lagasetn­ingu sem aðstandendur að­gerðanna fara fram á. Yfir eitt­ hundrað almenningssamtök hafa fylgt sér að baki áskoruninni um viðskiptabann gegn landránsbyggðunum og þau þurfa að skila listum með milljón undirskriftum fyrir 20. febrúar 2023.

Það hefur ekki gengið átakalaust að vinna að framgangi þessarar áskorunar. Framkvæmdaráð ESB úrskurðaði 2019 að ráðið hefði ekki völd til þess að ákveða viðskiptabann. En í maí 2021 úrskurðaði Mannréttindadómstóll Evrópu að niðurstaða framkvæmdaráðsins væri röng og söfnun undirskrifta hófst í byrjun ársins 2022.

Þótt her og yfirvöld í Ísrael þverbrjóti flest ákvæði Genfarsáttmálans þá hafa önnur lönd ekki beitt Ísrael refsi­aðgerðum líkt og gert er gangvart fjölmörgum öðrum löndum sem virða ekki Genfarsáttmálann og ýmsa aðra alþjóðasamninga.

Skýringin felst í því að ríkisstjórnir Vesturlanda álíta Ísrael vera lýðræðisríki að vestrænum hætti og ennfremur hefur Ísrael geysi sterka stöðu gagnvart stjórnvöldum og stjórnmálaöflum víða um heim. Í Bandaríkjunum starfa áhrifamikil sam­tök sem mynda hið sk. Israel Lobby. Meirihluti bandarískra þingmanna styður opinberlega stefnu Ísraels gagnvart Palestínumönnum þótt í öðru orðinu þeir segist virða rétt þeirra til eigin ríkis. Í Bret­landi tókst áróðursliðum Ísraels að hrekja Jeromy Corbyn, sem styður baráttu Palestínumanna, úr forystu­sæti Verkamannaflokksins breska og setja í staðinn Keir Starmer sem er yfirlýstur síonisti og einarður stuðningsmaður ofbeldisaflanna í Ísrael. Í Þýskalandi og Frakklandi er fólki, sem styður baráttu Palestínumanna, gert erfitt fyrir með ýmsum aðgerðum. Yfirvöld reyna t.d. að hindra samkomur og fundi til stuðnings BDS-baráttunni fyrir sniðgöngu gagnvart Ísrael.

Þrátt fyrir andstöðu yfirvalda og tilraunum víða til að setja lög sem banna starfsemi BDS hreyfingarinnar hafa unnist margir sigrar á þessum vettvangi. Lífeyrissjóðir í Noregi, Nýja Sjálandi, Skotlandi og víðar hafa stöðvað alla fjárfestingu í fyrirtækjum sem tengjast mannréttindabrotum Ísraels. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur úrskurðað að barátta fyrir sniðgöngu gegn Ísrael sé ekki mismunun (discrimination) heldur hluti af pólitískri umræðu sem ber að vernda skv. lögum.

Birtist í Frjáls Palestína.

Scroll to Top